Svo þarf ég heldur ekki að vera mikilmenni

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að segja að ég hafi verið að dunda mér úti á Bjargi um helgina eins og svo marga aðra daga undanfarið. Það er eins og ég hafi ekki frá svo mörgu öðru að segja. Innantómt, atburðalaust hversdagslíf kannski? Og grátt í ofanálag. Ég bloggaði talsvert um það á síðasta ári að ég ætti að breyta lífsstílnum en svo er ég í svipuðu fari eftir sem áður.
 
Í dag gekk ekki allt eftir sem skyldi en samt gaf ég mér tíma til velta fyrir mér atburðarás. Við Valdís höfðum oft talað um hvort við ættum að fara út í þessa byggingu eða ekki. Við vorum nú bæði gætin hvað það áhrærði og þá sérstaklega Valdís. Eins og ég hef oft sagt var hún oftast með báða fæturna á jöfðinni þegar ég var að reyna að svífa á vængjum morgunroðans. Ef þú ert viss um að þetta setji okkur ekki á hausinn, sagði hún, þá finnst mér að við eigum að gera þetta. Þá vorum við komin þangað.
 
Ekki neita ég því að þegar hún sagði þetta var ég farinn að veita athygli einkennum sem mér féll ekki við. En það er nú bara þannig að ef ég rýni endalaust á þannig hluti, þá verður aldrei neitt. Svo teiknaði ég, mældi fyrir húsi, við ræddum um stað og ég mældi aftur og svo var skipt um stað. Það voru fleiri í þessari umræðu en við Valdís. Rósa og Pétur komu mikið við sögu. Og aftur og aftur var skipt um stað fyrir húsið og aftur og aftur breytti ég teikningu.
 
Að lokum sótti ég um byggingarleyfi. Þegar það var klappað og klárt var líka ljóst að Valdís væri alvarlega veik. Þá var líklega rétt að hætta við. Nei, ég komst mjög fljótt að þeirri niðurstöðu að ef ég vildi hætta við væri ég að undirstrika að hún væri að deyja. Svo héldum við áfram. Um þessa hluti hugsaði ég í dag og fann fyrir notalegri tilfinningu og virðingu fyrir því sem ég var að gera. Það var komið sem komið var. Það er hægt að spila úr lífinu á misjafnan hátt og mér finnst ég vera að gera rétt. Líf mitt er einfalt, látlaust, ég er nægjusamur en ekki nýskur, legg meiri pening í matinn en margur gerir, en ég vil vita að það sé vandað sem ég býð líkama mínum upp á.
 
Í gær hafði liðið langur tími frá því að ég hafði litið í almanökin mín með vísdómsorðum dagsins þannig að mér fannst tími til kominn. Í fyrra almanakinu sem ég leit í sagði fyrir gærdaginn: Andaðu að þér ferskum blæ dögunarinnar svo að hún verði hluti af þér. Það færir þér styrk. Það er sagt að þetta komi frá Hopi indíánum.
 
Ég horfði á þetta um stund og hugsaði sem svo að utan útvarps, sjónvarps, síma, farsíma, bíla, flugvéla og án alls annars skarkala í nútíma neysluþjóðfélagi, að þá yrði ég meira og öðruvísi móttækilegur fyrir lífinu sem bærist kringum mig og fyrir jörðinni sem ég geng á og er heimili mitt í alheimi.
 
Þegar ég hætti smíðum í dag gekk ég út í skóginn minn, nokkuð sem ég hef ekki gert í einar tvær vikur. Það var lygnt í skóginum, það var hljótt og mörg trjánna gnæfðu meira en tuttugu metra yfir mig. Loftið var ferskt og ég bókstaflega fann hvernig það dróst niður í lungun við innöndunina og gaf mér líf. Það var gott líf og ég gekk annan hring. Þegar ég var að koma til baka heim var hringt til mín frá Íslandi og ég var svo feginn að það var hringt eftir að ég hafði gengið þessa tvo hringi en ekki meðan ég lá á hnjánum í nýbyggingunni og boraði með höggbor fyrir festingum í steingólfið.
 
Texti gærdagsins í hinu almanakinu var svohljóðandi: Staða, völd, peningar eða vinsældir skapa ekki mikilmenni.
 
Það var góður og einfaldur boðskapur. Það er kannski í góðu lagi að ég lifi einföldu lífi hér heima á Sólvöllum, baukandi við mitt án mikilla efna og með völd einungis yfir sjálfum mér. Svo þarf ég heldur ekki að vera mikilmenni. Lífið er ekki innantómt, atburðalaust hversdagslíf og ekki grátt heldur.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0