Bláberjaskálin er tóm

 
Ég var það stoltur af þessu kvöldmatarborði mínu að ég gat ekki orða bundist. Bláberin höfðu þroskast síðan fyrir helgi og ég fékk passlegt í eftirrétt kvöldsins. Svo reiknaði ég út að ég gæti fengið í eftirrétt einu sinni enn eftir eina þrjá daga. Að því búnu er þeirri veislunni lokið. Það er sama með tómatana. Það er til einu sinni í matinn eftir þetta og þá er þeirri veislu einnig lokið.
 
Stykkið af laxinum var of stórt fannst mér en ég fann ekki annað minna í kaupfélaginu. Ég réttlætti kaupin á þann hátt að ég gæti notað afganginn í léttan hádegismat á morgun, en ekki get ég sagt að þetta stykki hafi verið beinlínis ódýrt. Svo hófst máltíðin og laxinn var góður.
 
Þegar ég var búinn að borða eins og mig lysti leit létti hádegisverðurinn út eins og myndin sýnir. Það var ekkert eftir. Ég varð alveg hissa á þessu, gekk að ruslafötunni og gáði á umbúðirnar hversu þungt þetta stykki hefði verið. Mér blöskraði alveg. Það stóð 477 grömm á miðanum og það er svo mikið að mér dettur ekki í hug að segja frá því. Eitthvað verð ég að haf útaf fyrir mig. :-)
 
Þarna er ég búinn að setja rjóma á berin og pínulítið af sykri til að taka súra bragðið af þeim. Svo beið ég meðan laxinn sjatnaði aðeins. Að því búnu færði ég mig út í hengiróluna og og reyndi að vera lengi að borða þennan næst síðasta veislumat af bláberjarunnanum.
 
Meðan ég borðaði bláberin hafði ég þetta fyrir augunum. Mér leið ekki illa með það. Kvöldsólin var farin að varpa blæ sínum á skóginn eins og sjá má á háa hlyninum aðeins til hægri á myndinni. Það er greinilega ekki allt í röð og reglu á Sólvöllum eins og þessi mynd sýnir, en ég reyndi bara að horfa yfir það. Bæði innanhúss og utanhúss fær hreingerning og tiltekkt að bíða meðan ákveðnar framkvæmdir standa yfir á Sólvöllum. Mér er nú ljóst að annars klára ég aldrei þessar ákveðnu framkvæmdir.
 
Hér er líka af ýmsu að taka þegar þessar yfirstandandi framkvæmdir eru um garð gengnar. Valtarinn kemur til með að eiga sitt hlutverk í framkvæmdunum og litla grjóthrúgan þarna neðarlega til hægri er þegar búin að fá sinn samastsað til frambúðar þegar ég fer í það að laga til eftir atið mitt. Viðurinn þarna út í skógarjaðrinum, það er að segja sá sem er undir bláu ábreiðunni, fer kannski í hús ef vetur byrjar seint. Þann sem er undir þakinu hreyfi ég ekki fyrr en hann fer beint í hús til upphitunar. En þetta með viðinn set ég ekki í forgang. Ég vil til dæmis láta það ganga fyrir að laga stuðninginn bakvið rósirnar hennar Valdísar. Frágangurinn á því hjá mér í fyrra var ekki alveg nógu vel úthugsaður og ég fæ að gjalda fyrir það með nýrri vinnu.
 
Langleggirnir þrír sem eru þarna næstir viðnum eiga að falla í valinn í vetur eða alla vega fyrir næsta vor. Þegar langleggirnir verða farnir ásamt viðnum kemur þarna dálítið svæði sem á að fara undir matjurtir og berjarunna. Til dæmis fleiri bláberjarunna, rifs, hindber og fleira. Fleiri langelggir sem eru lengra út í skóginum eiga líka að fara og eftir það verður fallegra að líta inn í skóginn á þessum stað. Þar er ný kynslóð trjáa að vaxa þar úr grassi þó að það sjáist ekki á myndinni og lágur nýskógur verður mikið fallegri en langleggirnir. Sá skógur verður væntanlega fjórir til fimm metrar eftir eins og tvö ár. Svona grisjun var framkvæmd í vor á svæðinu sem sést á næstu mynd fyrir ofan og sú grisjun breytti afar miklu.
 
Svona er það á Sólvöllum, staðnum sem mér tekst endalsust að tala um. Að geta á næstu árum sinnt í rólegheitum þessari lagfæringu á skóginum er ekki kvöð, heldur verkefni sem mig hefur lengi dreymt um að dunda mér við sem eldri maður. Mér hefur áunnist talsvert í dag og þessi draumur færist nær með degi hverjum. Og svo er bláberjaskálin tóm.
 
Trackback
RSS 2.0