Góður föstudagur

Stundum er ég eldsnemma útivið. Í morgun var ég ekki eldsnemma útivið. Það var um hádegi sem ég fór af stað og það lá við samviskubiti. Þá hafði ég gert æfingarnar mínar samviskusamlega, næstum tvisvar sinnum. Ég hafði lesið nokkur blogg og blaðagreinar, skoðað feisbókina, skoðað myndir og velt fyrir mér hlutum. Svo hafði ég borðað hafragraut. Ég leit aðeins inn á Bjarg áður en ég lagði af stað inn í Marieberg og þar komst ég að því að sem ellilífeyrisþegi mætti ég alveg hafa árdegistímana svona. Mér finnst betra að sýsla á morgnana eins og ég gerði í morgun og vera svo duglegur seinni partinn. Ég er duglegastur á tímabilinu fimm til sjö og það er á takmörkum að ég tími að hætta þá. Ég var að til klukkan hálf átta í kvöld.
 
Ég velti fyrir mér vörum í kaupfélaginu í Marieberg, las á umbúðir og spáði í ýmislegt sem ég hef aldrei keypt. Ég skoðaði skrúfur og smáverkfæri í byggingarvöruversluninni K-rauta og keypti að lokum stjörnuskrúfjárnasett (bitsasett). Það er orðið svo flókið þetta með skrúfur og ég á erfitt með að skrúfa ef ekki er rétt stjörnuskrúfjárn í verkfærunum mínum. Svo keypti ég nokkra metra af smíðavið. Einhvern veginn á þennan hátt leið tíminn í Marieberg og ég var að hugsa um að fá mér kaffi að lokum og ríkulega brauðsneið. Svo datt mér í hug að skipta á kaffinu og frekar dýru kremi í TheBodyShop og svo gerði ég. Eftir hátt í þriggja tíma ferð í Marieberg kom ég heim og fékk mér eigið kaffi og brauð sem ég smurði sjálfur.
 
Þegar ég kom svo út á Bjarg var klukkan orðin hálf fjögur og mér fannst pínulítið sem dagurinn hefði runnið út í sandinn. Ég þurfti að byrja á því að saga efni sem ég hafði keypt í K-rauta. Ég dró því yfirbreiðsluna af kínversku vélsöginni minni og sagaði það sem ég þurfti. Það var farið að blása all hressilega fannst mér og sagið vildi meðal annars fara bakvið gleraugun og þar olli það mér óþægindum. Mér varð líka kalt og ég flýtti mér sem mest ég mátti, pússaði spýturnar með sandpappír, burstaði af þeim rykið og flýtti mér svo inn í bílageymsluna þar sem ég fór að mála viðinn sem ég hafði verið að vinna.
 
Heyrðu! en hvað það var notalegt að vera kominn inn í hlýjuna, teygja hendina að rofanum og kveikja ljós. Það var bæði hlýtt og bjart og málningin lagðist á viðinn bara nákvæmlega eins og ég óskaði mér. Þetta var nú reyndar allt í lagi að ég byrjaði svona seint. Stundum verð ég að fara í bæjarferð. Það er hluti af því að lifa lífinu. Svo gekk mér allt vel og nýir hlutir komust af stað í bílageymsluinnréttingunni. Ég komst að því að þetta húspláss var hreinn ríkidómur. Ég fann að það var gott að bardúsa þarna við sitt, gera vistlegt, og það yrði alveg örugglega gott að bauka þarna í framtíðinni líka.
 
Ég var harla ánægður ellilífeyrisþegi þegar ég var búinn að ljúka því sem ég hafði ætlað mér. Ég sá fram á góða tíma og skemmtileg verkefni og þegar vindinn lægði undir kvöldið fann ég fyrir tilhlökkun vegna vorsins. Þá verður svo margt að fylgjast með, ótrúleg fegurð hvert sem litið verður og margt að hlú að. Og það sem hlúð verður að mun sýna þakklæti sitt í því að sýna árangur af mögum toga. Á leiðinni inn í bæ sá ég fyrir mér að bílageymsluinnréttingin yrði tilbúin vel í tíma fyrir Íslandsferðina. Ég þarf líka að sinna mörgu öðru fyrir þá ferð.
 
Til Íslands fer ég þann 19. apríl og ég fer til baka þann 5. maí. Ég mun leysa all nokkuð af í Vornesi í sumar og þar á milli vonast ég til að geta hlúð að ýmsu. Eins og ég hef svo oft sagt vonast ég líka til að geta ferðast svolítið og þegið eitthvað af þeim gistingum sem mér hefur verið boðið upp á. Það verða engar hitabeltisferðir. Meiningin er að það verði í fyrsta lagi ferðir norður á bóginn. Það er margt skemmtilegt sem liggur fyrir.
 
 
 
Hér fyrir neðan eru svo þrjár myndir "að norðan" og þá er ég að tala um 600 til 800 kílómetra fyrir norðan.
 
 
 
 Foto: Agne Säterberg
 
 Foto: Agne Säterberg


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0