Að fá að njóta náðarinnar

Ég fékk í morgun nokkrar línur frá góðum vini sem heitir Trausti Jónsson og þessar línur höfðu djúp áhrif á mig. Svo djúp áhrif að ég valdi strax skipunina "skrifa" á blogginu og byrjaði. Það hafði líka dýpri áhrif á mig að þessar línur voru frá karlmanni en samt tókst honum að segja orðin á þann hátt sem karlmönnum er ekki svo oft létt að gera. Hann talaði til dæmis um "einlægni" og að vera "vitur". Það vakti upp ákveðnar hugsanir hjá mér og sé ég einlægur, hver er þá rótin til þess.
 
Þær eru margar sorgirnar í lífinu. Það var mikil sorg að bíða í andyrrinu á Vogi eftir því að þar kæmi ókunnug kona sem tæki á móti mér og skrifaði mig inn. Í þrjátíu ár hafði ég reynt að stjórna drykkju minni eða hætta henni alveg en mér hafði aldrei tekist það. Þarna stóð ég á vegamótum, hálf fullur og gríðarlega sorgmæddur yfir því að hafa skaðað líf mitt og annarra í svo langan tíma. Guð minn góður hvað ég var veikur. Ég leit samt á mig sem aumingja sem ekki hafði tekist að ávaxta þá eiginleika og hæfileika sem mér höfðu verið gefnir.
 
Næstu fjörutíu daga var ég að læra það að ég væri ekki aumingi. Það uppgjör var samt sem áður eitt sorgartímabil þar sem fólk hló samt öðru hvoru og gerði að gamni sínu og víst reyndi ég líka að bera mig vel, svona inn á milli allavega. Enn í dag get ég fundið fyrir sorg vegna þessara þrjátíu ára. Ég þarf ekki að vera meiri eða merkilegri en aðrir, eða einhver annar, ég þarf bara að spila á sem bestan hátt úr því sem mér var gefið. Þá er ég vitur. Ég tel mig ekki hafa mikla þörf fyrir að vera áberandi þó að fólki geti kannski þótt bloggið benda til einhvers annars.
 
Ég heyrði eitt sinn sanna sögu um mann sem fór í gegnum áfengismeðferð. Hann var ögn þroskaheftur og ráðgjafarnir voru kannski ekki svo vongóðir um að honum tækist að nýta sér boðskapinn. Þremur árum seinna mætti einn ráðgjafanna þessum manni og spurði hann hvernig gengi. Hann svaraði því til að honum hefði verið sagt á meðferðarheimilinu að gleyma aldrei þremur atriðum. Það var að borða og sofa reglulega, hreyfa sig reglubundið og fara reglulega á AA fundi. Þetta hef ég staðið við sagði maðurinn og ég á gott líf.
 
Þessi maður var að mínu mati vitur.
 
Ég vildi að ég hefði látið skrifa mig inn á Vog fyrr en ég gerði vegna þess að ég hefði verið svo vitur. Svo var það samt ekki. Ég og maðurinn sem ég sagði frá hér áttum það sameiginlegt að koma inn í meðferð vegna þess að við vorum báðir komnir að sársaukamörkum í lífi okkar. Síðan áttum við það sameiginlegt, og eigum enn, að hafa hæfileikann að vera nógu vitrir til að fara þá leið sem hefur hjálpað tugum miljóna manna og kvenna í heiminum til að bjarga sér frá áfengisbölinu. En þetta segir bara hálfa sögu. Það er svo merkilegt að það er eins og það fái ekki allir að njóta náðarinnar til að fara þennan veg. Og ég vil aftur nefna orðið "náð".
 
Ég þekki svo margar góðar manneskjur, manneskjur sem voru svo ótrúlega "góðar", en þær fengu ekki að njóta náðarinnar. Ég veit ekki hvað Guð meinar með þessu en svona er það. Þegar ég skrifa þessi sönnu orð finn ég fyrir sorg. Sorgin og treginn eiga greiðan aðgang að mér á þessum morgni. Ég lít ekki niður á þær manneskjur sem ekki tókst. Þeim var ekki úthlutað náðinni og mér þykir reyndar vænna um svo margar þeirra en ýmsa aðra. Mótsagnakennt eða hvað? Þessar manneskjur voru margar hverjar svo vitrar en þær fengu ekki að njóta náðarinnar.
 
Það er erfitt að orða þetta allt saman skipulega en ég finn fyrir sterkri þörf fyrir að gera það af einlægni. Af hverju í dag alveg sérstaklega get ég ekki svarað, en ég get á þessari stundu séð fyrir mér andlit sem hafa borið merki sorgarinnar vegna þessa skelfilega sjúkdóms, bæði alkohólistanna sjálfra og þeirra sem hafa elskað þá mest. Það er ekki svo langt síðan ég sagði að ég væri barnalegur en þá var mér sagt að ég væri ekki barnalegur heldur einlægur. Ég bæði var og er þakklátur fyrir þau orð. Ef það væri til meiri einlægni í heiminum liti hann öðru vísi út.
 
