Hjartsláttur minn leitar oft upp í Dali

Eftir hádegismatinn í dag leit ég í tölvuna og óvænt kom myndin upp sem er hér fyrir neðan. Ég notaði hana ekki fyrir svo löngu síðan, en hún er frá Svartnesi í Dölunum þar sem ég byrjaði fyrst að vinna þegar ég kom til Svíþjóðar. Mín tíð í Svartnesi byrjaði á því að ég fór í gegnum meðferðina þar, en það urðu allir að gera sem hugðu á vinnu á meðferðarheimilinu sem þar var rekið. Ég var margar vikur í þessari meðferð, lærði sænsku af miklum þráa og stundaði ákaft gönguferðir á þeim tíma. Kynntist ég þannig mjög vel staðháttum á Svartnessvæðinu og aðeins líka fólki sem þar bjó.
 
Ég setti myndina á feisbókina í dag og bað þá sem þekktu staðinn að rétta upp hendi. Það var gamansemi í mér þegar ég gerði það. En síðan byrjaði ég að horfa á myndina og þá runnu fram hver myndin og minningin á fætur annarri. Það var ekkert lítið fyrir mig að koma þarna tæplega fimmtíu og tveggja ára og að byrja að takast á við lífið á þennan mjög svo ólíka hátt miðað við allt sem ég hafði þekkt áður. Ég held að ég verði bara að segja að það var nokkurs konar endurfæðing. Þegar ég horfði á myndina í dag fann ég vel fyrir því að Svartnes var mér og er mjög kær staður. Ég ætla að fara nokkrum orðum um myndina.
 
Mig grunar að það hafi ekki svo margir Íslendinganna sem unnu í Svartnesi komið á staðinn þar sem myndin er tekin, en hún er tekin frá húsi sunnan við vatnið og Svartnes er norðan við það. Akkúrat fyrir miðju er jú kirkjan. Þetta var mjög stór kirkja fyrir þennan litla stað sem Svartnes var 1994. Staðurinn byggðist upp af finnsku fólki fyrir löngu síðan og var þar fjölmenni, fleiri hundruð manns. Ég settist oft inn í þessa kirkju og sótti þá í næðið þar inni og velti fyrir mér gangi lífsins og þessum nýja vetvangi mínum. Vissulega var ég í þörf fyrir mikinn styrk þó að ég færi ekki hátt með það.
 
Nokkru til hægri við kirkjuna eru húsakynnin þar sem meðferðin var rekin, en þau eru í hvarfi bakvið skógarjaðarinn. Niður við vatnið vinstra megin við kirkjuna er prestsbústaðurinn eins og það var kallað, rautt hús með mörgum gluggum. Mér þótti þetta hús afar fallegt og bjóða af sér mikinn þokka. Hreifst ég mjög af því þar til ég kom inn í það fleiri mánuðum eftir að ég kom í Svartnes. Það sló heldur á hrifninguna að koma inn í það, en í húsinu bjó enginn og hafði ekki gert lengi. Ég held að það hafi að stórum hluta verið músagangurinn í húsinu sem tók af því mesta glansinn í augum mínum. En hvað um það; þetta er mjög fallegt hús.
 
Niður við vatnið aðeins vinstra megin við myndina var lítið hús. Ég held að það hafi verið bátaskýli og það hafi verið hægt að koma með bát af vatninu og beint inn í húsið en þannig hafði það ekki verið notað mjög lengi. Ég sá mög heillandi mögueika við þetta hús. Ég fékk næstum ólæknandi þrá til að eignast það og gera það að sumarhúsi. Við Valdís fórum þangað einu sinni til að spá í þetta og með okkur var Trausti Jónsson sem vann í Svartnesi. Eins og yfirleitt þá var Valdís meira með fæturna á jörðinni en ég og í þessu sambandi var það mikilvægt. Það hefði ekki stýrt góðu heilli að kaupa húsið og flytja svo hundruð kílómetra frá því eins og síðar varð. Það er óvíst að það hefði selst þó að mér hafi tekist að fá algeran glampa í augun yfir þessari hugmynd og mikil vandræði hefðu getað hlotist af. En hvernifg sem allt hefði getað farið þá hef ég hreinlega ekki oft sét fallegri staðsetningu á sumarhúsi í Svíþjóð en þá sem þarna var um að ræða.
 
