. . . . . röddin verður þýðari og ber keim af lotningu

Það var mánudagur 10. mars og ég fór í vinnu nokkru fyrir hádegi. Ég gekk beint til verks og ég hitti talsvert af fólki sem ég hafði aldrei hitt áður. Ég á aldrei í neinum vandræðum með að nálgast það og það er líka talsvert forvitið um mig. Ég var mest á sjúkradeildinni sem var líka minn aðal vetvangur allra fyrstu árin mín í Vornesi.
 
Svo kom þriðjudagur og þann dag vorum við þrír ellilífeyrisþegar sem önnuðumst meðferðina þar sem allir ráðgjafarnir voru einhvers staðar á ráðstefnustað að leggja á ráðin um meðferð framtíðarinnar. Við gamlingjarnir héldum okkar gamla striki og meðferðin gekk afar lipurlega hjá okkur. Við þurftum að taka á móti fjórum nýjum sjúklingum og þar af tveimur verulega veikum, þeir veikustu sem ég hef tekið á móti í mjög mörg ár. Að fara höndum um farangur slíkra manna kostar að hafa hanska og ég kann á það og hika ekki við að ganga að verki. Henda síðan af mér hönskunum og fara beint inn í grúppu eða fyrirlestrarsal. Hafa síðan samtöl og að skrifa samtölin og fara síðan í grúppu aftur eða eitthvað, eitthvað annað. Það gilti að vera á fullri ferð og það örvaði mig á undraverðan hátt og skrefin urðu bara léttari og léttari.
 
Klukkan fjögur seinni daginn lagði ég af stað áleiðis til Örebro. Ég var á leiðinni á námskeið! Fyrst var að finna húsið og svo var að finna bílastæði og svo var ég mættur í skólastofu fimmtán mínútum áður en námskeiðið byrjaði. Það var kona, nánast nágranni minn, sem annaðist námskeiðið. Hún kynnti sig og svo áttum við þátttakendur að kynna okkur og segja líka frá því hvað það var sem dreif okkur á þetta námskeið.
 
Þegar ég var búinn að kynna mig með nafni sagði ég nokkurn veginn þetta: Áhugi minn fyrir að koma á þetta námskeið í býflugnarækt byggist á því að vinnufélagi dóttur minnar, íslenskur skurðlæknir á Karólinska sjúkrahúsinu í Huddinge, talaði um það við hana að pabbi hennar ætti kannski að kynna sér býflugnarækt. Ég veit að í vinnunni opnar hann kviði fólks og brjósthol, gerir við innihaldið, færir það jafnvel út á vinnuborð, vinnur með það þar og setur það síðan á sinn stað aftur og lokar. En þegar hann kemur heim sýslar hann gjarnan með býflugurnar sínar og þegar hann segir frá þeim breytist raddblærinn, röddin verður þýðari og ber keim af lotningu.
 
Lýsing mín á störfum læknisins er algerlega mín, ég hef ekki hugmynd um hvernig svona vinna fer fram, en fyrir mig er þessi vinna nokkuð sem er ofar mínum skilningi.
 
Konan sem sá um námskeiðið er sjálf með býflugnarækt. Hún talaði í næstum tvo klukkutíma og hvað eftir annað kom hún inn á þetta með lotninguna og að raddblærinn breyttist. Hún einfaldlega notaði það og sagði þá; "eins og íslendingurinn sagði um skurðlækninn í Huddinge". Lotning hennar sjálfrar fyrir býflugnasamfélögunum leyndi sér ekki. Hún hafði um langt árabil áður en hún varð ellilífeyrisþegi unnið við aðstæður þar sem bæði yfirvöld og almenningur stóðu í stríði við hana, en hjá býflugunum sínum fann hún svo griðastað á kvöldin. Hún sagðist því vel geta skilið að raddblær skurðlæknisins breyttist þegar hann talaði um þær. Ég get sagt um þetta kvöld, þar sem ég var þó aldeilis allt of þreyttur, að ég lærði það í fyrsta lagi að þessi býflugnasamfélög eru mikið, mikið fullkomnari og adáunarverðari en ég hafði gert mér nokkra grein fyrir áður.
 
Eftir rúmlega tvo og hálfan tíma lauk námskeiðinu það kvöldið og skömmu síðar var mér öllum lokið. Skrefin sem ég steig svo létt í Vornesi fyrr um daginn urðu þung og ég reyndi yfir höfuð að komast hjá því að stíga þau. Fyrst var það djúpi stóllinn eftir heimkomuna og þaðan valt ég í rúmið með viðkomu hjá tannburstanum.
 
Svo gekk miðvikudagurinn í garð og ég var all nokkuð tímanlega á fótum og ætlaði að koma miklu í verk, var búinn að leggja það allt vel niður fyrir mér og hlakkaði til. Eftir hafragrautinn hringsnerist ég svo kringum sjálfan mig og verð að segja að ég var mjög mikilvirkur -mikilvirkur í að gera ekki neitt. Ég fór meira að segja á AA fundinn um kvöldið án þess að fara í sturtu eða raka mig.
 
Á fimmtudagsmorgni, í dag, kom ég eins og svífandi úr miklli fjarlægð þegar klukkan hringdi sjö. Sótarinn var að koma. Ég hvolfdi í mig þremur glösum af vatni og tók síðan til við að þrífa kamínuna og nágrenni hennar. Það var mikið að þrífa! Svo kom sótarinn klukkutíma á undan áætlun. All dökkur var hann á hörund og skítugur vel. Hann vann hratt og ég geri ráð fyrir að hann hafi gert skyldu sína og svo skildi hann talsverðan skít eftir sig þegar hann yfirgaf Sólvelli.
 
Síðan gekk ég að verki og tók loks til við það sem ég gerði ekki í gær. Ég skipulagði líka bókasafn í því sem ég dags daglega kalla bílageymsluna. Mér býr svo hugur að bílageymslan verði bílageymsla án bíls. Bíll er líka einungis blikk og plastdrasl, nauðsynlegur en steindauður hlutur.
 
Þessa mynd tók ég þegar ég fór í kynnisferð til læknisins seinni partinn í fyrrasumar til að sjá býflugurnar hans. Þarna eru jú Rósa, Hannes Guðjón og Pétur, síðan hjónin Þórhallur og Valgerður. Ég held að Valgerður sé eins og Þórhallur, að hún sé einnig með svolítið býflugnasmit. Leiðbeinandinn á námskeiðinu í fyrrakvöld sagði að þau okkar sem væru þegar ákveðin í að hafa tvær býkúpur mundum innan mjög skamms tíma verða komnir með 36, svo smitsamar væru býflugurnar.
 
Ég er nú meiri rugludallurinn en ég verð bara að standa undir því.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0