Stór áfangi

Það er búinn að vera heil mikill dagur í dag. Fyrsta markmiðið sem ég setti mér fyrir daginn eftir að borða morgunverð var að horfa á sjónvarpsmessuna, en hana hef ég ekki horft á síðan í mars eða apríl. Hún fjallaði um að okkur mannfólkinu beri að rétta hvert öðru hendina þegar á bjátar og einfaldlega til að gera daglega lífið léttara. Ennfremur fjallaði hún um að mammon sé svikull og að hin raunverulegu verðmæti í lífinu verði hvorki vegin eða mæld og að þau séu svo ósýnileg eins og til dæmis áhrifin af útréttu hendinni sem styrkir og gleður en verður ei mæld í einingum. Ég er orðinn svo meir ellilífeyrisþeginn að það er eins gott að ég sé einn þegar ég hlusta á umfjöllunina um þessa hluti.
 
Annað markmið mitt í dag var að taka þokkalega á móti gestunum sem komu um hádegisbilið. Vissulega réttu þau mér hendina með því að koma og gleðja mig með nærveru sinni og að gleðja mig tókst þeim svo sannarlega. Ég á Auði og Þóri mikið að þakka fyrir þá tryggð sem þau sýna mér og ég vona að ég geti einhvern tíma rétt út hendina til þeirra, ekki af því að það bjáti eitthvað á hjá þeim, heldur bara einhvern tíma til að lyfta hversdagsleikanum þegar þau eiga minnst von á.
 
Þegar þau voru farin fór ég í óhreinan vinnugallann minn til að ljúka áfanga sem ég eiginlega ætlaði að ljúka í gær en tókst ekki. Það var áríðandi að ljúka honum ekki seinna en núna vegna þess að ég hefði þurft að ljúka honum fyrir eins og tveimur vikum. Ég hef ekki bloggað undanfarið um það sem ég er að gera en núna finnst mér að það sé tími til kominn. Ég er hér með nokkrar myndir sem tala sínu máli.
 
Ég var búinn að birta mynd af veröndinni en þó að tréverkið væri komið upp voru það engin verklok. Anders smiður hjálpaði mér við tréverkið og að steypa stöplana undir það. Það flýtti mikið fyrir. En þar sem ég get gert margt sjálfur leyfi ég mér að vanda ýmislegt meira en ég kannski mundi annars gera, eins og til dæmis hvernig ég gekk frá tröppunni meðfram veröndinni. Þarna var ég búinn að grafa niður á möl þó að það sýnist vera mold í botninum á þessum grunna skurði. Síðan flutti ég á hjólbörunum mínum helling af vegamöl og fyllti skurðinn með henni. Það var gert með ákveðna hluti í huga.
 
Svo sléttaði ég mölina af mikilli vandvirkni og útbjó mér ákveðinn máta til þess sem sést á myndinni. Áður var ég búinn að þjappa mölina og gerði það með sjö kílóa sleggjunni minni. Ég lyfti henni 1560 sinnum reiknaði ég út og sló hausnum niður í mölina og það gerði samtals tæp ellefu tonn sem ég lyfti á mikið styttri tíma en mig óraði fyrir. Einstaka sinnum er ég fljótari en ég reikna með og þá verð ég svo glaður.
 
Það var stór skemmtilegt verk að leggja niður hellurnar og það virtist afar stór áfangi. Það var ekki svo mikil vinna, en þegar ég var búinn að leggja þær niður á sinn stað voru ákveðnar línur alveg á hreinu.
 
Þessi maður, hann Lennart nágranni og ellilífeyrisþegi, kom eitt síðdegi og hjálpaði mér við að ganga frá kubbum sem ég festi svo tröppuna ofan á. Það var heilmikil hjálp í því þar sem það var svolítið óþægilegt að fá þessa kubba rétta, bæði í hæð og breidd ef svo má segja.
 
Hér er svo komin trappa ofan á hellurnar og allt er búið að fá á sig fyrirhugað form. Nokkrar hjólbörur af mold vantaði í uppfyllinguna þegar ég hætti í gær og var ég fljótur að bæta úr því í dag. Síðan jafnaði ég og valtaði og stráði þunnu lagi af mold yfir. Svo sáði ég grasfræinu og valtaði á ný. Þessa sáningu hefði ég þurft að vera búinn að framkvæma helst fyrir tveimur vikum en ég var bara ekki búinn að því. Verði ég heppinn getur blessast að það nái að koma upp fyrir veturinn. Verði ég ekki heppinn verð ég að sá aftur í vetrarbyrjun eða bara að vori. Við höfum slegið lóðina þann fyrsta nóvember að minnsta kosti einu sinni og ef það verður haust núna eins og var þá, þá verður þetta allt í lagi.
 
Það verður gott að slá þegar hægt verður að láta aðra hliðina á sláttuvélinni renna eftir hellunum. Það verða engar rendur sem þarf að reyta eða slá með mótororfi. Það verður létt að hirða Sólvallalóðina með þessum frágangi.
 
Það verður létt að hirða Sólvallalóðina sagði ég. Við Valdís vorum löngu búin að ákveða að leggja hellur meðfram öllu húsinu til að auðvelda hirðinguna. Hún sá það sem sitt skylduverk að slá og því hefði þetta orðið svo mikil hjálp fyrir hana. Hellurnar meðfram húsinu eru ekki komnar en þarna eru komnar hellur sem aldrei var reiknað með. Að við vorum búin að ákveða þetta í sameiningu hefur fengið mig til að hugsa margt bæði í gær og í dag. Ég hef skrifað það niður, ekki alveg án tilfinninga. Hvort ég birti það blogg sýnir sig síðar, ég er ekki búinn að taka ákvörðun um það.
 
Þar sem ég er búinn að fara all náið í gegnum þessa framkvæmd vil ég segja frá því að fyrir nokkrum árum hringdi til mín ókunnur íslenskur maður. Hann hafði séð mig sem stráklingur en ég gerði mér ekki grein fyrir honum fyrr en hann útskýrði fyrir mér hverra manna hann var. Það sem hann vildi mér var að hann hafði fundið bloggið mitt og sagðist lesa það af athygli. Fyrir alla muni hættu ekki að blogga sagði hann. Hann sagðist sjálfur vera að byggja eða breyta sumarbústað og þess vegna hefði hann svo gaman af að fylgjast með því sem við vorum að gera hér úti í Svíþjóð. Óneitanlega hafði þetta nokkur áhrif á bloggdellu mína.
 


Kommentarer
björkin

Glæsilegt hjá þér kæri mágur minn.Sé að þú slærð ekki slöku við,eins og sagt er.Farðu vel með þið.Stórt krammmmmmmmmm.

Svar: Ég geri það mágkona.
Gudjon

2013-09-23 @ 13:29:35
Bára

Sæll Guðjón
Mikið er stórkostlega gaman að fygjast með þér og þínum. Þetta verður alltaf glæsilegra og var þó stórglæsilegt! Ég hugsa oft til þín og kem við í næstu heimsókn í Lekebergshrepp ég lofa því.
Þú ert svo duglegur og vinnubrögðin vönduð að það er nauðsynlegt að skoða þetta aftur og aftur.
kær kveðja og gangi þér vel.
Bára og Halldór Stefán

Svar: Þakka þér fyrir þessa mjög svo jákvæðu kveðju Bára og með bestu kveðju til ykkar mæðgina frá Guðjóni
Gudjon

2013-09-25 @ 00:55:26


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0