Hvönnin virkar

Ég get ekki sagt að hafragrauturinn sé beinlínis fallegur þegar ég er búinn að hræra út í hann einni matskeið af þurrkuðu og möluðu hvannalaufi frá honum Bjarna Thor í Hrísey. Og svo þegar það er líka komin hálf matskeið af hvannafræi unnu á sama hátt og laufið, þá er grauturinn orðinn smá skrýtinn á að líta. Það getur líka farið þannig að það fari undarleg dreif út undir barmana á diskinum þegar ég er búinn að hræra þessu saman og þegar nágranni á mínum aldri kemur í heimsókin meðan ég er að borða þessi furðulegheit, getur hann orðið undarlegur í framan þegar hann lítur á grutardiskinn minn.
 
Svo fór fyrir honum Áka nýlega. Hann horfði undrunaraugum á morgunverðinn minn og varð svo vandræðalegur að mér fannst að ég yrði að hjálpa honum svolítið og spurði hvort honum þætti þetta skrýtinn hafragrautur. Ég sagði honum hvað ég væri með í grautnum og hann spurði hvort það gerði eitthvað gagn. O já já, ég hélt nú það. Ég sagði honum að klósettferðum mínum á nóttunni væri til dæmis að miklu leyti lokið, alla vega ef ég væri ekki að þamba of mikið vatn á kvöldin. Ég sagði honum líka að svefninn væri orðinn ennþá betri þó að ég hefði ekki þurft að kvarta. Ég sagði honum ennfremur að minn sjötíu og eins árs gamli magi væri orðinn svo rólyndur að hann væri hættur að senda brjóstsviða upp í hálsinn á mér þó að ég fengi mér kökubita að kvöldi dags.
 
Þetta síðastnefnda hefur að vísu nokkurn ókost. Það verður meiri freisting að narta í eitthvað á kvöldin og við því er bara eitt ráð og það er að eiga ekkert heima til að narta í. Auðvitað má breyta út af þeirri venju stöku sinnum og það gerði ég til dæmis um helgina í Stokkhólmi. En þetta er ekkert vandamál, það kemur fljótt upp í vana að halda þessu frá sér. Hins vegar var ég í matvöruverslun um daginn og ég sá út undan mér hvar tæplega miðaldra viðfelldin og falleg kona stóð við borð út á miðju gólfi og bauð upp á krásir. Ég þóttist fyrst ekki sjá hana og þá sá hún mig ekki heldur. Svo varð mér á að gjóa aðeins á hana auga og það var ekki að sökum að spyrja að hún náði mér umsvifalaust á sitt vald.
 
Þetta er dökkt súkkulaði sagði hún og rétti fram ljúflega, fallega súkkulaðikúlu. Ég hafði varla bitið í hana þegar ég greip sólginn tvo af pokunum sem voru til sölu á borðinu. Þannig náði hún tökum á súkkulaðifíkn minni. Svo þegar ég kom að kassanum með það litla af marvötum sem ég hafði keypt bætti ég við tveimur frekar minni súkkulaðistykkjum. Ég var eins og alki sem fellur við það að það er of mikið koníak í konfektinu. Svo át ég annað súkkulaðistykkið á leiðinni heim á Sólvelli en að öðru leyti tókst mér að koma þessu ósnertu til Stokkhólms. Súkkulaðiskúffan er tóm skuliði vita, galtóm.
 
En aftur að honum Áka. Hann kom seinni partinn í dag og sagði að konan hans hefði verið að lesa um hvönnina á Google. Hann ræddi þetta frá ýmsum sjónarhornum og ég veit að það er erfitt fyrir marga karlmenn að tala um klósettferðir á nóttunni þannig að ég annaðist það mál. Ég sagði honum að þetta stórbætti pisseríið. Stuttu síðar fór Áki heim og glaður hélt hann á litlum poka með möluðu hvannalaufi í hendinni. Síðan hringdi ég til Ottós og Dísu og bað þau að annast það að ég fengi meira af hvönn frá honum Bjarna Thor í Hrísey. Þá skal Áki líka fá hvannafræ. Ég hef ennþá meiri trú á því en laufinu.
 
Þetta er nú það helsta sem ég hef fréttnæmt úr Sólvallahverfinu sem stendur. Annars nokkuð hressir ellilífeyrisþegar hér um slóðir og aðrir óhressari ellilífeyrisþegar fara líklega að verða þrælhressir allir saman ef mörgum tekst að fara að nota hvönnina hans Bjarna Thor í morgungrautinn sinn. Ég er ekki að gera að gamni mínu -hvönnin virkar!


Kommentarer
Dísa

Auðvitað virkar hún

Svar: Gott hjá þér Dísa að staðfesta þetta.
Gudjon

2013-11-11 @ 21:49:30


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0