Ungur fulltrúi á afmæli í dag

Undanfarið hef ég oft nefnt 1959 árganginn frá Skógaskóla. Þau síðustu okkar í þessum hópi eru að fylla sjötíu árin um þessar mundir. Ég hef lítið orðið var við afmæli þessa Skógaskólaliðs þangað til um daginn þegar hún Kristín Guðmundsdóttir átti sitt sjötugsafmæli í Västerås og hún var svo elskuleg að bjóða mér að vera með. Þegar ég virti hana fyrir mér í afmælinu hennar, glaða, unglega og glæsilega, og hugleiddi öll þessi ár, þá fannst mér það svo gott sem ómögulegt, en svona var það bara. En "Þannig týnist tíminn". Í dag á síðasti fulltrúi okkar í þessum hópi sitt sjötíu ára afmæli, hún Soffía G. Ólafsdóttir. Vegna fjarlægðarinnar treysti ég mér ekki til að mæta í afmælisveisluna hennar í Garðinum þó að ég sé velkominn, en svo gjarnan vildi ég vera þar til að fylgja þessum síðasta fulltrúa okkar inn í áttunda áratuginn. Ég mundi sennilega ekki heldur skrifa þessar línur ef ég hefði ekki verið í afmælinu hennar Kristínar um daginn. Ég finn það núna að það var lán að hún átti afmæli svo nálægt mér, það kom af stað nýjum þætti í bloggandi mínu.
 
 
 
Þessi mynd af Soffíu er frá 1959
 
Soffía kom í skólann heldur seinna en við hin, en hún kom fyrst í þriðja bekk haustið 1958. Ég tók ekki svo mikið eftir henni í fyrstu og ef ég man rétt kallaði ég hana um tíma nýju stelpuna. Svo var það einn laugardag að hópur okkar var úti á túni að sparka fótbolta og þrátt fyrir fótboltafælni mína var ég með í það skiptið. Soffía var líka með. Svo skullum við all harkalega saman í hita leiksins og ég leit á Soffíu, beint í augu hennar, og ég held að ég hafi sagt fyrirgefðu. Þann laugardag urðum við miklir vinir og hún var ekki nýja stelpan lengur. Hún var Soffía og ekki þótti mér leiðinlegt að hún hét Guðjónína líka. Svo urðum við Soffía líka miklir pennavinir.
 
Mánuðurnir liðu hratt og skólanum lauk. Nokkrum vikum eða fáum mánuðum eftir það skildu leiðir okkar og við héldum á vit örlaga okkar og pennavináttunni lauk þar með. Við hittumst ekki í fleiri ár og ég heyrði sjaldan af henni. Hópurinn frá 1959 byrjaði að hittast reglulega en ég var allt of sjaldan með. Ég kenndi um fjarlægð af því að ég bjó fyrir norðan en auðvitað var það bara aulagangur af minni hálfu. Svo var það einhvern tíma að við Valdís vorum stödd á síldardegi á Siglufirði og þá stóð þessi kona óvænt og ljóslifgandi fyrir framan mig. Þá áttum við einungis stutt orðaskipti.
 
Um það bil þrjátíu árum eftir útskriftina frá Skógum, eða um 1990, var ég einn eftirmiðdag á leið heim frá hreppsskrifstofunni í Hrísey. Þegar ég var kominn niður tröppurnar þar og búinn að taka stefnuna áleiðis heim heyrði ég nafn mitt kallað. Ég þekkti þessa rödd á sekúndubroti og þar var Soffía að koma í heimsókn ásamt Sæmundi manni sínum og fleira fólki. Við gengum til baka inn og ég hitaði kaffi. Svo settumst við við kaffiborðið sem var líka fundarborð hreppsnefndar Hríseyjarhrepps.
 
Beint á móti mér við borðið sátu Soffía og Sæmundur og þetta var í fyrsta skipti sem ég hitti hann. Ég virti hann vel fyrir mér þennan þægilega mann og þarna hljótum við öll að hafa verið hátt á fimmtugs aldri. Hæglátur var hann, íhugull virtist mér hann vera, vingjarnlegur og ég var viss um að hann var traustur, bara eins og traustustu menn geta verið. Í svo mörg ár hafði mig dreymt um að vera einn slíkur. Við sátum þarna góða stund og ræddum allt mögulegt. En það var eitt sem ég tók eftir sem ég tók ekki upp í umræðunni. Soffía, minn gamli pennavinur, hafði örugglega fengið góðan mann. Það fór vel á því.
 
Valgerður dóttir mín og Guðjónína dóttir Soffíu vinna sams konar vinnu og eru því vel kunnugar. Mér brá þegar Valgerður hringdi fyrir fáeinum árum og sagði að Sæmundur væri farinn heim. En samt er það svo að þessi ár okkar eftir sjötugt eru góð ár, þau eru gjöful, og sum okkar fá að halda heilsu eins og litlir hvolpar sem velta sér við leik í grængresinu á vordegi. Verðmætamatið hefur breytst og hin minnstu blæbrigði lífsins gefa hjartanu ljós. Utan við gluggann minn eru mikið frosthrímuð tré. Þau hafa áhrif á það hvernig orð mín koma á blað á þessum afmælisdegi minnar gömlu pennavinkonu. Þau eru ekki eins og orðin í litlu bréfunum forðum en þau eru skrifuð af miklu þakklæti og hlýhug.
 
Soffía mín, innilega til hamingju með þennan áfanga í lífi þínu. Þú sagðir einhvern tíma að þú værir óttalegt "partýljón". Vertu "partýljón" í veislunni þinni í Garðinum í dag og gleðstu ásamt þinni stóru fjölskyldu og þínum mikla vinahópi og haltu áfram að láta ljósið streyma inn í hjarta þitt. Haltu líka áfram að birta á vinabókinni myndir frá húsbílaferðunum þínum.


Kommentarer
Anonym

Vel skrifað mágur minn.Kramm

Svar: Takk mágkona
Gudjon

2013-11-30 @ 14:00:07


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0