Að láta sér detta svona nokkuð í hug!!!

Ný ákvörðun, nýtt verkefni byrjað. Baðherbergisverkefnið á Bjargi er komið í gang. Það eru tíu dagar síðan ég bloggaði um eirðarleysi sem ég yrði var við þegar eitthvað væri búið. Það er spurningin hvort ég er vinnualki en ég vel nú samt að neita því. Ég átti von á manni í vinnu um fjögur leytið, það er að segja til að leggja í baðherbergisgólfið á Bjargi. Ég vissi að nánast allt væri tilbúið af minni hálfu og svo væflaðist ég um húsið og kringum húsið fram yfir hádegi og fannst ég vera að svíkjast um. Ég auðvitað gat farið að tína eitthvað saman úti, laga meira til, og ég hefi getað borði meira upp á loftið á Bjargi en við gerðum um helgina og ég hefði getað farið með greinaklippur út í skóg til að snyrta tré og klippa burtu ruslplöntur. En nei, ég gerði ekkert gagnlegt hálfan daginn. Ég bara bið! Látið mig vita ef einhver þekkir þetta annar en ég.
 
Svo gerði ég það ónauðsynlegasta af öllu ónauðsynlegu. Ég settist við tölvuna og fór að þvælast um á veraldarvefnum. Hvað haldi þið að ég hafi svo sem haft upp úr krafsinu? Jú, til dæmis mynd af sama stað og þessi mynd er tekin og þar stóð maður með réttan enda upp. Mér finnst það nú óneitanlega skynsamlegra en að haga sér eins og villimaðurinn gerir á myndinni. Að láta sér detta svona nokkuð í hug!!! Ég gat aldrei gengið á höndum og að hætta sér út í þetta ævintýri! Það hefði bændunum í Fljótshverfinu ekki þótt merki um dómgreind á mínum uppvaxtarárum. En nú viltist ég af réttri leið. Ég ætlaði að tala um baðherbergið á Bjargi.
 
Hér er maður að vinna vinnuna sína út á Bjargi. Hann kom upp úr klukkan fjögur. Fyrst lagði hann í gólfið og síðan þurfti hann að bíða þar til flotið harðnaði nógu mikið til að hann gæti farið út á það til að skafa kringum sturtusvelginn. Á meðan fórum við inn og ég spurði hann hvort hann væri hræddur við mat sem hann hefði aldrei smakkað áður. Nei, hann hélt nú ekki. Síðan borðaði hann hreinan helling af heimabökuðu rúgbrauði og hangikjöti frá Húsavík. Þetta er mikið gott sagði hann og svo fékk hann bara meira og meira. Ég hafði nú reglulega gaman af þessu. En kannski við ættum að sjá manninn betur.
 
Hér er hann nefnilega og hann heitir Anders gólf á farsímanum mínum. Hann er harðduglegur og þetta er líka sami maðurinn og gengur á höndunum á Tröllatungunni í Noregi á efstu myndinni. Hann reyndar lítur ekki svo villimannslega út enda er hann enginn villimaður þegar hann er sestur við matarborðið á Sólvöllum og borðar heimabakað rúgbrauð með hangikjöti frá Húsavík. Það er nú bara gman að þessu.
 
En mest er kannski gaman að því að vinnan við baðherbergið á Bjargi er byrjuð. Henni mun ekki ljúka eins fljótt og mér finnst núna í augnablikinu að hún ætti að gera. En allt í einu verður þó baðherbergið á Bjargi tilbúið með sturtu, klósetti og handlaug ásamt krókum fyrir handklæði og pappírsrúllu. Þá verð ég að baka mér pönnukökur og þeyta rjómaslettu til að setja innan í ásamt svolitlu af persimónusultu gerðri af GB. Svo þarf ég að venja mig við þá hugsun að ellilífeyrisþegi megi alveg slæpast framyfir hádegi einhvern daginn án þess að halda að það komi svartur blettur undir tunguna.


Kommentarer
Björkin

Held bara að þú megir sæpast eins og þig langar .Mörg handtökin þín mágur minn á Sólvöllum.Farðu bara vel með þig.Góða nótt.

2013-11-26 @ 23:16:45


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0