Í myndum og máli

 
Ég hrærist langt inn í hringiðu mannlífsins skulið þið vita. Á laugardaginn kom maður í heimsókn og í tilefni af því bakaði ég pönnukökur. Þess vegna átti ég pönnukökur daginn eftir, sunnudag, þegar fjóra gesti bar að garði. Svona á þetta að vera á góðum sveitabæjum. Ég þarf varla að segja hvaða fólk er vinstra megin við borðið, ég birti svo oft myndir af Auði og Þóri. Hinu megin við borðið eru þau Guðbjörg Gunnarsdóttir og Björn Guðjónsson frá Íslandi. Sonur þeirra heitir Guðjón Björnsson. Ég fer að halda að ég sé skyldur þessu fólki. Guðbjörg og Björn skutust í helgarferð til að heimsækja vini sína í Örebro. Þau komu líka í heimsókn á Sólvelli árið 2006, en þá var fyrsta viðbyggingin í gangi.
 
Svona er góð vinátta og þegar hún er góð, þá verða 2000 kílómetrar af hafi ekkert á milli vina. Þannig varð mér hugsað í dag þegar ég var eitthvað að velta þessu fyrir mér. Ég gat ekki boðið upp á rúgbrauð því að síðasti ellefu fernu rúgbrauðsbaksturinn minn tókst ekki almennilega. Ég nota það sem mat en það er ekkert reglulegt sælgæti eins og rúgbrauð á að vera og ég vil bara bjóða upp á það besta.
 
Þakka ykkur öllum fyrir heimsóknina. Þið lyftuð hversdagsleikanum upp um þessa helgi.
 
 
 
Skömmu áður en ég flutti til Svíþjóðar heimsótti ég Kristínu Aðalsteinsdóttur kennara og Hallgrím Indriðason skógfræðing á heimili þeirra í innbænum á Akureyri. Þegar ég var að fara þaðan bað Kristín mig að hafa endilega samband við hann Tryggva Þór bróður sinn sem byggi í Örebro í Svíþjóð. Ég gerði það, skrifaði honum stutt bréf frá Svartnesi og fékk bréf til baka. Eftir þriggja ára dvöl í Dölunum fluttum við Valdís svo til Örebro. Fljótlega eftir komu okkar þangað hringdi ég til Tryggva og hann spurði að bragði hvort við gætum ekki bara litið til þeirra og talast við auga mót auga. Einhverjum hálftíma eða klukkutíma síðar vorum við Valdís komin heim til þeirra Svanhvítar og Tryggva og við höfum umgengist síðan.
 
Í dag fór ég í verslun niður í Laxá (Laxå) og fannst rétt að hafa félagsskap. Því komu þeir með mér þeir Tryggvi Þór Aðalsteinsson, bróðir Kristínar í innbænum á Akureyri og er hann lengst til hægri á myndinni, og Svíinn Hans Hellson sem býr á 16. hæð í hæsta fjölbýlishúsi í Örebro. En svo þegar við komum að versluninni varð Tryggvi fyrstur til að taka á hurðarhandfanginu og uppgötva að verslunin var alls ekki opin. Þetta er verslun sem selur notuð húsgögn í gæðaflokki og mikið rétt, hún er opin fimm daga vikunnar en ekki á mánudögum og þriðjudögum.
 
En stútungskallar eins og við hrökkvum ekki upp af standinum við svona lítilræði. Undir leiðsögn Tryggva fundum við bakarí með kaffisölu þar sem á boðstólum voru ótrúlega fallegar kökur og þar drukkum við kaffi, nærðum okkur og leystum nokkur af vandamálum tilverunnar.
 
 
 
Það var í janúar sem við fórum til Laxá, ég og þessi maður, Hans Hellson, sem líka er á myndinni fyrir ofan. Eitt sinn hjálpaði hann mér að gera við bíl. Það var þegar við Valdís vorum rétt lögð af stað til Bergen árið 2002 til að taka ferjuna til Seyðisfjarðar. Um það bil 15 km vestan við Örebro heyrði ég hljóð frá öðru framhjólinu og ég vissi strax hvað það var; bremsukklossar sem voru fastir á bremsuskífunni. Ég hringdi í Hans og sagði honum mjög ákveðið að nú yrði hann að koma heim og vera verkstjóri yfir mér. Bíllinn væri bilaður og ferjan í Bergen mundi ekki bíða eftir okkur. Hans kom, stjórnaði verkinu og bíllinn komst í gott lag. Þá var ég honum mikið þakklátur. Öll ferðaplön okkar Vldísar gegnum Noreg gengu úr skorðum en við náðum ferjunni og komumst til Íslands.
 
Það var Hans sm kom á laugardaginn sem varð til þess að ég bakaði pönnukökur. Ég var búinn að bíða lengi eftir því að einhver kæmi sem gæfi mér ástæðu til að baka pönnukökur. Ég var orðinn svolítið sólginn sjálfur þannig að ég bakaði ekki bara fyrir Hans.
 
Erindi okkar Hans til Laxá í janúar var að sækja þetta borð og fjóra stóla sem ekki sjást á myndinni. Þetta sést allt á fyrstu myndinni. Það er mikið af húsgögnum frá sjötta og sjöunda áratugnum í þessari verslun og þetta tekkborð er frá þeim tíma. Mannsfóturinn sem sést á myndinni hefur stigið á íslenska grund. Það eru hjón sem reka þessa verslun og maðurinn hefur komið til Íslands og þegar hann byrjaði að segja mér frá þeirri ferð byrjaði hann að stama. Konan hans sagði þé að þetta væri svona; hann hefði fengið svo mila Íslandsdellu að hann yrði málhaltur þegar hann ætlaði að fara að segja frá íslandsferðinni sinni.


Kommentarer
Kristín Aðalsteinsdóttir

Elsku Guðjón - mikið fannst mér skemmtilegt að sjá þessa færslu og mynd af mínum elskulga bróður og góða vini Guðjóni. Gaman að þið hittist. Hlakka til að hitta þig í Örebro, hvenær sem það verður.

2014-03-24 @ 23:19:16
Guðjón

Já Kristín mín, ég ætla bara rétt að vona að það dragist ekki allt of lengi. Það er margt að tala um og ég þarf líka að sína manninum þínum skógfræðingnum skóginn minn. Þú mátt auðvitað sjá hann líka. Svo er Örebro alveg frábærilega falleg sumarborg og margir ótrúlega fínir staðir hér í kring. DRÍFA í því!

2014-03-24 @ 23:37:33
URL: http://www.gudjon.blogg.se
Auja

Þetta voru góðar veitingar og gestirnir voru mjög ánægð með móttökurnar og hvað er orðið flott á Sólvöllum, takk fyrir okkur

2014-03-27 @ 06:59:54
Guðjón

Það er gaman að þessu Auður, þið eruð alltaf velkomin með gesti sem hafa gaman af að fara út í sveit.

2014-03-27 @ 08:46:43
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0