Hvati til góðrar heilsu

Ég hitti lækni í dag, stórskemmtilegan kall. Hann skar blett af bakinu á mér samkvæmt ákvörðun frá í fyrri viku. Hann er nokkuð við aldur og ég leit á hann sem jafnaldra minn. Annars er það að taka nokkuð vel í að tala um að vera nokkuð við aldur á mínum aldri.
 
Með honum var hjúkrunarfræðingur og einnig sjúkraliði sem virtist vera að byrja þarna á heilsugæslunni. Sjúkraliðinn spurði hjúkrunarfræðinginn út í eitthvað sem ég skildi ekki og hjúkrunarfræðingurinn sagði að reyndu mennirnir gerðu svona en þeir ungu vildu gera öðru vísi. Ég leit á þetta sem meðmæli með honum jafnaldra mínum.
 
Þegar læknirinn var búinn fór hann en hjúkrunarfræðingurinn var eftir til að plástra mig og ganga frá. Ég spurði þá hvort þessi læknir væri nýlega byrjaður því að ég hefði ekki séð hann fyrr en í síðsutu viku og svo núna. Hjúkrunarfræðingurinn sagði að hann kæmi oft aðra hverja viku þegar vantaði fólk en hann væri ekki ráðinn. Hins vegar sagði hún að það væri frábært að hafa þennan mann vísan þegar á þyrfti að halda. Það voru önnur meðmælin sem ég fékk að heyra um jafnaldrann.
 
Svo vildi hann fá mig í stutt viðtal inn á stofuna til sín þegar ég væri tilbúinn. Hann vildi gefa munnlega skýrslu vegna prófa sem voru tekin í síðustu viku. Þar kom fram að öll próf og öll athugun sem hann gerði sýndu að ég væri við góða heilsu. Ég sagði honum þá að ég fynndi það vel að ég væri við góða heilsu og að ég væri mjög þakklátur fyrir það. Þá sagði hann að ég væri bara ungur miðað við hann og hann gæti sagt það sama um sína heilsu. Hann sagðist líka stunda mátulega mikla vinnu sem gerðu það að verkum að hann hitti fólk, það væri örvandi fyrir hann og það héldi hugsuninni við. Ég skildi vel að hann var bara að gefa mér heilræði með því að segja þetta og þá sagði ég honum að ég ynni dálítið líka og að ég tryði á það sem hann væri að segja mér. Nú áttum við orðið eitthvað sameiginlegt annað en það að við vorum ekki jafnaldrar lengur, hann var talsvert eldri.
 
Svo kom rúsínan í pylsuendanum þegar þessi vinalegi maður sagði eftirfarandi: "Heilbrigð og nytsöm störf eru hvati til góðrar heilsu og hindra synd."
 
Alveg fannst mér þetta frábært og ég lagði orðin á minnið og endurtók þau margoft í huga mér og var fljótur að skrifa þau niður þegar ég kom heim. Svo þýddi ég þau eins nákvæmlega og mér var unnt. Það var bara vegna þessara orða sem ég bloggaði núna. Við áttum það líka sameiginlegt að við höfðum vinnu sem við gátum stundað á okkar aldri. Værum við til dæmis smiðir eða jarðýtustjórar væri alls ekki víst að við gætum stundað heilbrigð og nytstöm störf á því sviði sem væru okkur til aukinna lífsgæða og heilsubóta.
 
 


Kommentarer
björkin

Þessi orð segja margt.Klár kallinn.Heilsa frá roklandi,og nú fjúka kaufin.

Svar: Heilsa til baka.
Gudjon

2013-09-18 @ 13:29:34


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0