Fyrsta athöfn dagsins

Um hádegi í gær eftir algert skítverk út á Bjargi og eftir að hafa farið í sturtu til að hreinsa af mér óhreinindin, þá settist ég við tölvuna og orðaflaumurinn bara rann fram svo að ég hafði ekki undan að skrifa. Svo þegar af mér var runninn mesti móðurinn las ég þetta yfir og fannst það vera eintóm steypa. Svo las ég það yfir núna aftur rúmum sólarhring seinna eftir góðan kvöldmat á Brändåsen og sá að það var ekki verra en svo margt sem ég hef birt þannig að ég læt það flakka líka.
 
*          *          *
 
Fyrsta athöfn gærdagsins að lokinni morgunbæninni var að ræsta ösku niður úr kamínunni, taka svo skúffuna sem askan fellur í, fara með hana út í skóg og losa hana þannig að hún dreifðist yfir sem stærst svæði. Á leiðinni til baka í fersku morgunloftinu leit ég heim til Sólvalla og þessi kunnuglega tilfinning að hér væri góður staður umfaðmaði mig. Svo ræsti ég meiri ösku niður í skúffuna, fór aftur út í skóg og losaði öskuna á öðrum stað. Þetta kalla ég að skila því síðasta aftur til skógarins.
 
Þessi skógur sem skapar griðastað á Sólvöllum fyrir öllum vindáttum öðrum en vestri er alls góðs verður af mér. Víst væri einfaldast að hafa hitaveitu eða ódýrt rafmagn til að hita upp með, en það er ekki alveg svo einfalt að sú hugsun leysi allt. Ég vil hafa skóginn og ég vil grisja hann með eigin hendi. Ég vil nota hann á sem bestan hátt og skila honum til baka því sem mögulega gengur að skila til hans. Þá verður hann sem fallegastur og vefur mig þar að auki örmum þegar vindar blása í meira en tuttugu metra hæð þannig að niðri heyrist bara gnýrinn frá vindum allra árstíða. Svo vefur hann mig örmum við allar aðrar aðstæður líka, einnig þegar ég uni mér í draumalandinu.
 
Eldiviðarvinnsla er hluti af menningu og það er þess vegna sem hún Fanney Erla Antonsdóttir frá Hrísey gaf mér bókina um "Hel ved". Tré sem falla í skógi og rotna þar mynda líka koltvísýring og aðrar lofttegundir sem of mikið er af. Þess vegna skilar skorsteinninn ekki svo miklum umframóhreinindum út í andrúmsloftið, eða kannski bara alls engum. Þetta hugsaði ég þegar ég hafði snúið við úti í skógi í gærmorgun og horfði heim.
 
Ég sá líka fyrir mér roskna menn á vöðlum, skríðandi í ám upp í nyrðra Norðurlandi, fangandi lax til að flytja upp fyrir virkjanir sem voru byggðar þegar þeir voru ungir. Þar vilja þeir láta laxinn hrigna. Þessa menn langar í dag að skapa skilyrði sem voru hluti af náttúrunni og frjálsræðinu þarna norður áður en virkjanirnar voru byggðar. Senda þá til Íslands til að læra að byggja laxastiga hugsar kannski einhver. En það fjallar ekki um það. Íslendingar gætu líka komið og lært heil mikið um þetta hér. En þegar búið er að sprengja sundur með tugum og hundruðum tonna af dýnamíti það lífríki sem þróast hefur á þúsundum ára og hella yfir það hundruðum þúsunda tonna af steypu og hlaða í það ótrúlegu magni af vélabúnaði, þá er erfitt með snöggum handtökum að þróa nýtt og skilvirkt lífríki við nýjar aðstæður.
 
