Ég er dálítið af gamla skólanum

Eftirfarandi sagði ég í blogginu mínu í gær: "Allt í einu kom hann hlaupandi niður tröppurnar þar sem við Valdís stóðum, svona líka snarlifandi, og eitt augnablik snarstoppaði hann beint fyrir framan mig og leit undrandi í andlit mér. Og ég segi aftur "undrandi". Svo hljóp hann að næstu tröppu og þar upp. Ég var ekki í vafa um að hann tók eftir lífleysi í andliti mínu. Ég skal líka viðurkenna að á því augnabliki fannst mér það sjálfum miðað við hans sterka lífsloga."
 
Þetta var ekki á auðveldasta tímabili í lífi mínu en samt langt frá því versta, og það kom aðallega fram í því að ég var með stuttu millibili að fá ofnæmi fyrir hinu og þessu. Ég vann með fólk sem var að taka sig á til að fá betra líf og ég gerði mér grein fyrir því að ég þyrfti sjálfur að taka mig á á minn hátt. Fyrir mig fjallaði það ekki lengur um áfengi eða nein vímuefni, heldur um að þroska mig á mörgum sviðum. Til dæmis að gera mér vinnuna léttari, að æfa mig í því að líta á ýmsar skyldur og kvaðir í lífinu sem skemmtilegri viðfangsefnum í stað þess að til dæmis fara í fýlu við að borga reikningana mína.
 
Að þessu og mörgu öðru vann ég skipulega og lengi. Ég hætti að fá ofnæmi, fæ nánast aldrei kvef eða inflúensu og aldrei magapestir. Lífið varð sem sagt ekki bara betra á andlega sviðinu, heldur líka því líkamlega. Og svo fór ég að finna fyrir óvæntum ávinningum á fleiri sviðum. Peningarnir mínir fóru að duga betur þegar ég var búinn að vinna bug á reikningafýlunni. Ég sagði frá því eitt sinn á morgunfundi starfsfólks í Vornesi og lagði áherslu á þetta með að penginarnir hefðu farið að duga betur. Þá heyrðist kona ein sem sat fundinn segja lágum rómi við sjálfa sig: "Þetta verð ég líklega að prufa".
 
Fari einhver að hlæja núna þá vil ég bara segja að þetta segi ég í fullri alvöru; peningarnir fóru að endast betur.
 
Ég hef þurft að taka á ýmsu undanfarið án þess þó að mér hafi fundist ég hafa nokkra ástæðu til að kvarta undan lífinu. Þegar ég hef látið eymd og væmni ganga of langt hefur það komið fram á öllu sem ég hef aðhafst. Allt hefur farið að ganga hægar eða ekki neitt. Ég hef farið að finna fyrir veikindaeinkennum sem auðvitað voru bara ekki fyrir hendi og svo margt og margt hefur fengið á sig dekkri blæ. Skammdegið hefur þá líka orðið svartara.
 
Það er búið að segja við mig marga og mjög mikilvæga hluti undanfarið sem ég hef tekið mark á og síðan hefur mér tekist að vinna úr miklu mér til mikils ágætis. Bloggið mitt í gærkvöldi var þáttur í því. Að viðurkenna eigin takmarkanir og sjá að aðrir komist betur af með jákvæðni og dug í stað þess að finna gildar orsakir fyrir eigin takmörkunum, það er stærsta skrefið. Það hvetur mig til dáða. Hvað er stærst og stærst er kannski alltaf teygjanlegt, en eitt veit ég: Stjórnandi sjónvarpsþáttanna sem sendir voru út frá Örebro um árið og ég talaði um í gær, hann var með krabbamein og dó nokkrum mánuðum síðar. Hann vissi það og hann snarstoppaði fyrir framan mig og horfði undrandi á mig af því að ég, fullfrískur maðurinn, leit svo eymdarlega út.
 
Hvílík lífsgæði sem hann skapaði sér á síðustu vikum lífsins með afstöðu sinni. Það nefnilega fór ekki milli mála að hann naut vinnunnar sinnar, "alveg í botn", þegar hann stjórnaði þessum sjónvarpsþáttum. Hvað ætti ég þá að geta, fullfrískur maðurinn nýbúinn að fá úrvalsskoðun hjá 80 ára gömlum lækni sem vinnur vinnuna sína einhverja viku í mánuði vegna þess að hann nýtur þess að vera virkur samfélagsþegn.
 
Í blogginu mínu í gær viðurkenndi ég að nokkru annmarka mína, svolítið á dulmáli. Á milli línanna fundust líka fleiri viðurkenningar. Það er góður siður ef ég vil komast áfram og vinna á annmörkum mínum að viðurkenna. Þá segi ég frá sjálfum mér. Sjúklingarnir mínir í Vornesi segja oft að þeir skilji svo vel það sem ég segi þó að ég tali svolítið bjagaða sænsku. Ég segi eins og er og ég nota afar lítið kenningar. Þegar ég segi sannleikann um sjálfan mig um leið og ég tala til þeirra skilja þeir mig. Ég er dálítið af gamla skólanum og er alveg þokkalega stoltur af.
 
Dagurinn í dag hefur verið lýsandi. Ég þakka það að nokkru blogginu mínu í gær. Það logar á kerti við stóru myndina af Valdísi og það geri ég af virðingu við hana. Hún vinnur hins vegar ekkert á því að ég liggi í eymd og svíki þar með samferðafólk mitt. Mér ber að vera lifandi meðan Herrann lætur mig lifa.
 
(Ég held bara að það sé vitleysa að hann Guðjón á Sólvöllum sé rugludallur)


Kommentarer
Þórlaug

Rugludallur og ekki rugludallur. Ég hef áður sagt að það sé mannbætandi að lesa bloggið þitt. Ef það er eins og það er vegna þess að þú ert rugludallur, haltu þá endilega áfram að vera rugludallur :-)
Kærar kveðjur,
Þórlaug

Svar: Þessi var nú með þeim betri Þórlaug, takk og með bestu kveðju til ykkar frá Sólvallakallinum.
Gudjon

2013-11-19 @ 23:52:17
Björkin.

Það logar líka á mínu kerti mágur minn.Er enn og aftur að uppgöfga hvað hún var stór þáttur í lífi mínu.Líði þér sem best og góða nótt.

Svar: Takk sömuleiðis mágkona og góða nótt.
Gudjon

2013-11-19 @ 23:53:36


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0