Satsumas

Um hádegi tók ég makrílflökin úr frysti og lagði í pakningunni á disk. Svo hélt ég áfram mínu bardúsi hér úti. Ég byrjaði seint þar sem Ford yfirfór bílinn fyrir hádegi þannig að ég var ekki heima aftur fyrr en um eitt leytið. Svona dagar verða ódrjúgir. Svo stuttu eftir að ég kom heim var hringt frá tannlæknastofunni minni og þar vildi fólk fá mig í eftirlit klukkan rúmlega sjö í fyrramálið. Ég afþakkaði. Mér finnst ég þurfa að bremsa aðeins við ef ekki allir dagar eiga að ódrýgjast af einhverju. Annars er þetta misjafnt. Svo er ekkert heilu vikurnar og þá nýtist tíminn mikið betur fyrir það sem ég vel sjálfur.
 
En satt best að segja notaði ég tímann vel meðan þeir yfirfóru bílinn. Ég gerðist meira að segja meðlimur hjá The Body Shop. Það er varla hægt að vera nútímalegri sjötugur maður -eða hvað? Og góð var bollan sem ég fékk mér með bananakreminu og súkkulaðihúðinni ofan á. Og mér tókst tevalið vel. Mér meira að segja fannst teið gott í Marieberg í dag. Annars finnst mér te óttalegt pissivatn, því miður, og selskapsdrykkur er það ekki. Að vísu skipti það ekki máli í dag þar sem ég var einn.
 
Svo keypti ég eitthvað alveg nýtt í kaupfélaginu. Alla vega var það nýtt fyrir mig. Ég las nafnið á verðmiðanum en varð eingu nær. Svo fór starfsstúlka framhjá með vörur í vagni sem hún var að ganga frá og ég spurði hana hverju þetta líktist. Þetta líkist einhverju súru sem er c-vítamínríkt sagði hún um leið og hún tók einn ávöxt og tók börkinn utanaf. Svo rétti hún mér þriðjunginn af þessum litla citrus ávexti og bauð mér að prufa. Hún spurði hvort það hefði verið of súrt og rétti mér svo afganginn. Ef þú borðar vel af þessu verður þú mikið hraustur sagði hún og svo hélt hún áfram.
 
Ávöxturinn gengur undir nafninu satsumas í kaupfélaginu og hefur kannski verið lengi, lengi á boðstólum. Mér fannst þessi kona taka vel á spurningu minni og ég sagði henni líka að hún hefði tekið mér vingjarnlega. Hún sagði að henni bæri að gera það og ég sagði á móti henni hefði tekist það sérstaklega vel. Þar með hringdi Gústav og sagði að bíllinn væri tilbúinn. Ég var því feginn þar sem ég gat þá farið heim að sinna mínu.
 
Klukkan var á sjöunda tímanum nú í kvöld þegar ég kom inn eftir bardúsið mitt hér úti, gekk að tölvunni og skrifaði "steka makril" á Google. Ég fékk upp fjölda mörg svör og hvað skyldi ég svo hafa valið? Jú, ég valdi einföldustu uppskriftina og gerði það ekki flóknara en svo. En árangurinn var slíkur að ég gæti alveg hugsað mér að bjóða hvaða höfðingja sem er upp á þennan einfalda makrílrétt.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0