Fjórtándi jólasveinninn er líklega fundinn

Í morgun ákvað ég að baka tvær uppskriftir af rúgbrauði. Ég fór yfir í huganum hvað vantaði og það vantaði bara þrjár fernur af fílmjólk  -kom í ljós eftir nákvæma íhugun. Ég fór til Fjugesta eftir fílmjólkinni og fór með pakka í póst um leið. Svo hraðaði ég mér heim til að baka og lá á því að ég ætlaði ekki að fá mér morgunverð fyrr en allt brauð væri komið í ofninn.
 
Svo þegar ég var að telja bollana af rúgmjöli í uppskriftirnar sem ég byrjaði á að setja í sitt hvora skálina, þá kom í ljós að það vantaði rúgmjöl, það lítið að  ég setti meira af heilhveitimjöli í staðinn. Svo þegar til átti að taka átti ég ekki natron nema í aðra uppskriftina. Þá hringsnerist ég kringum sjálfan mig og komst að því að íhugunin fyrir Fjugestaferðina hefði ekki verið svo mjög nákvæm. Svo ákvað ég að fara eftir meira natroni en setti samt fyrstu uppskriftina í bakarofninn þar sem ég var hvort sem var búinn að hræra hana.
 
Nú fór ég í hina búðina í Fjugesta til að fólk tæki ekki eftir því að ég hefði verið utan við mig fyrr um morguninn. Alkarnir fara líka studnum í næsta hérað til að fara í ríkið ef þeir þurfa að fara þangað tvisvar sinnum sama daginn. Þegar ég var á leiðinni út úr þeirri búð spurði afgreiðslukonan hvort ég vildi ekki taka kortið mitt. Þegar heim kom hraðaði ég mér með seinni uppskriftina og þar sem ég hafði keypt rúgmjöl ásamt natroninu bætti ég einum bolla af rúgmjöli í deigið ásamt hálfum bolla af fílmjólk. Svo setti ég hrærivélina í gang og nú var hún svo full að ég fékk gusu af hálf hrærðu deigi framan á mig. Svuntan hlífði maganum en skyrtuermarnar urðu flekkóttar.
 
Skórnir límdust nú við gólfið sem gaf til kynna að það hafði ekki bara gusast á mig, gólfið fékk sitt líka sá ég á flekkjunum sem þar mynduðust. Síðan setti ég í fernur, tók fyrri uppskriftina út úr ofninum til að setja þá seinni á bakvið. Þá valt ein fernan inni í ofninum þannig að það rann hálf heitt deig í ofninn svo að nú þurfti ég að þrífa. Að lokum hafði allt komist í ofninn en þá sá ág að brauðið í fyrri uppskriftinni hafði fallið við það að vera tekið út úr hitanum. Tilfærslan hafði tekið sinn tíma ásamt því að þurfa líka að þrífa ofninn og deigið hafði væntanlega verið farið að kólna.
 
Þegar ég loks lokaði hurðinni að bakarofninum var ég farinn að halda að ég væri orðinn ellilífeyrisþegi. Ég hefði líklega átt að byrja daginn á morgunverði.
 
Það fylgdu mér fleiri rósir í dag en hér segir en ekki varð ég fyrir rneinu tjóni. Svo fór ég á AA fund og viðurkenndi að ég væri ekki fullkominn maður. Einhvern tíma fyrr á árum hefði ég reiðst og bölvað, kannski krossbölvað, fyrirgefið orðbragðið, en í dag tók ég þessu með jafnaðargeði og sjálfsagt einni og annarri stunu. Nú er ég búinn að smakka á brauðinu úr fyrri uppskriftinni, þeirri sem féll í fernunum, og það er mjög gott, betra en síðasti bakstur minn. Ég er þess vegna að öllum líkindum ekki orðinn neinn ellilífeyrisþegi ennþá, en ég held að fjórtándi jólaveinninn sé fundinn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0