Að sofa með gleraugun á nefinu

Ég endaði daginn á því að líta aðeins í vísdómsorðaalmanökin mín, líta á þá daga sem ég hef ekki litið á undanfarið. Og eitt það fyrsta sem ég rakst á var þetta: "Gott líf felst yfirleitt ekki í stórviðburðum, heldur í litlum, ljúfum andartökum." Það sagði Maya V. Patel en það nafn segir mér ekkert en samkvæmt Google er hún doktor. Meira veit ég ekki og gái ekki að því svo seint á degi. Hins vegar var það mér ljúft að lesa þetta þar sem stórviðburðirnir hafa ekki sótt Sólvelli heim í dag og engar dáðir hef ég drýgt. Ég veit heldur ekki hvort ég get státað mig af svo mikið af ljúfu andartökunum. En alla vega þegar mér fannst um miðjan dag í dag að hlutirnir væru mér öfugsnúnir, þá greip ég til æðruleysisbænarinnar. Líklega verður það að teljast ljúfara andartak en að grípa til blótsyrða vegna mótlætis sem er á endanum upprunnið í sjálfum mér.
 
En ég las meira og næst rakst ég á þetta: "Taktun  þér tíma til að vera einn með sjálfum þér á hverjum degi."
 
Það þarf varla að minna mig á þetta. Einvera er mín daglega gjöf ef ég ekki er á faralds fæti -sem ekki er svo oft.
 
Á öðrum stað las ég um að "ég ætti að læra að vera einn". Að ég staldraði við þegar ég las þetta kemur til af því að mér finnst oft mjög gott að vera einn, ekki alltaf en mjög oft.
 
Nú er ég að hugsa um að skapa ljúft andartak, en það er að ganga til fundar við Óla L þegar ég er búinn að bursta og pissa. En fyrst ég hef nefnt þetta má ég til með að segja frá byrjun eins slíks fundar fyrir nokkrum kvöldum síðan.
 
Ég gekk inn að rúmi, dró af mér sokkana og nærskyrtuna og lagðist á bakið upp í rúm með hátt undir hnakkanum.. Ég ætlað bara aaaðeins að slappa af áður en ég bæri á mig handkremið. Svo slappaði ég af í einn klukkutíma, en þá vaknaði ég við mínar eigin hrotur með gleraugun á nefinu og kveikt á lampanum við hlið mér. Það varð ekkert handkrem það kvöldið.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0