Í helgarlok

 
Á fimmtudagsmorguninn var lét ég vekjaraklukkuna hringja klukkan sjö og ég vaknaði aðeins fyrr. Það er alltaf best að vakna á undan því að vekjaraklukkuhljóð eru óþægileg. Ég ætlaði að gera mikið þann dag. Meðan ég var að borða morgunverðinn hafði Rósa samband við mig og spurði meðal annars hvort ég væri búinn að kaupa farmiða til Íslands. Spurði bara sí svona. Nei, ég var ekki búinn að því, var búinn að humma þetta fram af mér lengi, lengi. Svo fór ég í það að kaupa farmiða og ég er ekki fljótur að svoleiðis, velja daga, velja verð, velja morgun, miðjan dag eða kvöld. Svo byrjaði ég á mínum verkum um hádegi en farmiðinn var þó alla vega kominn í höfn.
 
Það var föstudagsmorgun og klukkan hringdi sjö eins og daginn áður. Þá vaknaði ég við klukkuna en ekki af sjálfsdáðum. Ég var búinn að skipuleggja að gera mikið þann dag líka. Ég byrjaði þó á því að panta íslenskan mat hjá honum Guðbirni. Svo byrjaði ég á skipulögðu verkunum um hádegi. Svona er að vera ellilífeyrisþegi og vera verkefnum hlaðinn. (Grín)
 
Það var laugardagsmorgun, í gær, og klukkan hringdi sjö að vanda. Ég vaknaði á undan klukkunni. Ég borðaði minn hafragraut og fór svo út að sækja eldivið. Nákvæmlega þá renndi lúxusbíll inn á Sólvallahlaðið og reffilegur maður um þrítugt kom til móts við mig. Ert þú Bergkvist sem selur eldivið? spurði hann. Nei, ég var ekki Bergkvist og ég vissi ekki hvar hann ætti heima. Síðan lenti ég í löngu símtali við nágranna sem skilaði svo sem engu. Strax á eftir því hringdi síminn og fólk spurði hvort það mætti koma í heimsókn. Já, auðvitað!
 
Svo vonaði ég að þau yrðu lengi á leiðinni því að þá gæti ég bakað pönnukökur. Það var nefnilega sælkeri í mér í gær. En þau voru fljót á leiðinni og ég fékk engar pönnukökur. En það var þó kaffi og hressileg stund og skemmtileg. Svo byrjaði ég á verkunum mínum um hádegi eins og hina dagana og ég kom óvenju miklu í verk. Hressileg heimsókn og kaffibolli gera oft stórvirki. Hveitið er ennþá í skálinni, ég var ekki kominn lengra og ég hef ekki látið eftir mér að baka pönnukökur handa mér einum og háma í mig allt of mikið af þeim.
 
Það var sunnudagsmorgun, í dag, og ég vaknaði klukkan sjö án þess að klukkan væri stillt á hringingu. Svo drakk ég slatta af vatni og gerði æfingarnar mínar, tvær umferðir í einni lotu. Svo fór ég út í skóg klukkan átta til að snyrta ungar eikur. Hálf tíu kom ég inn til að borga morgunverð og horfa á messu. Ég slapp með morgunverðinn fyrir messuna, settist í djúpan stól og svaf af mér messuna. Ég gerði alla vega ekki ljótt á meðan.
 
Að öðru leyti gerði ég mikið í dag, endurnærður eftir útivistina, morgunverðinn og árdeigislúr í djúpa stólnum mínum.
 
Þessa skápa og marga aðra skápa kom ég með frá Hannesi og fjölskyldu í tveimur ferðum í vetur. Þeir voru þá í ótrúlega mörgum pörtum, sundurskrúfaðir og snyrtilega staflaðir á kerrur. Þetta var eldhúsinnrétting hjá Rósu og Pétri, snyrtileg og fín innrétting, en alveg ótrúlega illa skipulögð og illa uppsett af fyrri eigendum. Nokkurn veginn óskemmd samt. Í seinni ferðinni kom ég með stærri stykkin og þegar ég var að bera þetta inn á Bjarg kom í heimsókn sama fólk og kom í gær. Síðan þurfti ég að færa þetta til tvisvar sinnum inni á Bjargi og þegar ég byrjaði á að setja saman í vikunni varð ég alveg ringlaður í öllum þessum ósköpum af hlutum sem nú voru komnir í algera óreiðu. Samt náði ég árangri.
 
Þarna er ég búinn að setja fastan sökkul undir gamla eldhúsbekkinn þar sem skáparnir stóðu á fyrri mynd. Á miðvikudag ætla ég svo að byrja að setja þessa innréttingu upp. Eftir það fer ég með margt út á Bjarg sem er inni í íbúðarhúsinu núna. Eftir það fer að verða mikið fínt hjá Sólvallamér.
 
Mennirnir sem standa þarna komu í heimsókn í gær. Hann Þórir er þarna til vinstri en maðurinn til hægri er sonur Auðar, en Auður stóð á bakvið myndavélina. Það voru Þórir og Auður sem komu aðvífandi og báru inn með mér innréttinguna í vetur. Heimsóknin í gær var hressandi eins og ég sagði áður og sonurinn er á leið til Barsilóna. Hann nefndi það við mig að ef ég ætti leið þar um ætti ég að hafa samband við hann. Hann sagði það með góðum vilja og í fullri alvöru.
 
Það hringdi í mig gamall vinnufélagi núna í kvöld, kona sem er að ég held sex árum yngri en ég. Eftir það samtal er ég ennþá þakklátari en áður fyrir þá heilsu sem ég hef. Þvílík sjúkrasaga sem tók hana langan tíma að segja frá. Eftir að hafa hlustað á þetta fór ég í myndirnar mínar og skoðaði þessa mynd sem Rósa eða Pétur tóku af mér um síðustu helgi. Þegar ég horfi á myndina finnst mér sem ég sé mörgum, mörgum árum yngri en mér finnst þessi kona vera sem sagði mér sjúkrasögu sína fyrr í kvöld. Samt er það hún sem er yngri. Ég tala oft um að ég beri mikla ábyrgð á heilsufari mínu, ég megi ekki sjá mig bara sem fórnarlamb örlaganna. En þegar ég horfi magann á mér á þessari mynd er eins og ég taki ábyrgðina ekki alveg að fullu. Ég fullyrði að ég borða mjög hollan mat en líklega borða ég of mikið. Ég kemst nú að þeirri niðurstöðu eftir að hafa horft á myndina.
 
Ég veit ekki hvort þið sjáið það sem ég sé. Það er tvennt sem ég á við. Annað er að kamínan er orðin skítug og hitt er að það eru fætur undan kommóðu þarna í eldinum. Kommóða á bænum var búin að gera sitt og fer að hluta í eldivið og að hluta í geymslu sem gott smíðaefni. Þetta er hluti af endurskipulagningu heima hjá mér.
 
Um hádegi á morgun fer ég í vinnu og kem ekki heim fyrr en seint á þriðjudag. Í fyrsta lagi kem ég seint úr vinnunni og svo fer ég á námskeið í býflugnarækt sem byrjar klukkan sex á þriðjudagskvöld. Það er að vísu hæpið að það minnki á mér maginn ef ég fer að borða mikið af hunangi
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0