Þorskurinn var búinn

Ég veit ekki hvort ég er einn um þetta en þannig er að vissar stundir er ég mikið duglegri við inniverkin en aðrar stundir og þessar aðrar stundir eru mikið lengri en hinar. Þannig var það nefnilega núna að þvotturinn var búinn að bíða í tvo daga eftir að ég gengi frá honum. Svo ákvað ég eftir kvöldmatinn að brjóta saman og þetta fór mér eitthvað svo vel úr hendi að þegar ég var búinn sá ég næstum því eftir því að það skyldi ekki vera meira að brjóta saman.
 
Þá tók ég fram straugræjurnar og lagði fyrstu buxurnar á strauborðið. Ekki get ég neitað því að þær hefðu ekki verið alveg eins krumpaðar og þær voru orðnar ef ég hefði straujað þær beint af snúrunni. En sem betur fer valdi Valdís straujárn fyrir fáeinum árum sem er svo vel úr garði gert að ef ýtt er á einn hnapp á því kemur þéttur úði niður úr því en ef ýtt er á annan hnapp kemur buna beint fram úr því. Forsendan er þó að það sé sett vatn á þetta makalausa straujárn, þá alla vega virka hnapparnir mun betur. Þessum eiginleikum beitti ég fimlega og innan tíðar hafði ég lagt nokkur pör af buxum á rúmið og brotin voru hreinlega hnífskörp. Þá var komið að skyrtunum, en sumar þeirra líta þannig út að það er ómögulegt að sjá hvort þær eru straujaðar eða óstraujaðar. Slíkar skyrtur straujaði ég því ekki.
 
Vissulega kenndi mamma mér að strauja og pressa buxur en aðal æfinguna í því fékk ég þó í Skógaskóla. Það var ekki fátt sem mér lærðist þar. Samt var ég orðinn eitthvað rytjulegur þegar ég kom heim til Páls bróður og  Guðrúnar mákonu minnar eftir skólaferðalag. Síðan átti að gera eitthvað sameiginlegt í Reykjavík um kvöldið, hvort það var leikhúsferð sem mér dettur helst í hug. En þegar hún mágkona mín leit á mig sagði hún mér einfaldlega að fara strax úr fötunum því að það væri skelfing að sjá mig. Ég að vísu vissi það en reyndi að láta sem ég tæki ekki eftir því. Svo þvoði og straujaði mágkona mín fötin og feginn varð ég þegar ég fór svo í bæinn um kvöldið var ég í nýþvegnum og straujuðum fötum. Sem sagt glerfínn.
 
Ég var ekkert sérstaklega glerfínn þegar ég kom á Brändåsen í kvöld til að fá mér kvöldmat. Ég var að vísu búinn að fara í sturtu og raka mig en fötin var ég búinn að nota hér heima flest kvöld vikunnar. Ég var ákveðinn í því að fá mér þorsk og það ákvað ég þegar á mánudaginn var þar sem ég var búinn að skoða matseðil vikunnar á netinu. Ég hlakkaði til þessarar máltíðar. Innan við afgreiðsluborðið stóð glaðleg, lágvaxin ung kona og þegar ég sagði að ég ætlaði að fá þorsk sagði hún að hann væri búinn, því miður. Og hvað gerir maður þá, sagði ég. Bollurnar eru mjög góðar líka svaraði hún. Hún sagði þetta eitthvað svo óttalega falleg og brosmild að þó að ég hefði ekki viljað bollurnar hefði ég líklega tekið þær samt.
 
Svo settist ég og borðaði einhver fyrn af grænmeti. Eftir stutta stund kom kona með bollurnar á gríðarlega stórum og djúpum diski ásamt sósu, kartöflustöppu og slatta af týtuberjasultu. Bolurnar voru of saltar. Ég er alveg meðvitaður um að ég er dálítið skrýtinn og ég varð alveg viss um það að ef ég hefði fengið þorskinn eins og ég ætlaði og hann hefði verið jafn saltur og bollurnar, þá hefði ég ekki fundið fyrir þessu. Svo borðaði ég bollurnar án þess að gera mér rellu út af saltinu, fékk mér kaffi og eina smáköku á eftir og varð mjög gott af matnum. Var það kannski þess vegna sem ég var svo duglegur þegar ég kom heim?
 
Klukkan er að verða hálf ellefu og ég er búinn að lofa mér því að fara snemma að sofa. Ég ætla líka að vera duglegur á morgun, en það verður að mestu leyti úti, alla vega vel frameftir degi. Það er orðið talsvert síðan ég hef gefið skýrslu um það sem ég starfa við utandyra hér á Sólvöllum. Fyrir mér er það mjög spennandi en ég ætla að halda því leyndu enn um sinn.


Kommentarer
björkin

Er að verða mikið forvitin.Góða nótt.

2013-09-21 @ 00:17:07


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0