Að varðveita minninguna

Ég sagði í bloggi nýlega að ég gerði hluti hér heima sem líka er hægt að leigja vélar til að framkvæma. Ég sagði líka hvers vegna ég vel oft að fara þá leiðina að gera þetta af eigin ramleik og með handafli. Svoleiðis verk var ég að framkvæma í dag. Ég var að undirbúa rúmlega hálfs meters breiða uppfyllingu fyrir hellulögn. Í staðinn fyrir að leigja 120 kg víbrator sem hugsanelga hefði riðið að fullu hluta af undirbúningi mínum valdi ég að troða fyrst með eigin þyngd. Að lokum, í dag, dró ég hendurnar úr vösunum og tók sjö kílóa sleggjuna mína, setti hausinn á uppfyllinguna með skaftið upp, tók í endann á skaftinu og svo sló ég sleggjuhausnum niður svo þétt að það kom far í far.
 
Ég hafði dregið þetta svolítið við mig þar sem ég gerði mér grein fyrir því að það væri lýjandi og ég mundi verða móður. Kannski mundi ég líka fá það á tilfinninguna að ég yrði aldrei búinn. Eftir nokkrar mínútur var ég orðinn móður, það stóðst. Hins vegar komst ég að því að ég mundi verða búinn fyrr en ég hafði ætlað. Hugsandi um þetta kastaði ég svolítið mæðinni eftir fyrsta áfangann. Svo hélt ég áfram þangað til ég var orðinn móður á ný. Ég tók einhverja mínútu í að spá í annað og svo tók ég eina törnina enn og þegar ég var orðinn nægjanlega móður í þriðja skiptið fór ég inn og leit í tölvuna.
 
Ég leit í íslensku blöðin og sá fyrirsögn; Valdís eldar; Gamaldags gómsætt kjöt í karrý með hrísgrjónum og salati. Þar skrifar íslenskur læknir um matargerð tólf ára gamallar dóttur sinnar.
 
Minningabankinn opnaði dyr sínar upp á gátt og ég sá í einu andartaki fyrir mér matarborðið á Sólvöllum og áður við Mejramveginn í Örebro. Það var gjarnan þegar einhverju striti var lokið eða eitthvað mikilvægt var að baki. Þá var það önnur Valdís sem eldaði lambakjöt, hrísgrjón, karföflur og bjó til karrýsósu. Hún bakaði líka oft pönnukökur við slík tilfelli en vissi einnig mæta vel að matur með betri undirstöðu var mikilvægur. Þá rauk af matarborðinu og það lyktaði vel. Stritið sem þá var að baki gleymdist og svo borðuðum við góðan mat. Við borðuðum bæði óþarflega mikið, en hvað um það. Það var nú einu sinni nýtt lambakjöt í karrý.
 
Annars dvínandi sorgin steig hljólátlega fram, settist í hásæti sitt og fyllti herbergið, fyllti heila húsið. Það var ekki sorg sjálfsvorkunarinnar, það var sorg saknaðar og hlýrra minninga. Ég bjarga mér sjálfur en söknuðurinn; það er bara eins og hann komi í heimsókn, bara svona upp úr þurru eins og þegar nágrannar bönkuðu upp á í Hrísey í gamla daga og spurðu hvort það væri til kaffi. Ég get soðið lambakjöt, kartöflur og hrísgrjón, en karrýsósu hef ég aldrei lagað. Sjálfsagt get ég lært það en ég er jafnframt viss um að matarborðið mundi ekki anga á sama hátt hjá mér og það gerði áður.
 
Svo gekk ég út á ný, greip um sleggjuskaftið og hélt áfram að berja niður uppfyllinguna. Jarðneska lífið heldur áfram hjá þeim sem lifa, það verður ekki umflúið. Þegar ég hafði barið niður fyrstu tíu metrana af tuttugu og sex metra langri uppfyllingunni tók ég vatnsslönguna og lét renna vatn í hana til að fá hana til að setjast ennþá betur. Eins og vatnið rann látlaust úr slöngunni runnu myndir hjá og rjúkandi, vellyktandi matarborðið birtist mér hvað eftir annað. Þegar ég fann að tár mín voru að breytast yfir í sjálfsvorkunn skrúfaði ég fyrir vatnið, fór inn og kveikti á kerti fyrir framan stóru myndina af Valdísi. Ég á engan rétt á að vorkenna sjálfum mér en mér ber að bera virðingu fyrir og varðveita minninguna.


Kommentarer
björkin

Söknuðurinn kemur á ólíklegustu stundum.Guð veri með þér kæri mágur.

2013-09-03 @ 00:18:05


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0