Þar sem hunangið drýpur

Ég var á öðrum hluta námskeiðs um býflugnarækt í kvöld. Ég skal nú bara viðurkenna í fullri auðmýkt að skerpa mín er ekki orðin meiri en svo að ég man ekki svo mikið eftir fyrirlestur í rúma tvo klukkutíma. En ég get þó líka sagt í fullri auðmýkt að eins og síðast lærði ég núna í kvöld að ég veit minna en ég hált að ég vissi áður en þetta byrjaði. Mér hentar betur að komast í það verklega og læra af því, enda verður næsta kvöld verklegt og þá auðvitað verð ég á Íslandi. En Agneta sem var fyrirlesari þessi tvö kvöld segir að ég muni fá minn skerf eigi að síður. Hún er næstum nágranni minn og í næstu viku fer ég í heimsókn til hennar til að sjá og læra meira. Það eru fleiri sem eru næstum nágrannar og eru með býflugnrækt og allir eru fúsir að veita hjálparhönd ef ég skyldi fara af stað líka. Það sem ég lærði helst í kvöld fjallaði um hvar hægt er að ná í griðar mikinn fróðleik um fagið og hvar hægt er að gera innkaup á því sem óhjákvæmilegt er fyrir nýbyrjara að kaupa.
 
Þetta er hún Agneta yfirbýfluga og hún nýtur þess að tala um bý. Hún byrjaði líka námskeiðið í kvöld á því að sýna myndir frá Reykjavík og nágrenni. Hún hefur komið í Bláa lónið en hafði engar myndir þaðan. Henni fannst afar mikið til Bláa lónsins koma. Hún bjó á hóteli sem heitir Leifur heppni eða hvað það nú var og hún var ekki í neinum vafa þegar hún sagði að það væri lélegasta hótel sem hún hefur búið á. "Það er þarna hjá stóru kirkjunni" sagði hún, "en þó að kirkjan væri ágætlega stór var klósettið sem ég hafði á hótelinu ekki stærra en svo að ég þurfti að bakka inn á það". Svo sagðist hún hafa þurft að bursta tennurnar sitjandi á klósettinu. En þrátt fyrir þessa annmarka á hótelinu var hún mjög ánægði með að hafa komið til Íslands.
 
Þarna er þátttakendaliðið. Þeir sem sitja lengst til vinstri og lengst til hægri eru býflugnabændur og voru Agnetu til aðstoðar. Maðurinn sem ber í dökkun hurðina er líka með býflugnarækt og býr hér rétt hjá, í Furubrekku. Tallbacken. Ein hjón vantar á myndina, en sonur þeirra varð fyrir slysi í dag og var fluttur til Uppsala vegna brunaskaða. Fyrst hann var fluttur þangað er málið all alvarlegt.
 
Svo er bara að sjá hverju fram vindur. Margt sem þarna kemur fram gerir býflugnahugmyndina hrífandi. Maðurinn sem situr lengst til hægri framleiðir þrjú til fjögur tonn af hunangi á ári. Fyrir þá sem þekkja til, þá býr hann mitt á milli Täbykirkju og Örebroflugvallar, ekki svo hættulega langt frá Sólvöllum. Þægilegur maður og vingjarnlegur, kunningi hans Martins gröfumanns sem hefur hjálpað til á Sólvöllum.
 
Veðrið er indælt og spáin er góð. Ég þurrkaði þvottinn minn á útisnúru í dag og ósköp er nú mikið notalegra að ganga frá þvotti sem er þurrkaður úti og mikið ilmar hann betur og er mjúkur að leggja að vanga sér. Það fylgir vorinu að geta gert þetta. Nú er Óli Lokbrá farinn að svífa hér um sali og hefur áhrif á augnalok mín. Það er merkilegt hvað hann sýslar mikið við svoleiðis. Ég ætla að hlíða honum Óla og fara að bursta og pissa og svo kannski rekur huggulega drauma á fjörur mínar í nótt.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0