Það verður gert við bílinn meðan ég verð á Íslandi

Það eru yfir tvö ár síðan að við Rósa lögðum Fordinum mínum að kvöldi til í næst, næstu götu neðan við götuna þar sem þau búa í Stokkhólmi. Þegar ég sótti hann þangað daginn eftir var lítil beygla í boddíinu ofan og framan við hægra afturhjól. Lítil sagði ég, en á næstum nýjum bíl á bara ekki að vera nein beygla. Ég gerði ekkert í þessu þá og svo fóru í hönd tímar þar sem lítil beygla í boddíi á bíl var smámál móti öðru og alvarlegra máli.
 
Svo kom í ljós önnur beygla og skrapsár og hugsanlega veit ég eitthvað um tilurð þessa en ég er ekki viss. Nú þótti mér sem málið væri orðið öllu flóknara og leist mér ekki á ef ég þyrfti að fara að borga tvær sjálfsábyrgðir. Ég fann strax að ég mundi ekki geta skrökvað því að þetta hefði komið í sama óhappinu. Svo leið tíminn og ég hummaði þetta fram af mér.
 
Svo skeði það fyrir rúmlega ári eða svo að ég var að moka snjó þannig að ég kæmi bílnum út á veginn og ég mokaði ekkert allt of breið göng. Til að komast út á veginn þarf að fara gegnum op á grjótvegg sem er á lóðamörkunum og nákvæmlega þegar ég er í þessun opi datt steinn úr veggendanum og lenti á hægra framhorni. Ég heyrði hljóð sem ég vildi alls ekki heyra, fór út að athuga og það var svo sem hálfs meters löng rispa á plaststuðaranum framan við framhjólið. Ekki vænkaðist hagur strympu við þetta.
 
Nokkrum dögum síðar var ég að moka snjó frá öllum bílnum og þá var ég svo laginn að ég rak skófluna í plaststuðarann aftan við hægra afturhjól og þar kom svo sem fimmtán sentimetra löng rispa. Nú var málum þannig háttað að mér fannst orðið afar erfitt um vik að hringja í tryggingarnar og tilkynna um fjögur tjón. Ég skammaðíst mín. Bílinn vildi ég fá í lag en þar sem það var mér ofraun að skrökva því að tvö fyrstu óhöppin væru eitt óhapp, þá var mér ennþá ómögulegra að skrökva því að fjögur óhöpp væru eitt. Svo kúrði ég á þessu og spekúleraði og fannst þetta býsna óþægilegt, enda er ég ekki nema sjötíu og eins árs.
 
Í fyrradag hringdi ég að lokum í tryggingarnar og tilkynnti fyrsta óhappið, það sem ég varð var við í Stokkhólmi, en sagðist ekki vita um tilurð þess næsta. Það var kannski satt eða kannski ekki satt. Ég talaði við mjög hjálplega og þægilega konu og hún yfirheyrði mig. Ég get ekki sagt að ég hafi skrökvað að henni, enda var það mjög erfitt vegna hennar góðu framkomu. Þarna var ég búinn að taka ákvörðun; þá ákvörðun að ég ætlaði að borga viðgerðina á síðustu tveimur rispunum sjálfur. Að lokum vísaði hún mér á skaðaverkstæði Ford og Volvó í Örebro og gaf mér tíma klukkan tvö í dag.

Þangað kom ég rétt fyrir tvö í dag og þar hitti ég afar prúðan, traustvekjandi og þægilegan mann, væntanlega á fimmtugsaldri. Fyrst sýndi ég honum fyrsta skaðann, Stokkhólmsskaðan. Hann strauk og þreifaði og talaði við sjálfan sig. Svo sýndi ég honum annan skaðann og hann strauk, þreifaði og talaði við sjálfan sig. Þá var komið að því að skoða rispurnar tvær, þær sem tengdust snjónum, og ég sagði honum að þær tengdust snjómokstri og að ég væri ekki stoltur yfir því. Hann var fljótur að skoða þær og sagði við sjálfan sig að þetta væri bara að sparsla, slípa og lakka. Þá bætti ég við að þessa tvo skaða ætlaðí ég að borga sjálfur án nokkurra frekari umræðna. Þar vorum við umsvifalaust sammála.
 
Að lokum hafði ég orð á því að ég ætti líklega að fara að hætta að keyra bíl. Það taldi hann af og frá en sagði að ég ætti frekar að hætta að moka snjó. Svo gaf hann mér tíma fyrir bílinn og sagði að tryggingarnar mundu ganga vel frá þessu máli. Mér þótti vænt um alla framkomu þessa manns og sagði líka að það hefði verið gott að hitta hann og mér væri nú léttara að þetta væri komið á rekspöl, ég væri nefnilega búinn að skammast mín lengi fyrir þessa óhapparöð og fannst hún merki þess að mér færi orðið illa úr hendi að hafa með bíl að gera. Maðurinn stoppaði við, benti á bílinn og sagði: þetta er bara "en baggis".
 
"En baggis" er einfaldlega stytting á sænska orðinu yfir smámál eða eitthvað sem er pínulítið. Auðvitað var það rétt hjá honum þegar öllu er á botninn hvolft. En ég er bara sá einfeldningur að sjá ekki að það er "en baggis" fyrr en mér er sagt að svo sé. Ég er þessum manni þakklátur fyrir framkomuna og viðmótið . Það verður gert við bílinn meðan ég verð á Íslandi. Hér tókst mér að gera "en baggis" að miklum orðaflaumi.
 
Í janúarlok 2011, nýr og engin rispa og engin beygla.


Kommentarer
björkin

Öllum verður á óhapp mágur minn.Hlakka til að hitta þig.Krammmmmmmmm.

2014-03-21 @ 23:34:53
Guðjón

Fjórir skaðar á einum bíl, þetta er bara spurning um ökuskýrteini. Get ekki einu sinni haldið skófluprófi :)

2014-03-21 @ 23:49:27
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0