Sólin er komin upp!

Það var rétt upp úr hálf átta í morgun sem Hannes Guðjón kom inn í herbergið til mín, lyfti gardínunni og sagði; sólin er komin upp. Og það var rétt hjá honum. Það var kominn bjartur dagur. Ég lofaði honum að ég væri alveg að koma fram til þeirra og svo leit ég á nokkrar fyrirsagnir i blöðum áður en ég dreif mig á fætur. Ég var ekki einn yfir hafragrautarmorgunverði í morgun, það var sameiginlegur morgunverður með fleira fólki og það var líka öðruvísi morgunverður.
 
Svolítið baukuðum við saman strákarnir, annars er ég ekki nógu hugmyndaríkur í leikjum mínum við hann. Á þessari mynd erum við greinilega hvor í sínum hugarheimi. Bílunum sem voru miðpunkturinn í leikjunum í gær hafði verið lagt snyrtilega hlið við hlið í gærkvöldi og þannig voru þeir fram eftir degi.
 
Nokkru eftir hádegi fórum við í mjög skemmtilega heimsókn. Við skruppum til Íslendinganna Þórhalls og Völu sem eru til hægri á myndinni. Þórhallur er læknir á Karólinska sjúkrahúsinu í Huddinge en Vala er málvísnindamaður sem vinnur við að skrifa doktorsritgerð og kennir íslensku. Rósa og Þórhallur kynntust á sjúkrahúsinu í Huddinge þar sem þau vinna bæði. Þar komst Rósa líka að því að þau hjón baukuðu við býsna forvitnilega framleiðslu. Þau eru nefnilega með býflugnarækt og hunangsframleiðslu á byrjunarstigi. Það hefur aðeins komið til tals að einsetumanni á Sólvöllum mundi henta mjög vel að fást við þetta. Til gamans má líka geta þess að í plastdunknum þarna á borðinu er afbragðs góður eplasafi af stóra eplatrénu þeirra neðan við húsið. Góðviðrislandið Svíþjóð gefur kost á ýmsu sem skemmtilegt og hollt er að fást við og gott er að hafa á boðstólum.
 
En aftur að býflugunum. Hér eru þau Þórhallur og Vala búin að útbúa trausta undirstöðu undir býflugnabú og byrjunin eru þessar tvær samstæður. Það er ástæða fyrir þessum trausta frágangi. Þó að þau eigi heima í Stokkhólmi sem verður að teljast miljónaborg, þá geta verið dádýr þar á ferðinni. Til að þau velti ekki öllu um koll verður þetta að vera traustlega byggt.
 
Þarna var fullt af flugum á ferð fram og til baka. Við sem vorum þarna gestir héldum að býflugurnar væru ekki svo skemmtilegar að umgangast en það voru þær nefnilega. Þær sýsluðu við sitt og við fylgdumst með og undruðumst hversu þægileg dýr við höfðum þarna í seilingarfjarlægð frá okkur. Svo sagði Þórhallur okkur frá ýmsum stórmerkilegum eiginleikum býflugnanna. Það má mikið vera ef hann smitaði ekki ellilífeyrisþegann í Krekklingesókn.
 
Vala og Þórhallur búa í miljónaborg eins og ég sagði áðan. Samt var sveitakyrrð þarna heima hjá þeim og þau búa í einbýlishúsi á all stórri lóð, lóð sem er í halla og með landslagi, með stórum björgum og klöppum. Lóð sem með sanni getur kallast ævintýraland.
 
Þegar ég kom heim á áttunda tímanum núna í kvöld byrjaði ég á því að fara út í kartöflugarð og kanna uppskeruna, það er að segja uppskeruna af kartöflusáningu númer tvö. Þegar við vorum búin að taka upp í sumar og borða fyrstu sáninguna setti Rósa niður nokkrar kartöflur sem urðu eftir í vor. Það sem er í pottinum er undan þremur grösum af þeirri sáningu. Lítið er það en þetta má svo sannarlega endurtaka að sumri. Við settum mjög seint niður í vor og gátum því ekki sett aðra sáningurna niður fyrr en mjög seint. Að vori ætti að vera hægt að gera þetta allt í tíma og þá kannski verður sáning númer tvö gjöfulli en hún varð núna.
 
Takk fyrir mig öll þið sem ég hitti í Stokkhólmi um helgina.


Kommentarer
Vala

Sæll Guðjón og takk fyrir síðast! Ég er svo forvitin að eðlisfari að ég fór að leita að blogginu þínu og fann það:) Skemmtilegt blogg og gaman að sjá það sem þú skrifar um heimsóknina til okkar. Bestu kveðjur frá Huddinge. Vala

Svar: Gaman að heyra Vala og virkilega takk fyrir skemmtilegu móttökurnar í gær. Það var alveg frábært að sjá allt þarna heima hjá ykkur, nokkuð sem ég átti ekki von á að fyrirfyndist inni í Stokkhólmi. Með bestu kveðju.
Gudjon

2013-09-16 @ 11:47:46


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0