Mennirnir sem skríða á vöðlum nú til dags í norðlensku ánum eru margir sömu menn og lágu í hópum á jörðinni, keðjuðu sig við tré eða dráttarvélarnar sínar, fylktu liði haldandi hönd í hönd eða samanbundnir -og það var fyrir mörgum áratugum. Það er reyndar þessari baráttu að þakka sem vissar flúðir og fossar eru ennþá til. Einnig að það eru til ár sem ennþá búa yfir óbreyttum þúsunda ára eiginleikunum og gera mönnum kleift að standa með stangirnar sínar á fallegum morgnum og veiða fisk á vissum stöðum. Annars á ég ekki að vera að segja frá þessu. Það eru þeir sem stóðu í eldlínunni um og upp úr miðri síðustu öld til að bjarga nokkrum ám, fossum og flúðum sem eiga að hafa orðið. Það er þegar þetta sama fólk segir frá sem hlutirnir verða svo óvéfengjanlega sannir.
 
Með þessi orð í huga var ég svo kominn heim úr seinni ferð minni með ösku í skóginn og með það kveikti ég upp. Eftir hafragrautinn, D-vítamínið og kaffibollann fór ég svo út á bjarg til að framkvæma það sem ég ákvað daginn áður að ég skyldi gera með sem glöðustu geði á nýjum degi, en það var að slípa sparsl á átta metra vegglengju. Það er of mikið að segja að ég hafi kviðið fyrir því en skítverk var það samt. Svo slípaði ég i einum áfanga með dyr og glugga opna en samt vildi sem mest af þessu ryki fara upp í nefið á mér. Það sá ég þegar ég var búinn og fór í sturtu til að losna við óþverran af líkama mínum.
 
Þegar ég snýtti mér í eldhusrúlluna urðu sýnilegar langar ræmur af leðju sem höfðu sama lit og jökulleirinn sem brýtst fram þegar hlaup koma í íslensku jökulárnar. Það var mjög ólíkt rennslinu í silfurtæru, óspjölluðu laxveiðiánum sem enn finnast þúsund kílómetra norður í landi, þeim sem ég hafði hugsað til nokkru áður á leiðinni heim úr Sólvallaskóginum. Öll önnur sparslslípun í bílageymslunni á Bjargi verður framkvæmd af málara sem kemur með rafknúna slípivél tengda ryksugu, allt knúið rafmagni sem að hluta til kemur frá fossunum langt norður í landi. Málarinn er búinn að lofa mér að gera þetta þó að hann fái enga aðra vinnu hjá mér. Hann vill mér vel og við erum þar að auki mjög svo sammála um það sem þetta blogg hefur gengið út á. Hann hefur frætt mig um margt skemmtilegt sem er að finna í náttúru þessa lands sem engum skal leyfast að eyðileggja fyrir stundargróða.
 
Hann Pétur tengdasonur tók um helgina kvikmynd af spætu sem fær sér að éta hangandi neðan á tólgarbolta í hestkastaníutré hérna sunnan við húsið. Hann sýndi mér brot af þessari upptöku og það var mjög falleg náttúrulífsmynd sem þar gaf að líta. Spætan, svo litfögur og hrein, og fim var hún og eitthvað svo eðlileg og fín. Ég sá allt of lítið af þessari upptöku því að ég var eitthvað annars hugar og upptekinn. Ég þarf að sjá þetta aftur hjá Pétri og gefa mér almennilega tíma til þess. Náttúran er hér alveg inn á gafli og þegar hún er sem hreinust og best er hún í gríðarlegri andstöðu við svo margt sem við sköpum með athöfnum okkar. Hefði þessi spæta lent í sparslinu sem ég vistaðist í í gær og ég dró upp í nefið á mér, hefði hún sennilega drepist. Þá hefðu hennar hreinu og ótrúlega fallega skipulögðu litir verið fljótir að fölna.
 
Mikið get ég átt góðan eftirmiðdag í þessu jarðlífi mínu ef mér tekst vel við að tileinka mér einfaldleikann og meta hið smáa að verðleikum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0