Ég horfi út í skóginn þar sem bláberjabekkurinn stendur

Ég vildi helst ekki líta út í morgun enda var ég ekki fjótur til þess. Klukkan var rúmlega níu þegar ég hætti að horfa upp í loftið og láta hugann reika. Það var margt ógert þegar það var orðið dimmt í gær en ég sætti mig við vetrarundirbúninginn. Ég hefði viljað vera búinn að ganga betur frá en hlutirnir voru bara eins og þeir voru og hafa verið verri eins og til dæmis fyrir þremur eða fjórum árum. Það var þegar veturinn lagðist yfir 1. nóvember og stóð fram undir vor. Þá fór margt óundirbúið undir snjó en jörðin hélt samt áfram að snúast og lífið hélt líka áfram að vera til. Svo fór snjórinn einum fjórum mánuðum seinna, vorið kom og hlutirnir voru í þokkalegasta lagi þrátt fyrir allt.
 
Á morgun kemur fólk í heimsókn sem mun hjálpa mér við að koma ýmsu upp á loft á Bjargi. Það bíður nú í þurru húsnæði í bílageymslunni. Hannes ætlar að koma með fjölskylduna sína. Kannski setjum við á könnuna saman og það verður hann sem ákveður en ég fæ að hjálpa til eins og síðast þegar hann var hér. Það varð líka gott kaffi úr því og verður áfram.
 
Ég horfi út í skóginn þar sem bláberjabekkurinn stendur. Hann fær að vera úti í vetur, bara þar sem hann er. Nokkrum sinnum hef ég setst í hann á liðnu sumri en of sjaldan. Það verður ekki byggt meira á Sólvöllum á næstunni en klárað að ganga frá ýmsu. Þar af leiðandi vona ég að ég geti í róleghetum setst oftar á bláberjabekkinn og látið hugann reika -dreymt dagdrauma öðru hvoru. Ég þarf að kaupa eina tvo svona bekki í viðbót og setja á aðra staði í skóginum svo að dagdraumar mínir fái á sig fleiri myndir. Ég þarf líka að láta eftir mér að sitja oftar í hengirólunni á veröndinni móti skóginum. Einnig að setjast oftar í stólinn snemma á morgnana, stólinn á litlu veröndinni utan við útihurðina á herberginu mínu, líka á móti skóginum.
 
Það er nefnilega svo notalegt með þetta á móti skóginum. Þangað er hægt að rölta á nærbuxunum og kannski í nærskyrtu líka og svo bara vera þar. Sjá síðan sólina koma upp á austurhimininn, brjóta sér leið gegnum smá glugga í skógarþykkninu og mynda hinar ótrúlegustu myndir af upplýstum salarkynnum sem færast til í laufhafinu eftir því sem sólin hækkar sig og dregur sig móti suðri. Svo að lokum tekur hún sig yfir græna laufhafið og hellir ylnum yfir nærbuxnamanninn sem situr á veröndinni og bíður nærveru hennar. Þá verður gott að vera til, ekki einn, heldur með þessum lífsförunaut sem ekki hefur svikið lífið á jörðinni í miljónir ára.
 
Mikið er notalegt að hugsa um vorið og sumarið á þessum gráa morgni þegar hitamælirinn stendur í 0 gráðum. Það falla niður gisin og smávaxin snjókorn. Jörðin nær þó alls ekki að vera hvít og verður það líklega ekki í dag. En veturinn er eðlilegur og nauðsynlegur og án hans verður vorið og sumarið ekki svo fallegt sem skyldi. Ég veit líka að það munu koma tímar í vetur þegar ég hugsa; hvort er fallegra vetur eða sumar? Það verður þegar allur skógurinn kristallar sig í ótrúlegu hrími. Þá er hægt að horfa út um gluggann, eða fara hring í Sólvallaskóginum og hugsa; þetta er af öðrum heimi. Svo kemur lág vetrarsólin upp og kristalhallirnar og silfurturnarnir hverfa snögglega -oftast nær. Stundum er nógu kalt og sólarlítið til að þetta haldist allan daginn.
 
Þá getur til og með Sólvallakallinn orðið skáldlegur eins og Jónas forðum, eða Matthías, eða Davíð þegar hann sat í lynginu í eyfirskum brekkum og skrifaði sín fallegustu ljóð.
 
Klukkan er farin að halla í ellefu og ég þarf að fara að elda hafragraut og borða svo að ég geti orðið nýtur maður í dag. Ég kem nú til með að fara einhverja hringi hér úti og líta eftir. Líka til að binda upp brómberin sem ég gat ekki bundið upp í gærkvöldi því að það var orðið svo dimmt. En aðal áhersluna verð ég að leggja við að þrífa hér innanhúss. Ég sagði þrífa. Ég þarf að þrífa mikið og vel í dag og á morgun. Ég er svo heppinn að hafa þurrkað af einn og einn hálftíma öðru hvoru, þrifið eldhúsinnréttingu og hurðir og stundum er ryksugan vinur minn. Þá er ég feginn að hafa þetta fína parkett á gólfunum. Það lítur svo vel út þegar það hefur verið ryksugað. En nú skal gera betur. Gesta er von.
 
Svo þarf ég að gera innkaup. Í vikunni fékk ég tilkynningu um að á coop kaupfélagskortinu mínu er innlagður 10 % afsláttur á einu innkaupi um helgina frá og með í dag. Ég safna því á bakhliðina á umslaginu utan af rafmagnsreikningnum sem mestu af því sem ég þarf að kaupa fyrir helgina.
 
Ég settist við tölvuna til að skrifa niður tvær setningar sem ég vildi ekki gleyma. Þessar setningar urðu aðeins fleiri. Góður dagur hefur byrjað á Sólvöllum, morguninn er ekki lengur grár og ég hlakka til að borða hafragrautinn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0