En það er ég sem ákveð

Afi, þú mátt alveg hjálpa mér en það er ég sem ákveð, sagði Hannes Guðjón barnabarn. Hann stóð á stól við hliðina á mér við eldhúsbekkinn í sumar eða haust og við vorum að setja kaffi á könnuna þegar hann sagði þetta. Í gær fór ég með lest til Stokkhólms til að heimsækja barnabarnið og fjölskyldu. Ég hafði meðferðis legóþyrlu handa honum og ég verð að segja að það voru æði flóknar græjur sem ég færði honum. Á umbúðunum stóð að þetta væri fyrir fimm til tólf ára en Hannes er bara fjögurra ára.
 
Svo settumst við við borð inni í stofu og helltum innihaldi pakkans á borð. Ég tók annan plastpokann af tveimur sem komu úr umbúðunum og gerði mig líklegan til að hella úr honum á borðið. Hannes tók hins vegar tvær bækur sem líka komu úr umbúðunum, leit í þessar bækur í skyndi og sagði; nei afi, það á byrja á þessum poka og hann rétti mér hinn.  Og hann hafði rétt fyrir sér. Síðan gengu þeir í það feðgar að setja saman legóþyrluna og það var all tímafrekt. Ég varð þess var að Hannes var mjög virkur í þeirri vinnu og las í teikningarnar sem voru í bókunum alveg eins mikið og pabbi hans gerði. Þeir höfðu samvinnu.
 
Ég tók enga mynd af þessari þyrluvinnu og almennt enga mynd af Hannesi hversu skrýtið sem það nú var. Við fórum líka í gönguferð í gær og ég tók þá fáeinar myndir og þær voru flestar hreyfðar og ómögulegar. En þessa mynd tók ég af hluta af bílunum hans Hannesar. Oft sýnir hann af sér mikið skipulag og snyrtimennsku og hefur röð á hlutunum. Stundum raðar hann upp bílunum sínum eins og almennt er gert á merktum bílastæðum við stórverslanir. Stundum raðar hann þeim líka upp í lengjur eins og hann hefur gert á þessari mynd. Nákvæmlega svona stóðu bílarnir þessa tvo daga sem ég dvaldi hjá þeim. Þessi mynd er líka hreyfð en ég nota hana eigi að síður. Við Hannes vorum mikið í feluleik um helgina en það þykir honum afar skemmtilegur leikur þegar afi er á ferðinni.
 
*          *          *
 
Fyrir nokkrum vikum hittust Skógaskólanemendur úr útskriftarárgangi 1959 í Perlunni. Við erum tvö úr þessum hópi í Svíþjóð sem vorum fjarri góðu gamni. Það er ég og hún Kristín Guðmundsdóttir sem fór með mér upp í Dali í haust. Kristín kom upp í lestina í Västerås þegar ég var á leið til Stokkhólms í gær og var með okkur framundir kvöldið.
 
Rósa tók þessa mynd af okkur í Kulturhuset við Sergilstorg þar sem við fengum okkur kaffi á gönguferð okkar í gær meðan Hannes og pabbi hans unnu við að setja saman þyrluna. Kulturhuset væri jú á Íslensku einfaldlega Menningarhúsið og Sergilstorg er aðal miðbæjartorgið í Stokkhólmi. Þegar ég horfi á þessa mynd á ég erfitt með að trúa því að við höfum skrifast út frá skólanum fyrir hátt í 55 árum síðan. Það hlýtur að skakka einum tíu árum eða hvað? Ertu því ekki sammála Kiddý?
 
Fyrir allmörgum árum sátum við Gunnar Bergmann í sól og sumaryl úti á svölum sem eru á sömu hæð og við Kristín sitjum þarna og vita líka í átt að háhýsinu sem er þarna í baksýn. Meðan við Gunnar sátum þar yfir kaffibolla kom ung kona út í glugga efst í háhýsinu og veifaði okkur. Það var hún Rósa dóttir mín sem þá vann í þessu húsi. Nokkrum árum seinna sátu þær þarna í Kulturhuset yfir kaffibolla dætur mínar báðar, Rósa og Valgerður, og meðan þær höfðu það notalegt henti sér maður ofan af þaki hússins og sveif hann niður stutt fyrir framan þær. Honum tókst ekki ætlunarverk sitt og var lífgaður við af vegfaranda. Kaffitíma systranna lauk kannski ekki jafn ánægjulega og hann byrjaði. Við þrjú sátum þarna allnokkra stund í gær og okkar kaffitíma lauk jafn vel og hann byrjaði. Flestum kaffitímum lýkur þannig.
 
Ps. Meðan ég var að skrifa þetta blogg fékk ég senda þessa mynd af Hannesi þar sem hann er að hjálpa foreldrum sínum við eldhússtörfin.
 
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0