Ég fann ekki brotin í buxunum mínum

Það var fyrir fáeinum vikum sem ég ætlaði að strauja fimm pör af buxum en ég gafst upp. Ég fékk góða æfingu í þessu þegar ég var í Skógum og þá lagði ég blautt stykki á buxurnar og svo var talað um að pressa þær. En að ég gafst upp þarna um daginn kom til af því að allir mínir fingur virtust vera þumalfingur mitt í lófanum og mér bara tókst það alls ekki. Ég gat ekki lagt buxurnar þannig á strauborðið að brotin pössuðu, ég bara fann þau ekki, og allt var einhvern veginn snúið og ómögulegt. Sem sagt, ég gafst upp.
 
Ég þeytti nýþvegnum buxunum aftur inn í þvottavélina ásamt tvennum buxum sem virðist hreinlega ekki þurfa að strauja. Svo notaði ég þær í vinnuna dag eftir dag með því að vera alltaf að þvo þær. Hinar buxurnar sem þurfti að strauja hengdi ég snyrtilega upp á herðatré þegar þær voru orðnar þurrar og það var ekki fyrr en núna í kvöld sem ég tók fram strauborð og straujárn og gerði nú nýja tilraun með að strauja buxur.
 
Og svo gekk það svo ljómandi vel og ég var svo ánægður að ég straujaði allar þrennar buxurnar og vandaði mig mikið. Á meðan hlustaði ég á þátt í sjónvarpi um fólk á elliheimili og hvernig það gengi að láta því líða vel á kvöldi lífsins. Það gekk á ýmsu. Þekktur sænskur kokkur hafði komið vikulega á þetta heimili um skeið og útbúið mat fyrir íbúana, svona rétt til tilbreytingar og til að athuga hvort hægt væri að gera góðan mat fyrir þá peninga sem hann mátti kosta.
 
Þetta er reffilegur kall og örugglega mjög duglegur kokkur sem telur að aldnir eigi að fá góðan mat til að geta verið við sem besta heilsu og liðið vel. Fólk hlakkaði til komu hans. Starfsstúlka á heimilinu spurði konu sem var greinilega mörgum árum eldri en ég hvernig henni líkaði við Leif og matargerðina hans. Hún sagði Leif mjög duglegan og svo væri hann reglulegur karlmaður. "Ég er orðin ástfangin af honum" sagði sú gamla. Þá leit ég af buxunum og á sjónvarpið og það leyndi sér ekki; það lifði ennþá í gömlum glæðum. Augnaráðið varð tindrandi og augnablikið virtist vera þessari konu mjög notalegt. Og ekki var henni of gott hugsaði ég.
 
Ég var að strauja buxur vegna þess að ég er að fara í vinnu fyrir hádegi á morgun, á að vera mættur klukkan ellefu. Ég vinn fjörutíu tíma þessa helgi með fríi frá hádegi á laugardegi og til hádegis á sunnudag. Hann finnski Jorma vinnur á móti mér þann tíma sem ég verð heima. Svo veit ég ekki um meiri vinnu fyrr en í lok október. Það verður góður tími sem mér finnst ég eiga inni. Ekki er ég þó í vafa um að einhver vinna mun koma upp með litlum fyrirvara á þessum góða tíma. Þannig er það bara og hefur alltaf verið en það má ekki verða eins mikið og hefur verið núna upp á síðkastið.
 
Um síðustu helgi vann ég á móti henni Lottu. Hún er fimmtíu og eins árs gömul og nýlega byrjuð sem ráðgjafi. Við töluðum um heilsufar í ráðgjafahópnum þegar við skiptumst á vöktum og ég taldi mig ennþá vera mjög heppinn með mína heilsu. Lotta, sem ég held bara að verði aldrei veik, sagði mér þá að ég ynni mátulega mikið til að viðhalda góðri heilsu. Ég var henni þakklátur fyrir þau orð.
 
Og nú er ekki mikið annað að gera en fara að bursta og pissa og undirbúa samveruna með Óla, honum sem kastar sandi í augu mín ef ég legg mig ekki í tíma. Ég ætla ekki að gefa honum neinn möguleika á sandkastinu í kvöld og ég ætla að plata hann og verða fyrri til að leggja mig. Hann Mats sagi í veðurspánni að það yrði sumarhiti um helgina. Ég sat úti á nýja pallinum austan við herbergið mitt áðan og drakk te. Svo lagðist kvöldrökkrið yfir. Það var svo notalegt og hljóðlátt. Það eru margar góðu stundirnar hér undir skógarjaðrinum á þessum blíðviðriskvöldum.


Kommentarer
Steinar

Mjög fínir pistlarnir þínir Guðjón

Svar: Þakka þér fyrir Steinar.
Gudjon

2013-09-06 @ 00:27:57
Steinar

Fínir pistlar hjá þér Guðjón

2013-09-06 @ 00:32:59
URL: http://sthorst.blogspot.com/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0