 
 
Ég hef nefnt Skógaskóla æði oft undanfarið. Þar voru fótboltalið, jafn mörg og bekkirnir. Ég var ekki í neinu liði vegna þess að ég var lélegur í fótbolta og mér var alveg nákvæmlega sama. Maður að nafni Gunnar stofnaði svo eitt lið enn og það lið hét "Úrkastið". Ég lenti í Úrkastinu og gerði það til að vera ekki félagsskítur.
 
Svo keppti Úrkastið við eitt hinna liðanna og tapaði auðvitað eins og alltaf. Eitt sinn í þessum leik vorum við báðir á marklínunni, ég og boltinn, og þá er maður nálægt markinu. Örfáa metra. Markmaðurinn hafði dottið hálf illa og var nokkur augnablik að ná sér á strik. Ég hafði því góðan tíma, bakkaði aðeins, hljóp svo til og sparkaði af alefli. Ég ætlaði að láta netið bakvið markið bylgjast af þrumuskoti mínu og fá klapp frá fimmtíu fallegum stelpum sem horfðu á. Skelfingu lostinn sá ég síðan boltann fara mjög hátt yfir markið, bera drjúgan spöl yfir Drangshlíðarhnjúk í vestri og lenda síðan vestur á túni hinu meginn við veginn heim að Skógum.
 
Já, og þær fimmtíu sætu stelpur sem horfðu á þennan leik, þær klöppuðu ekki fyrir mér. Ég verðskuldaði það heldur ekki. Þegar maður er sextán ára sefur maður ekki mikið nóttina eftir svona atvik, eða svo gerði ég ekki. Ég sá lengi fyrir mér boltann þar sem hann bar yfir fjallið og hljóðlátann stúlknahópinn sem ég hafði reiknað með að klappaði fyrir mér eftir vel gert mark. Mér fór illa að vera með rembing. Ég var bara í Úrkastinu af félagslegum ástæðum en ekki til að það yrði tekið eftir mér. Ég gleymdi því bara eitt augnablik og lét rembinginn taka yfirhöndina í staðinn fyrir að láta boltann rúlla rólega inn í markið.
 
Góðir fótboltamenn eru hreint alveg frábærir og það klæðir þá vel að vera á vellinum. En ég var bara ekki einn slíkur og fór heldur ekki vel að leika hann. Mér fer betur að vera einlægur og helga mig því sem klæðir mig betur. Þannig er ég vitrari. Þakka þér fyrir orðsendinguna í morgun Trausti. Ótrúlega hvað þetta setti mikið af stað.
 
 *          *          *
 
Nú undir kvöldið leit ég yfir það sem ég skrifaði með all miklu hraði nokkuð tímanlega í morgun. Ég velti fyrir mér að henda því eða fela á harða diskinum mínum. Svo ákvað ég að láta það fara út á veraldarvefinn.
 
Gömlu tilfinningarnar svo sem biturð, ótti og vanmáttarkennd eiga ekki lengur bústað í brjósti mér og því þarf ég ekki að nota vörn og ósannindi til að dylja minn innri mann. Skammdegið hér á Sólvöllum í morgun ríkti dágóðan tíma framyfir birtingu en síðdegismyrkrið er bjartara núna undir kvöldið en venjulega -þó að það rigni.
 
Mér er ljúft að læra af því sem lífið hefur boðið mér upp á. Öðrum kosti væri lífsreynsla einskis virði. Suma daga er heimanámið erfiðara en aðra daga, en ánægjan yfir að hafa ekki brugðist náminu þeim mun meiri að lokum. Sumum, eða mörgum, virðist hafa tekist að halda utan um þær góðu dyggðir sem þeir fengu að gjöf, aðrir hafa skemmt þær og þurfa að æfa þær upp. Það er margt að sýsla með í mannheimi. Ég er þó nokkuð ánægður með þau útiverk sem ég setti mér fyrir í gærkvöldi og í fyrramálið verður auðvelt að ganga til verka á ný.
 
Laxinn er nánast þiðnaður á eldhúsbekknum og það er kominn tími til að krydda hann. Bakarofninn er að hitna. Síðan ætla ég að þrífa svolítið inni hjá mér og setja í eina þvottavél sem ég ætla að láta byrja að þvo klukkan sex í fyrramálið. Eftir því sem ég fæ best séð verður þvottasnúruveður á morgun. Þá kemur þvotturinn minn til með að anga vel, að anga af úti. Svo ætla ég að enda daginn á því að lesa um stund í bók sem heitir Það hendir þegar þú hvílist.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0