Það má ekki skrökva

Í rauninni er heilmikið sem ég gæti hugsað mér að blogga um í kvöld en kollurinn á mér er of óskipulegur til þess núna eftir vinnu helgarinnar. Ekki að það hafi verið svo erfitt í vinnunni heldur bara að ég er búinn að leggja mig allan fram, hitta marga og eiginlega búinn að tala of mikið. Ég er með sjónvarpið í gangi frammi í stofu og er að hugsa um að slökkva á því vegna þess að núna langar mig að hafa hljótt. Það sem fær mig til að hafa það í gangi er að sá sem stjórnar þar músíkþætti sem verið er að senda út, hann er bara svo klár. Hann heitir Kalle Moraeus eða Kalli frá Úrsa (Orsa).
 
Þegar ég skrepp upp í Dali þarf ég að fara til Úrsa. Þar er bjarndýragarður þar sem bjarndýrin lifa all nokkuð frjáls og svo eru þar nokkrar aðrar dýrategundir sem lifa við sama frjálsræði. Ég hef verið þar á ferðinni í ein tvö skipti og í annað skiptið fórum við þangað með hann Kristinn dótturson þegar hann var ellefu ára. Honum leiddist ekki sú ferð. En það er ekki bara þessi bjarndýragarður sem þar er að finna, heldur er þar útsýnisstaður sem ekki er að finna hvar sem er. Það er hægt að segja margt fleira um Úrsa en ekki meira að sinni.
 
Ég kom heim um sex leytið í kvöld þó að ég væri hættur að vinna um hádegisbil. Ég heimsótti gamlan vinnufélaga á leiðinni heim og svo kom ég við í Marieberg til að sinna nokkrum erindum. Meðal annars var ég með farsímann sem Valdís átti og þurfti að koma honum í notkun fyrir mig. Svo gerði ég eiginlega ekkert annað en það í Marieberg þar sem málið tók á sig svo einkennileg hliðarspor. Og ekkert meira með það en þegar ég kom heim dreif ég mig í vinnugalla, fór út og tók mér skóflu í hönd og hóf að moka mold í hjólbörur.
 
Sjúklingarnir nefnilega spurðu mig hvað ég ætlaði að gera þegar ég kæmi heim og ég sagði eins og til stóð að ég ætlaði að flytja til jarðveg í hjólbörum hérna heima hjá mér. Þeim leist vel á það. En nú kom ég svo seint heim en fann mig þó knúinn til að gera eins og ég hafði sagt. Ég segi þessu fólki að þegar alkohólistar ætla að hætta að drekka verði þeir líka að hætta að skrökva. Ég varð því að vera sjálfum mér samkvæmur og gera eins og ég hafði sagt. Ekki gerði ég eins mikið og ég hafði ætlað en ég gerði þó eins og ég hafði sagt. Og hana nú.
 
Ef ég hætti ekki núna verður þetta svo mikið bull að einhver kemur til með að hringja í félagsmálastofnun og tilkynna að það sé ekki allt í lagi með mig. Því lýk ég þessu bloggi en ítreka þó það að það sem ég sagði um vinnuna með hjólbörurnar og að skrökva ekki, það er dagsatt.
 
Ps. Ég gleymdi að segja það að eftir morgundaginn gerir tíu daga spáin ráð fyrir um og yfir tuttugu stiga eitthvað framvegis.


Kommentarer
björkin.

Aldei heyrt að mágur minn skrökvaði.Góða nótt og sofðu vel.

2013-09-01 @ 21:52:57


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0