Ég var skoðaður í krók og kring

Ég hef ekki bloggað í fimm daga, hvað er á seiði. Nei, reyndar ekkert. Þetta bara verður stundum svona. Ég vann löngu helgina, þessa helgi þegar sami ráðgjafi vinnur tvo sólarhringa og skilar þar með 40 tímum. Laugardagskvöldið var ég í fríi og var boðinnn í mat inn í Örebro, í alveg frábæra sjávarréttasúpu. Í því sambandi get ég nefnt nöfnin Auður og Þórir sem segir það sem segja þarf um matinn. Ég get líka nefnt nöfnin Svanhvít og Tryggvi og þá tala ég um hluta af félagsskapnum. En ekki skrifaði ég það kvöldið heldur. Í gær eftir að ég kom heim úr vinnunni byrjaði ég á svo skemmtilegu verkefni hérna úti að ég gat bara ekki hætt fyrr en það var komið myrkur. Eftir það borðaði ég, horfði svolitla stund á tölvuskjáinn og ákvað svo að fara að sofa.
 
Í morgun pússaði ég mig upp, borðaði hafragrautinn minn og hafði bæði rúsínurnar og apríkósurnar í honum. Síðan fór ég til Fjugesta. Ég fór vel tímanlega. Ég átti tíma hjá lækni klukkan hálf ellefu. Ég ætlaði að biðja um að athuga tvö smá atriði, svo lítil að ég hálf skammaðist mín fyrir að hafa pantað tíma hjá lækni til þess. Svo þegar ég kom að afgreiðslunni var tölvukerfi hússins í uppnámi og læknar og hjúkrunarfræðingar snerust í kringum konuna sem hafði með tölvuna að gera. Augnablik sneri hún sér að mér og sagðist stundum halda að það væri best að nota pappír og penna.
 
Svo fékk hún tölvuna að virka og gáði að tímanum mínum. Hún leit á umslag sem ég var með og sá þar nafnið mitt. Þá spurði hún mig hvort ég hefði ekki átt að vera þar hálf tíu. Þá hefðu þau kallað mig upp en ég ekki svarað. Ég vissi að það stóð hálf ellefu í dagbókinni minni en fékkst ekkert meira um það. Í þessu kom læknirinn og sagðist mundi taka kallinn inn, hann hefði fimmtán mínútur aflögu. Svo tók hann mig inn á stofu sína og hafði mig þar í meira en hálftíma. Sagði hann kallinn? Nei, hann sagði það ekki. Ég held að hann hafi verið eldri en ég. Ég hafði aldrei séð hann þarna áður.
 
Röskur var hann og það voru engar smá móttökur sem ég fékk. Ég var skoðaður í krók og kring og það voru tekin blóðbpróf og ég látinn pissa. Ég var nú alveg steinhissa á öllu þessu. Orðlaus. Svo settist ég fram á biðstofu og svo var ég kallaður inn til hjúkrunarfræðings og aftur fram á biðstofu. Inn tilhjúkrunarfræðings aftur og aftur fram á biðstofu. Svo aftur inn til læknisins og hann sagði mér að setjast. "Du", sagði hann og beið svo aðeins. Hvað nú hugsaði ég. Þú ert alveg stálhraustur sagði hann og rétti fram hendina með þumalfingurinn upp. Svo sagði hann að það hefði verið best að athuga mig almennilega fyrst ég var á annað borð kominn á heilsugæsluna.
 
Þakklátur var ég fyrir það og þakklátur var ég fyrir að fá þessa staðfestingu á að ég væri vel frískur, eða eins vel og hægt er að áætla eftir góða læknisathugun. Það kom mér reyndar ekki á óvart, ég tala oft um góða heilsu mína. Eftir viku á ég að koma til hans aftur og þá ætlar hann að taka brúnan flekk af síðunni á mér og senda í athugun. Hann sagðist ekki hafa neina ástæðu til að ætla að það væri ekki í lagi með flekkinn en það væri best að fara þessa leið samt.
 
Öllum hlýtur nú að líða mikið betur að vita að ég hafi pissað á heilsugæslustöðinni í dag og að ég sé með brúnan flekk á síðunni. Varla. Að ég segi frá þessu kemur til af því að ég var mjög ánægður með móttökurnar á heilsugæslustöðinni minni í dag. Oftast nær eru fréttir neikvæðar eða frekar neikvæðar eða skipta jafnvel ekki nokkru máli. Þessi heimsókn mín á heilsugæslustöðina mína í dag skipti mig heilmiklu máli, meiru en ég átti von á þar sem ég fékk meiri skoðun en ég ætlaðist til. Svo eru það góðar fréttir að heilsugæslan tekur vel höndum um fólkið sitt. Nú hef ég sagt góða frétt og hana nú.


Kommentarer
björkin.

Samgleðst þér kæri mágur.Góða nótt.

2013-09-11 @ 00:54:58


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0