Hakamaðurinn á Sólvöllum

Ég fékk tvö meil í morgun. Annað þeirra minnti mig á að ég ætti að forsá fyrir graskerjum á morgun og hitt minnti mig á að ég ætti að forsá fyrir zucchini. Zucchini var mér vitanlega ekki í umferð á Íslandi þegar við fluttum út en mig grunar að það kallist kúrbítur á íslensku. En svo er það þetta; er þetta aprílgabb? Ef svo er verður hlegið að mér.
 
Nei, ég hef engar áhyggjur af því. Ég sái fyrir nokkrum graskerjum og kúrbít. Ég á tvo tóma eggjabakka sem ég ætla að skera til og sá í. Þá verður hægt að setja plöntuna í mold úti seinna í vor án þess að skemma ræturnar. Þetta er aðeins fyrr en ég ætlaði að byrja með útiverkin. Ég ætla að vinna á Bjargi á morgun, fara svo í vinnu á miðvikudag og fram á fimmtudag og eftir það ætla ég að fara af fullum þunga í útiverkin fram að Íslandsferð.
 
Ég að vísu sái þessum tveimur frætegundum á morgun. Svo verð ég næstum því búinn með það sem ég hafði sett mér að vera búinn með fyrir vorverkin. Þegar ég fer í þau verð ég þar, bæti við frekar en ekki og gef ekkert eftir. Ég er orðinn slakur við innivinnuna. Ég er eins og fullmettaður af henni og það verður gott fyrir mig að breyta til.
 
Í dag fór hann Ívar framhjá á hálfrar aldar gamla Fergusoninum sínum með litla vegasköfu aftan á vélinni. Þá var ég á leið til vinnu út á Bjargi en sneri mér á punktinum þegar ég sá hvað Ívar var að gera, sótti hakann minn og garaðhrífuna og fór líka út á veg. Rafmagnsveiturnar grófu niður nýtt rafmagnsinntak í fyrrahaust hjá nágranna mínum. Þeir skildu við veginn þannig að það varð alger hraðahindrun eftir þar sem skurðurinn var. Á þessu eru svo allir bílar búnir að hossa síðan verkinu lauk og þessi nágranni er of ungur til að taka til hendi við svona nokkuð.
 
Slíkt á að laga með vél finnst þeim ungu og Fergusoninn hans Ivars réði ekkert við það. Hakinn er hins vegar mikilvirkur ef maður nennir að taka sér hann í hönd. Það þarf ekki einu sinni að reiða hann til höggs, það er nóg að lyfta honum og láta hann svo detta og draga aðeins að sér um leið. Síðan notaði ég garðhrífuna til að raka burtu hrygginn sem rafveiturnar skildu eftir þarna og jafna honum í lægðina við hliðiina. Svo sótti ég vatn í tvær garðkönnur og vökvaði og svo sótti ég bílinn til að troða og þar með lagði ég blessun yfir vel unnið verk. Þannig getur vegaviðhald farið fram á einkavegi í hátæknivædda landinu Svíþjóð.
 
Þar sem ég er nógu gamall og mátulega einfaldur til að leggja mig í svona verkefni með hendurnar að vopni, þá ákvað ég fyrir löngu síðan að það mundi verða verkefnið mitt. Ég ætla að fá kerru unga nágrannans að láni í staðinn. Það verða ágæti skipti því að ég var ekki mikið meira en háftíma að laga þetta og hálftíma að sýna ungu fólki hvernig oft er einfaldast að leysa hlutina. Annars eru nágrannar mínir góðir. Við erum hins vegar á misjöfnum aldri og þurfum stundum að bæta hver annan upp.
 
Á morgun koma vörubílar með vegamöl sem þeir sturta á einhvern svo leyndardómsfullan hátt í hnífjafnt sex eða sjö sentimetra lag á veginn. Þetta þýðir að þeir fara ótrúlega hratt með pallinn uppi og þar sem greinar stóru Sólvallaeikurinnar hafa stækkað síðan þetta var gert síðast, þá sagaði ég af henni nokkrar greinar sem ég bar síðan út í skóg. Bílstjóranum mundi ekki líka að brjóta þessar greinar með bílpallinum. Vorverkin eru eiginlega hafin.
 
Þetta með að dreifa mölinni svo jafnt á veginn hefur nánast heillað mig. Því fór ég að máli við bílstjóra fyrir nokkrum árum þegar hann hafði losað nokkur bílhlöss á þennan hátt og hrósaði honum fyrir verklagnina og sagðist einfaldlega dást að því að þetta væri hægt. Ekki gekk upp í honum hrokinn við hrós mitt, en hann tók því vel og sagði svo af mikilli hógværð að þetta væri nú bara hálgerð tilviljun frekar en verklagni. Ha ha ha sagði ég, tilviljun þegar losuð eru sex vörubílshlöss í einni lotu og hvert þeirra fer á hátt í hundrað metra vegakafla -og hnífjafnt allt saman.
 
Jæja, það er gaman að þessu. Ég ætla að fylgjast með bílstjóranum á morgun og njóta þess að fylgjast með verklagninni. Svo jafnt sturta þeir efninu að ójafnan sem rafveiturnar skildu eftiri í fyrra hefði komið í gegn svipað og undirskál sem lendir undir borðdúknum, hún verður vel merkjanleg og ekki svo skemmtileg að hafa hana þar undir borðhaldinu.
 
Það er rúmlega kominn háttatími fyrir hakamanninn á Sólvöllum. Góða nótt.


Kommentarer
Björkin

Gaman að þessu.Góða nótt mágur minn.

2014-04-01 @ 02:15:31
Guðjón

Og góðan daginn segi ég, nu er tveggja tíma munur á milli landanna og þetta sá ég ekki fyrr en í morgun.

2014-04-01 @ 07:21:51
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0