17 mínútur fyrir átta

Það var 17 mínuútur fyrir átta í morgun, einmitt þegar ég lá undir notalegri ullarvoðinni minni og lék mér með heimspekilegar hugsanir (að mér fannst sjálfum), að farsíminn minn víbraði þrisvar sinnum á náttborðinu. Ég þurfti svo sem ekki að lesa skilaboðin sem ég var að fá, ég hefði getað sagt já bara svona í blindni. Að fá sms á þessum tíma þýðir að Ove dagskrárstjóri í Vornesi er kominn á vinnustað og sá sem vann nóttina búinn að segja honum að einhver sé búinn að tilkynna sig veikan.
 
Það skaffar mér síðan smá tilbreytingu í lífinu og fær mig til að skilja það að ég sé enn fær um að rétta út hendina til þeirra sem hafa komið í Vornes undanfarið. Komið þangað vegna þess að skelfingin hefur knúið þá til þess. Heima geta verið eiginkona eða eiginmaður, börn eða foreldrar, eða þetta allt saman og systkini í viðbót, og skelfingin, reiðin, biturðin, vanmátturinn, söknuðurinn, sektarkenndin, skömmin og sorgin er förunautur þeirra allra líka. Aðstandendurnir upplifa nefnilega líka flestar þær tilfinningar sem eru að knésetja alkohólistann.
 
Geti ég öðru hvoru orðið að liði við að hjálpa einni svona fjölskyldu til að endurheimta það sem hún þráir mest, þá geri ég það gjarnan. Það er ekki að ég geri það gjarnan, það er hreinlega skylda mín sem borgara þessa lands.
 
Fyrir mörgum árum var tæplega miðaldra maður frá suður Svíþjóð innskrifaður í Vornesi. Þetta var hress náungi, virtist vel að sér í flestu, snöggur að hugsa og almennt þægileg og góð manngerð. Alkohólisminn spyr ekki eftir manngerð eða hæfileikum, hann kastar sinni voðalegu sprengju að hverjum sem er, bæði háum og lágum, góðum og minna góðum, greindum og minna greindum, vitrum og minna vitrum. Undankomunnar verður ekki auðið þegar þessi voðasjúkdómur er búinn að velja fórnarlambið.
 
En nú snúum við okkur að suðurSviþjóðarmanninum aftur. Ég var að vinna helgi og það var sunnudagur, heimsóknartími. Sonur þessa manns, sem mér þykir trúlegt að hafi verið fimm eða sex ára, var í heimsókn hjá pabba. Hann var svo fínt klæddur. Hann var í dökkum, vel pressuðum buxum með brotum og hann var í fínni skyrtu og vesti. Og viti menn, svo var hann líka með bindi. Ég gekk eftir endilöngum matsalnum og nálgaðist borð þar sem þeir feðgarnir sátu. Drengurinn sneri baki við mér en pabbinn horfði á mig koma.
 
Þegar ég var alveg að koma að borðinu renndi drengurinn sér niður af stólnum, sneri sér að mér, hneigði sig og heilsaði með handabandi. Við svona atvik verður svolítið eldri maður hrærður. Eitthvað gott hefur pabbinn líka sagt við drenginn sinn fyrst að hann gerði þetta.
 
 En nú er kvöldað á Sólvöllum eftir góðan dag. Það er engin kyrrstaða hér og einn fallegan dag kem ég til með að gera grein fyrir athöfnum mínum. En það sem er fremst á dafgskrá hjá mér núna er að bursta og pissa og ég hef sett mér það markmið að vera kominn undir ullarfeldinn fyrir klukkan tíu. Ég vil koma vel hvíldur í Vornes og líta þannig út að ég geti með réttu verið boðberi þess að það sé virkilega þess virði að vera edrú.
 
Maður á fimmtugs aldri sagði við mig í grúppu um daginn: Þú gætir verið pabbi okkar allra en samt lítur þú svo fjári vel út og þú ert svo sléttur og fínn að maður vill endilega koma þangað sem þú ert núna. Þann dag hef ég verið í góu formi og sannur boðberi betra lífs. Þannig á það að vera.
 
Ég held að ég sé búinn að birta þetta allt í bloggi fyrir ekki svo löngu síðan. En það verður bra að hafa það og ég segi líka öðru hvoru að ég sé óttalegur rugludallur.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0