Gult hús er niður við vatnið vinstra megin við prestsbústaðinn og þar var verslunin í Svartnesi. Það var 17. maí sem við Valdís komum frá Íslandi, en þá var ég búinn að fara heim eftir meðferðina til að sækja hana. Trausti sótti okkurn á járnbrautarstöðina í Falun og fór með okkur beint upp í Svartnes. Við vorum ekki fyrr komin þangað en ég var sendur á fyrirtækisbílnum í verslunina til að sækja birgðir fyrir meðferðarheimilið. Valdís fór að sjálfsögðu með mér og það var hreinlega það fyrsta sem við gerðum saman alveg á eigin spýtur í þessu landi. Þá var ég búinn að vera í Svíþjóð í þrjá mánuði og kominn það langt í sænsku að ég gat talað við búðarkonuna það sem með þurfti. Síðar vann finnska konan Minna í þessari verslun, en hún vann í eldhúsinu á meðferðarheimilinu meðan það var og hét. Þar hitti ég hana nokkrum árum seinna og voru það góðir endurfundir.
 
Ég er ekki viss um hvort Stora sést á myndinni, en meðferðarheimilið átti Stora. Þar bjuggum við Valdís fyrstu tvær eða þrjár vikurnar sem við vorum saman í Svíþjóð. Stora var mjög gott hús að vera í og var nokkuð notað af starfsfólki á meðferðarheimilinu þegar gista þurfti nótt og nótt. Tíminn sem við vorum þar var mjög góður. Þá var Valdís að upplifa þessa fyrstu spennandi daga sem það er að vera í nýju landi. Þá komum við þar saman nokkrir Íslendingar öðru hvoru og Valdís bakaði gjarnan pönnukökur. Það var þá ekki að sökum að spyrja að þá fengu margir fyrstu pönnukökuástina á Valdísi sem síðan breyttist í væntumþykju til hennar fyrir þá manneskju sem hún var. Þessar vikur í Stora var mikið hlegið og gert að gamni sínum og þær eru mér ennþá indæll, ljóslifandi tími.
 
Að lokum. Asbjörn bjó í Svartnesi í húsi niður við vatnið en ég er ekki viss um það núna hvaða hús það var. Hann var Norðmaður sem gerði eitthvað á stríðsárunum sem Þjóðverjarnir voru ekki sáttir við. Hann flýði til Svíþjóðar og settist að í Svartnesi. Hann hitti þar konu og flutti aldrei til baka til Noregs aftur. Ég kynntist Asbjörn aðeins meðan ég vann þarna uppfrá. Nokkrum árum síðar kom ég í Svartnes í einhver skipti og gerði mér far um að hitta þennan rólynda, vinalega og traustvekjandi mann. Þá var eins og við þekktumst meira og við ræddum mikið saman. Síðast þegar ég hitti Asbjörn var kona hans dáin, eitthvað í augnaráði hans hafði kannski dáið með henni og hár hans var orðið hvítt. Samt var hann þessi gamli Asbjörn, hlýr, notalegur að vera nærri, traustur og með báða fæturna á jðrðinni. Mér þótti vænt um þennan mann og langar að vita örlög hans.
 
Síðar vil ég skrifa þetta blogg mitt út, heimsækja Svartnes og bæta inn í og leiðrétta ef einhverjar rangfærslur eru á þessu hjá mér. Ég vil þá líka fá vitneskju um Asbjörn og hvernig honum reiddi af eftir okkar síðasta fund.


Kommentarer
Auja

Svo nærandi þessi blogg kæri vinur

Svar: Þakka þér fyrir Auður, fallega sagt.
Gudjon

2013-09-24 @ 23:59:30
björkin

Gaman verður að heyra frá ferðalaginu kæri mágur.

2013-09-25 @ 12:32:33
Trausti Jónsson

Falleg og hlý skrif um Svartnäs Guðjón minn! Gott að þú manst svona mikið frá þessum tíma, ég man ekki svona mikið en gott að lesa! :) Man samt hversu gaman var að hitta þig og Valdísi! Sérstakalega þar sem við erum "sveitungar" og ég hafði heyrt svo mikið gott um þig frá fjölskyldu minn án þess að minnast þess að hafa hitt þig! :)
Kær kveðja
Trausti frá Kálfafelli og ...smá frá Dölunum! :)

Svar: Já Trausti minn, þú losnar nú aldrei alveg frá þessu frábæra "landskap" sem Dalirnir eru.
Gudjon

2013-09-26 @ 23:23:48


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0