Það er ekki svo vitlaust að vera til

Ég má til með að gera svolítið grín að mér og störfum mínum í eldhúsinu. Ég er búinn að borða alveg ógrynni af fiski undanfarið og fannst nú tími til kominn að fara að borða íslenska lambakjötið sem var búið að vera í frystinum frá því í vor. Þetta voru fallegar sneiðar og mér sýndist á öllu að þær væru ætlaðar til steikingar en ég ákvað að sjóða þær. Öðru hvoru kom ég inn meðan kjötið var að sjóða og leit í pottinn. Skrýtið þótti mér að það var rautt í suðunni og botnaði ekkert í því. En ég batt bara vonir við að það mundi fljótlega fara að grána þó að vissulega fyndist mér þetta óvenjulegt.
 
Svo þegar kjötið var búið að sjóða í klukkutíma leit það ennþá út eins og saltkjöt í suðu. Þá fannst mér mál að fara að lesa á pakkninguna. Það var saltkjöt. Hvergi stóð nokkuð um það hvort það væri útvatnað þannig að ég varð að smakka á soðinu. Það var rammsalt. Þá var bara að hella soðinu í vaskinn og setja nýtt vatn á kjötið. Þrisvar þurfti ég að gera þetta og síðan var maturinn tilbúinn og máltíðin var alveg skínandi. Saltkjöt, kartöflur og smjörklípa þegar bitarnir voru hvað magrastir. Einfalt, hollt og gott.
 
*          *          *
 
Ég settist í stólinn hennar Valdísar í stofunni í morgun. Vinnuborðið hennar með prjónum, heklunálum, nálum, tvinna, töluboxi, skærum og fleiru og fleiru stendur ennþá við hliðina á stólnum eins og það hefur gert svo lengi. Stöku sinnum gríp ég mjög litla bók sem liggur á borðinu og í þessari mjög litlu bók er að finna 167 spakmæli eftir mæta menn og konur.
 
Bókin heitir Von og er á kilinum kölluð gjafabók. Sjálfsagt á hellingur Íslendinga þessa bók, en ég ætla samt að segja frá orðunum á þeirri síðu sem ég lenti á þegar ég notaði aðferðina að setja nöglina á þumalfingri á bókina og opnaði hana þar sem nöglin hafnaði.
 
"Ég þrái að vinna mikil og göfug verk, en það er skilda mín að vinna lítil verk eins og þau væru mikil og göfug."
 
Þetta voru orð Helen Keller sem var rithöfundur þó að hún væri bæði blind og heyrnarlaus. Það er búið að vera svo skrýtið að þessi orð eru búin að flakka fram og til baka í höfðinu á mér í allan dag. Fyrst var ég eiginlega of tregur til að átta mig almennilega á þeim, en síðan komst ég að því að þessi orð eiga vel við mig. Mikill fjöldi athafnamanna framkvæmir svo ótrúlega stórbrotna og mikla hluti, oft á skömmum tíma. Svo er ég hér á Sólvöllum og framkvæmi smáhlutina eins og þeir séu stórbrotnir og göfugir og ég framkvæmi þá svo sannarlega af umhyggju.
 
Fyrir áratugum átti ég mér þann draum að ná tökum á lífi mínu og lifa því á fábrotinn og göfugan hátt og það væri fyrir mig að eiga ríkt líf. Ég held að það hafi verið að renna upp fyrir mér í dag að ég sé kominn þangað. Trúlega hefði ég ekki áttað mig á þessu í dag ef Valdís hefði ekki síðast þegar hún opnaði bókina lagt hana frá sér einmitt á staðinn þar sem ég tók hana í dag til að opna hana af tilviljun.
 
Litla kerran mín sést í fjarska á myndinni ofan við kerru nágrannans sem ég fékk lánaða í dag. Kerra nágrannans má taka helmingi meira en mín. Ég var að viða að mér í dag. Fremst á kerrunni má greina tvær af átta gangstéttarhellum sem ég keypti í dag. Svo eru á henni 300 kíló af sandi og svo fjórtán plankar sem eru fimm metra langir. Úr þessu ætla ég að vinna næstu viku ásamt hluta af 255 gangstéttarhellum sem vörubíll kemur með eftir hádegi á morgun. Hluta af hellunum ætla ég svo að leggja niður að vori.
 
Þrír nágrannar gengu framhjá í morgun. Anní kona Lennarts, ellilífeyrisþegans sem stundum réttir mér hjálparhönd, kallaði yfir grjótgarðinn til mín; "þú þrælar og slítur". Já, svaraði ég, sumir fara í útreiðartúra, aðrir fara í ferðalög, enn aðrir veiða á stöng og sumir drekka brennivín. En hér er ég og bauka við mitt.
 
Ég held að lesturinn á spakmælinu í morgun hafi hjálpað mér að svara þessum orðum á þann hátt sem ég gerði og það á sama augnabliki og Anní sleppti orðinu. Það er ekki svo vitlaust að vera til.
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0