Hversdagsleikinn fór og kom

Á föstudaginn yfirgaf hversdagsleikinn Sólvelli og ég veit ekki hvert hann fór, kannski langt inn í skóg. Bíll ók í hlað síðdegis, heldur fyrr en ég átti von á og skúringunum var ekki almennilega lokið. Þegar ég varð bílsins var yfirgaf ég skúringafötuna og fór út til að heilsa. Skúringafatan er ennþá ótæmd frammi í þvottahúsi og býður þess að mér þyki tími til kominn að sinna henni. Hannes og fjölskylda voru komin og mér fannst mikilvægast að taka á móti þeim.
 
Eitt af því fyrsta sem gestirnir gerðu eftir komuna var að skoða Bjarg og breytinguna þar frá síðustu heimsókn. Síðan vildi Hannes endurnýja kunningsskapinn við leikturninn sinn. Eftir það gekk hann öruggur að leikföngum sínum og öðru sem tilheyrði honum og hann vissi nákvæmlega hvar allt var að finna. Hann kíkti líka upp á loft á Bjargi þegar mamma hans fór þangað upp til að sækja hjólið hans og fleira sem þar var geymt meðan hinn stutti vetur gekk yfir.
 
Pabbi hans byrjaði á því að taka hjálparhjólin af hjólinu og eftir það tók Hannes hjólið og byrjaði umsvifalaust að hjóla. Það var ekki vitað að hann kynni það en það var sama, hann bara kunni það og hjólaði á fullri ferð út og suður á sveitaveginum.
 
Í fyrstu umferð voru engar myndir teknar á Bjargi. Það var ekki tími til þess. Ég blaðraði og þau skoðuðu. En nú er ég búinn að taka fyrstu almennilegu myndirnar inni í þessu góða húsi og Rósa er búin að vígja sturtuna og gefa henni topp einkunn.
 
Já, hér er allt sem til hlutanna þarf og ekki af verra taginu. Þegar ég var að velja sturtu, handlaug og fleira sem þarfa að vera í góðu baðherbergi var aftur og aftur hringt til mín frá Vornesi vegna vinnu. Það varð til þess að aftur og aftur valdi ég vandaðri hluti því að mér fannst sem ég mætti alveg láta það eftir mér fyrst ég nennti að vinna.
 
Það var í apríl í fyrra sem Valgerður vígði herbergið. Hún svaf þar þó að baðherbergið væri ekki tilbúið enda voru þá margir gestir á Sólvöllum. Það er svo sem ekki hægt að segja að málverkin þeki veggina enda voru síðustu handtökin unnin þarna sama dag og gestirnir komu, sértstaklega inni á baðinu, en dyrnar þarna á móti eru þangað inn.
 
Við undum okkur þarna um stund í gær eftir að hafa verið úti við. Það eru í fyrsta lagi bílarnir sem blasa við utan við gluggann á þessari mynd en útsýnið út um þennan vesturglugga á Bjargi er raunar fallegra en frá sjálfu íbúðarhúsinu.
 
Mér fannst ég mega vera svolítið drjúgur með mig þarna í þessu nýja og fína herbergi. Ég var nú einu sinni í helgarfríi.
 
Þarna er Hannes að taka utan af eggjum fyrir hádegismatinn í dag og syngur hraustlega. Ég syng heldur minna og það er pönnukaka á pönnunni, eftirréttur til að hafa eftir hádegismatinn. Ég gekk skrefi lengra í matargerð minni um þessa helgi. Í gær eldaði ég graskerssúpu undir vökulu auga Péturs tengdasonar. Nú er ég löggiltur graskerssúpari.
 
Á eldhúsbekknum er kommóðuskúffa. Það standa yfir all nokkrar breytingar í íbúðarhúsinu á Sólvöllum. Ég fer ekki út í það nánar enda má ég með fullum rétti þegja yfir einhverju. Stuttu eftir að þessi mynd var tekin var hádegismatur og stuttu eftir það héldu gestirnir mínir heim á leið.
 
Hversdagsleikinn kom til baka á Sólvelli jafnskjótt og gestirnir voru farnir. Ég dreif mig í málaragallann og fór út í bílageymsluna til að sparsla. Ég horfði á málara sparsla inni í baðherberginu um daginn. Ég horfði á hvernig hann lagði lag af sparsli yfir samskeyti á gipsplötum, aðeins meira en það sem fyllti yfir samskeytin. Ég hugsaði að það væri snilld að sjá hvernig hann vann þetta, svo jafnt og fínt að það þurfti næstum ekki að slípa eftir hann þegar sparslið hafi harðnað og innþornað aðeins. Ég fann fyrir pínu öfund.
 
Nokkrum dögum seinna var ég sjálfur að sparsla yfir samskeyti í loftinu þarna í bílageymslunni og þá allt í einu veitti ég því athygli að ég var farinn að gera eins og málarinn. Svo áðan þegar ég fór út til að sparsla veggina þarna, veggina móti herberginu og baðherberginu, þá fann ég að ég var bara orðinn flinkari með spaðann en ég hafði nokkru sinni áður verið. Það sem sagt kom eitthvað gott með hversdagsleikanum þegar hann kom til baka eftir að gestirnir fóru. Ég ætlaði að láta málningarvinnuna í bílageymslunni bíða seinni tíma en það er eins og aðstæðurnar krefjist þess að það ég ljúki þessu líka. Ég ætla að spara peninga með því að gera það sjálfur eins og svo margt annað sem ég hef gert sjálfur á Sólvöllum.
 
Eftir að hafa látið sjónvarpið garga yfir mér um stund hef ég nú þaggað niður í því. Kyrrðin er því gengin í garð með öllum sínum gæðum. Fyrir framan mig og aðeins til hægri er altanhurð með stórri rúðu. Ég hef ekki dregið fyrir hana ennþá þannig að ég horfi þar beint út í dimmuna. Það er í lagi. Þegar rósemin ræður er dimman bara dimma, ekki kol svarta myrkur.
 
Góða nótt og gangi ykkur allt í haginn þið öll þarna úti og með stóru þakklæti fyrir heimsóknina Hannes og fjölskylda.


Kommentarer
björkin

alltaf svo falleg vinna hjá þér mágur minn.Glæsilegt baðherbergið.

2014-03-04 @ 13:15:31
Guðjón

Það er rétt, Bjarg er byggt af mikilli umhyggju og það er ekki hægt að segja að það hafi fallið mörg blótsyrði við þá vinnu.

2014-03-04 @ 23:55:10
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0