Vordagur í Stokkhólmi

Frá gönguferð á Kungsholmen og nágrenni í Stokkhólmi meðan annað fólk stundaði vinnu sína og barnabarnið undi sér í leikskóla.
 
I Kronubergsgarðinum. Ég get alveg lofað að þarna kemur smám saman að birtast mikið og aðlaðandi laufhaf þegar lengra kemur fram á vorið. Þessi garður er nokkra tugi metra ofan við Celsiusgatan þar sem ég er nú í heimsókn hjá honum Hannesi Guðjóni og fjölskyldu hans. Laufhafið, þetta indæla græna líf sem gefur svo mikinn ljúfleika og ilm, það gefur lífinu aukið gildi. Það er bara þannig.
 
 
Nokkrum metrum neðar tók ég þessa mynd í hina áttina, niður Kungsholmsgatan. Þarna til vinstri sér í Celsiusgatan þar sem hún mætir Kungsholmsgatan. Byggingarnar á móti Celsiusgatan, þarna hægra megin götunnar, eru höfuðstöðvar sænsku lögreglunnar og þar er líka annað af traustustu fangelsum í Svþíþjóð, Kronubetgshäktet. Hitt traustasta fangelsið er í Kumla, ekki svo langt frá Sólvöllum.
 
 
600 skrefum neðar í Kungsholmsgatan er Kungsholmsgatan 17 þar sem Hannes átti heima fyrstu mánuðina eftir að hann fæddist. Ég gekk þarna hjá á gönguferð minni í dag á leiðinni niður til Riddarfjärden.
 
 
Á leiðinni niður að Stadshuset gekk ég meðfram Klarasjö. Það er mikið vatn í Stokkhólmi og snnleikurinn er sá að þetta er afar, afar falleg borg. Brúin sem er lengra frá heitir Kungsbron og liggur út til Kungsholmen þar sem Rósa, Pétur og Hannes Guðjón eiga heima. Að vísu alls ekki eina brúin sem tengir Kungsholmen við aðrar eyjar þessarar borgar.
 
 
Og Klarasjö í hina áttina og þarna sést í turninn á Stadshuset þar sem Nobelveislurnar fara fram. Hinu megin við Stadshuset er svo Riddarfjärden. Básarnir fyrir bátana þarna hægra megin vatnsins verða brátt fylltir af bátum ásamt tugþúsundum annarra svona bása fyrir báta vítt og dreift um Stokkhólmssund.
 
 
Og enn við Klarasjö. Byggingarnar hinu megin við Klarasjö eru stærri en á Sólvöllum.
 
 
Riddarfjärden. Ætli við getum ekki látið eftir okkur að kalla hann Riddarafjörðinn.
 
 
Kominn framhjá Stadshuset og að Riddarholmsbron. Myndin tekin yfir Riddarafjärden.
 
 
Þessi mynd er tekin af Riddarholmsbron sem liggur yfir til Gamla Stan. Meðan ég gekk þarna nokkur hundruð metra vegalengd sá ég svo margar svona lestir fara hjá að ég var farinn að halda að það byggju mörg hundrðu manns í þessum bæ. Þetta varð nú hálfgerður aulabrandari.
 
Í Gamla Stan fékk ég mér kaffi og smurbrauðssneið, leit inn í Storkyrkan, Stórkirkjuna. Í Gamla Stan var aldeilis krökkt af fólki. Síðan hélt ég svipaða leið heim á leið. Þessa leið gekk ég líka með Valgerði fyrir tæplega ári síðan. Ég lagði ýmis nöfn á minnið og ein ástæðan til að ég skrifa þennan texta og birti þessar myndir er að fá betri yfirsýn yfir nöfn og staðhætti í Stokkhólmi.
 
 
Nú var ég búinn að fara heim og leggja mig og þegar Rósa hætti að vinna fórum við á leikskólann að sækja Hannes. Hann fór á nýja hjólinu sínu á leikskólann í morgun og svo hjólaði hann með okkur heim og hann sýndi afa hvað hann var duglegur að hjóla, beygja og bremsa. Við fórum nú meðfram enn einu sundinu, sundi sem ég kann ekki nafn á. Það er margt að sjá í Stokkhólmi og ég þarf að taka mig til og skoða mikið, mikið meira af þessari borg, læra nöfn á mörgum sundum, eyjum og hólmum. Svo á ég líka eftir að skoða stóran meirihluta af þessu landi. Ég á eftir að skoða síðustu 1000 kílómetrana norður í þessu langa landi og þeir sem eiga þar heima segja að ég eigi þar með eftir að skoða það merkilegasta af allri Svíþjóð. Hverjum þykir jú sinn fífill fegurstur en ég trúi þessu vel og veit að eftir því sem norðar dregur verður landslagið stórbrotnara. Hver landshluti hefur sinn ljóma.
 
Og svo er það þetta. Ef ég skyldi eftir tvo mánuði ganga þessa sömu leið og ég gekk í dag, sem ég ætla rétt að vona að ég komi í verk, og tæki myndir á sömu stöðum, þá yrðu þeir staðir óþekkjanlegir miðað við útlitið sem þeir hafa í dag. Græna hafið sem brátt fyllir allar trjákrónur breytir afar, afar miklu. Það er önnur ástæða til þess að ég blogga á þennan hátt núna, að geta síðar borið saman myndirnar nú og síðar á vorinu eða komandi sumri.
 
 
Útivistum þennan dag lukum við með því að fara á kaffihús og halda svolítið upp á föstudaginn með því að smakka á góðgæti. Til dæmis Hannes fékk sér súkkulaðibollu og afi stóra sneið af eplaköku. Mikið, mikið gott var það og allir ánægðir. Við Hannes erum búnir að lesa heilmikið saman nú í kvöld og hann leiðrétti stundum framburð minn. Það var líka svo skrýtið að í barnablaðinu sem við lásum voru nokkur orð sem ég minnist ekki að hafa séð áður.
 
Nú er sem sagt komið hljóðlátt kvöld. Eftir samveru fram eftir degi á morgun fer ég heim á leið og hversdagsleikinn tekur við á ný. Að vísu er ég boðinn í mat í Örebro á morgun, en varðandi þennan hversdagsleika, þá er hversdagsleikinn á Sólvöllum alls ekki svo galinn. Ég kvarta ekki, vorverk eru að ganga í garð.
 
 


Kommentarer
Björkin

Mikið kannast ég við þetta umhverfi.Marga göngutúra og yndislegta borg að skoða.Mikið er hann duglegur hann fallegi frændi minn.Hjólar bara á tvíhjóli eins og ekkert sé.Rosa er ég montin af honum.Krammmmmmm til ykkar allra.

2014-03-28 @ 23:38:20


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0