Rúgbrauðið

Fyrir fleiri árum meðan Valdís var í vinnu gat ég bjargað mér og okkur með ýmsa matargerð. En þegar hún hætti að vinna færðist það yfir á hana. Svo tapaði ég niður því litla sem ég kunni og rúgbrauð hafði ég aldrei bakað. Eitt af því síðasta sem við Valdís gerðum saman var að baka rúgbrauð. Hún sat þá á stól utan við eldhúsbekkinn en ég var innan við hann og vann við brauðgerðina undir hennar leiðsögn. Hún var búin að segja mér það áður meðan hún var á sjúkrahúsinu í Örebro að uppskriftin væri framarlega í matreiðslubókinni hennar, ofarlega á síðu hægra megin. Þetta stóðst nákvæmlega eins og hún hafði sagt það.

Fáeinum dögum eftir að Valdís dó kom fólk frá Vornesi í heimsókn og þá var þeim boðið upp á rúgbrauðið sem við höfðum bakað saman og þeim var einnig sagt frá því hvernig baksturinn hefði farið fram. Þau sögðu svo frá því í Vornesi á morgunfundinum daginn eftir. Þau fengu einnig einn brauðhleif með sér og hann var notaður sem meðlæti með árdegiskaffi starfsfólks þann dag.

Svo leið langur tími þangað til ég kom aftur í Vornes aftur, en þá talaði fólk um það hversu ótrúlega gott þetta brauð hefði verið. Sumir báðu um uppskriftina og ég lofaði að birta hana á Feisbókinni. Svo liðu vikur og mánuðir þangað til ég kom þessu í verk. Í kvöld útbjó ég tvær uppskriftir sem eru núna í bakarofninum og verða þar til morguns og það varð til þess að ég kom því loksins í verk að skrifa uppskriftina á sænsku og birta hana á Facebook. Og málið var að það tók mig örstuttan tíma.

Á einum tveimur tímum er þessi uppskrift nú búin að fara um víðan völl og ég hef grun um að hún muni halda því áfram eitthvað framvegis. Þeir sem vinna í Vornesi geta safnað tómum mjólkurfernum á einum degi þar sem mjólkin bókstaflega rennur út þar. Svo fara margir að smakka og mig grunar að íslenska rúgbrauðsuppskriftin eigi eftir að verða vinsæl hér um slóðir um skeið því að ekkert sem hér er kallað rúgbrauð kemst í hálfkvisti við hið mjúka, ilmandi íslenska rúgbrauð.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0