Í sumarfríinu

Ég sagði í óttalegu syfjubloggi í gærkvöldi, föstudag, að ég ætlaði að vera í "sumarfríi" í dag, laugardag, og meira að segja á sunnudag líka. Svo las ég þetta blogg yfir í morgun og lét slag standa. Ég lét það vera óbreytt. Stundum kemur það fyrir þegar ég er nógu syfjaður að mér dettur í hug það sem mér mundi ekki detta í hug á miðjum degi. Þess vegna lít ég alltaf yfir þessi blogg og það er afar sjaldan sem ég eyði því sem ég er búinn að skrifa.
 
En nú fór ég út í sálma sem ekki stóð til að fara út í. En alla vega er ég kominn til Stokkhólms og það var jú meiningin í skrifum um sumarfrí. Það er gott að fara með lest og bara geta setið þar og slapað af, horft út yfir grænt landið eða beint í skógarvegginn við hliðina á lestinni. Það er líka gott að loka augunum og dotta svolítið. Hvort tveggja er notalegt og svo áhyggjulaust. Svo þegar sessunautur minn, maður um tvítugt, missti pennann sinn í gólfið lenti hann framan við fæturna á mér. Ég dró pennann til mín með fætinum, beygði mig svo eftir honum og rétti þessum unga manni. Hann leit glaðlega á mig og þakkað fyrir sig. Þar með var lokið samskiptum mínum við samferðafólk mitt í þessari lestarferð. Engum bauð ég góðan daginn.
 
En það urðu meiri samskipti á lestarstöðinni í Stokkhólmi þegar Celsíusgötufjölskyldan tók þar á móti mér. Hannes kom á hlaupum á móti mér og kastaði sér á hné mér og svo heilsuðumst við innilega. Hann var mikið fallegur með sitt ljómandi bros og svo hafði hann frá heilmiklu að segja. Hann átti þá þegar fjarstýrðan bíl heima hjá sér sem hann fékk á afmælisdaginn sinn um síðustu helgi. En hann vissi ekki að í stóra, hvíta haldapokanum sem ég var með var annar fjarstýrður bíll. Hann komst hins vegar að því þegar við vorum komin í hús og stuttu síðar fór prufukeyrslan fram. Úti í húsagarðinum fórum við svo í aksturskeppni en þá vorum við líka öll búin að fá okkur auka morgunverð. Kannski var það meira aksturssýning en keppni, og líklega höfðum við báðir á tilfinningunni að við værum með meira prófið.
 
Mér sýnist þegar ég horfi á þessa mynd af mér að mér leiðist ekkert sérstaklega að taka þátt í þessari aksturssýningu. Við vorum nú báðir í essinu okkar nafnarnir.
 
Svo vildi Hannes fá mig inn í herbergið sitt þar sem við rannsökuðum aðra bíla. Ég var að vísu svolitla stund að átta mig á því hvað hann vildi því að ég hlustaði ekki á því augnabliki sem hann talaði við mig, en hann vildi einfaldlega að ég léki mér við hann. Það var ekki flóknara en svo. Svo fékk ég að prufukeyra legóbílana hans sem sumir eru svo frægir að hafa verið settir saman á Sólvöllum.
 
Honum er lagið að vera fyrirhafnarlaust í stellingum sem mér finnst ekki svo sérstaklega notalegar eða afslappandi. Ég var nú einu sinni í "sumarfríi" og hann var svo tillitssamur að fara alls ekki fram á að ég stillti mér upp eins og hann til dæmis gerir á þessari mynd.
 
En þegar hann var búinn að nota mig aftur og aftur sem hástökksrá, þá fór hann fram á það við mig að ég gerði það sama við hann. Það var auðvitað ójafn leikur þegar litli hoppar yfir stóra og stóri yfir litla, en þegar heimskortið hangir á veggnum svo nærri og flest dýr jarðarinnar spássera þar í kring -ja, þá eykst manni ásmegin.
 
Hann nafni minn er sofnaður núna en við hin sitjum hér í stofunni og það er fremur hljótt í stórborginni. Ég hef bara talað um Hannes og mig en vissulega höfum við verið fjögur í dag og reyndar fimm fyrst eftir að ég kom hingað. Hún Dúdda er mikill vinur Celsiusgötufjölskyldunnar og lætur gjarnan sjá sig hér á laugardögum. Hún er málvísindamaður eins og Pétur en við Rósa erum svo sitt á hvoru sviðinu. Þannig er fjölbreytileikinn hjá okkur mannfólkinu.


Kommentarer
Björkin

Ekki leiðinlegt hjá ykkur nöfnunum sé ég.Flottar myndir.Krammmmmmmm.

2013-09-15 @ 00:36:59


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0