Þegar þú sýnir öðrum kærleika

Það hvílir friðsöm þoka yfir öllu þannig að efstu trjátopparnir eru svolítið ógreinilegir. Það er fullkomlega kyrrlátt en örhæg gola fær mikinn aragrúa af laufblöðum að veifa til mín. Sérstaklega veifa blöðin á hlyninum, þessi stóru sem eru á stærði við tvær útbreiddar hendur. Þau eru farin að gulna á litlu trjánum og spurning fyrir þau að veifa til mín strax ef þau á annað borð vilja gera það. Mörg þeirra geta fallið á hvaða augnabliki sem er. Eftir það verða þau fæða fyrir tré framtíðarinnar sem verða einnig með laufblöð sem vilja veifa mér svo lengi sem ég fæ að sitja hér og virða fyrir mér þetta dásamlega umhverfi sem ég hef austan við húsið. Þetta hús sem ég er búinn að púla við svo margar stundir sem síðan hafa orðið að árum.
 
Ein svona morgunstund eins og ég er að upplifa núna gerir púlið vert fyrir mig að hafa hafa staðið í því. Mikið af því vil ég líka fremur kalla bardús eða bauk. Ég sé mjóan stíg sem liggur út í skóginn beint fyrir framan mig, stíg sem gleypti af mér tugi hjólböruferða af mold til að fá botninn nægjanlega jafnan og sláttuvélatækan, ekki beinan. Ég sló hann í fyrradag og hann er tæpar tvær sláttuvélabreiddir. Svoleiðis stígar eru margir og hlykkjast um lítið svæði af skóginum hér næst húsinu. Ef ég hugsa mér alla þessa stíga gleyptu þeir marga, marga tugi af hjólböruferðum, hundruð. En nú eru orðin eitt og fleiri ár síðan.
 
Meðan ég var að því sá ég fyrir mér litinn dreng á hlaupum, kannski í feluleik með öðrum börnum, eða kannski með afa. Hann hefur þegar verið þarna í feluleik með afa og hann fékk þá hjálp foreldranna við að leita kallinn uppi. Hann er einmitt að komast á þann aldur að þetta verði skemmtilegt. Hann á líka frænkur í Vestmannaeyjum og frænda í Noregi og þó að þau séu orðin táningar og fullorðið fólk -ja, hver veit nema þau hafi líka gaman að þvi að hlaupa þarna með honum innan um allar þessar lifandi gersemar skaparans. Ég á mér líka þær óskir að hann á vissum aldri vilji ganga með afa á þessum stígum, leiðandi hönd í hönd, og tala um lífið og það sem fyrir augu ber.
 
Þessi morgun er svo sannarlega ljúftregur og veltir upp minningum og augnablikum. Því staldra ég við og vil upplifa augnablikin. Ég ætlaði að byrja bardúsið mitt austan við húsið snemma í morgun en ég vil ekki rífa mig alveg strax fá því sem ég upplifi þessa stundina. Það sem ég upplifi núna er einmitt hluti af því sem ég fyrr á árum reiknaði með að maður á mínum aldri mundi upplifa ef ég fengi árin til þess. Ég ímyndaði mér ekki endilega að ég mundi sitja einn við að upplifa það, en það gengur líka að gera svo hef ég fengið að reyna.
 
Þokan hefur enn þéttst og lækkað frá því að ég byrjaði á þessum línum en ég veit að björt sólin er komin vel á loft í suðaustri. Hún mun innan tíðar víkja þokkunni á braut, þurrka upp grassvörðinn og ylja mér við baukið mitt hér úti þegar ég verð kominn af stað með það. Ég kveikti upp í kamínunni áðan í þriðja skiptið á þessu hausti. Ég er með viftu hjá kamínunni til að dreifa hitanum betur um húsið. Ég tími ekki ennþá að setja hana í gang því að þá verður of mikill hávaði í húsinu. Hún er hljóðlát en á sumum stundum er það svo að bara lítill þytur verður að hávaða. Það heyrast mjúk dumphljóð frá kamínunni öðru hvoru en þau minna mig bara á að hlýindin eru að breiða sig um húsið. Næsta hljóð sem mun heyrast verður kraumið í grautarpottinum þegar ég hleypi upp suðunni undir hafragrautnum.
 
Rétt í þessu settust tvær spætur, gröngölungar eða grænspætur, stutt frá glugganum. Þær hlaupa þar um og ég veit ekki hvað þær eiginleg hafast þar sem þær hlaupa fram og til baka. En þær minna mig alla vega á að ég get líka hreyft mig og þær urðu til þess að nú ætla ég að fylla þennan dag með athöfnum. Ég er með það á dagskránni að flytja margar, margar hjólbörur af gróðrarmold að veröndinni austan við húsið og svo ætla ég að sá grasfræi áður en dagurinn er úti. Ég hefði getað fengið gröfu til að gera þetta en það hefði valdið hávaða, tætt upp grænt grasið á lóðinni og plokkað peninga úr veskinu mínu, peninga sem ég get svo notað til að gera eitthvað ánægjulegt fyrir.
 
Spæturnar eru farnar, þokan hefur skyndilega hækkað og þynnst og enn einn af þessum afar fallegu septemberdögum er byrjaður að brosa við mér.
 
Móðir Teresa sagði að "þegar þú sýnir öðrum kærleika, færir það þér frið - og þeim líka".


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0