Stórafmæli skólasystur

Ég var í afmæli í gær og ég hef bloggað út af minna en sjötíu ára afmæli. Hún Kristín skólasystir mín átti þetta afmæli. Þegar ég hitti hana fyrst í Skógum haustið 1957 var hún tæplega 14 ára og ég fimmtán ára. Þá kom hún í annan bekk og ég sem var 15 ára var þá annan veturinn minn í Skógum og líka í öðrum bekk. Ég bloggaði í haust um Ferðafélagann og þá sagði ég: "Þegar þessi lágvaxna, unga, fallega kona gekk um gangana í Skógum haldandi báðum höndum um bækurnar sínar og pennaveskið framan á maganum fannst mér alltaf, feiminn og hlédrægur sem ég var, að hún væri bæði þroskaðri og eldri en ég. Samt var hún yngri."
 
Haustið sem hún kom í Skóga var hún skólastúlka sem var ári á undan jafnöldrum sínum. Þegar ég skrifaði þetta í haust áttaði ég mig alls ekki á því að hún hefði verið svona ung. Og að hugsa sér þegar við skrifuðumst út frá Skógaskóla vorið 1959 að við ættum eftir að vera saman hér úti í Svíþjóð á þessu stórafmæli hennar fimmtíu og fjórum árum síðar. Það var svo sannarlega ekki samkvæmt neinum áætlunum. Það var líka mjög óvænt þegar Kristín hringdi til okkar fyrir fáeinum árum og sagðist vera hjá dóttur sinni í Västerås og sig langaði að koma í heimsókn. Auðvitað var hún velkomin og svo birtist hún hér á Sólvöllum og gerði það svo áfram í ein tvö eða þrjú skipti.
 
Það er til mjög falleg frásögn sem heitir Gjöf rabbínans. Hún fjallar um gamla munka sem af gefnu tilefni gera hljóðláta úttekt á hver öðrum. Þar segir um hann Filippus að hann hafi haft þann eiginleika að einfaldlega birtast við hlið annarra þegar þess var mest þörf. Ég veit í dag að Kristín hefur líka fundist við hlið margra þegar þess hefur verið mest þörf. Svo varð það líka þegar líf mitt var í brotum að hún birtist allt í einu við hlið mína og ég er að átta mig á því að þörf mín fyrir stuðning var meiri þá en ég áttaði mig sjálfur á. Þetta kom upp í huga mér á leiðinni heim í vetrarmyrkrinu eftir að hafa verið í afmælinu hennar í gær. Kannski vissi hún um þessa þörf þegar hún kom í heimsókn fyrsta sunnudaginn í júlí.
 
Kristín mín, þakka þér fyrir þína hreinu, einföldu og góðu vináttu og að hafa birtst við hlið mér þegar þess var þörf. Þakka þér líka svo innilega fyrir að fá að koma í afmælið þitt og þakka ykkur öllum fyrir hvað þið tókuð vel á móti mér. Það var eins og ég væri með fjölskyldunni minni.
 
Ég sagði við Kristínu í gær að mig langaði að blogga fallega um hana. Æ, vertu ekki að neinni vitleysu sagði hún, eða eitthvað á þá leið. Hún vill nefnilega ekki að það sé verið að hampa henni. Svo þegar ég var að leggja af stað heim og hún stóð í útidyrunum sagði ég að ég mundi blogga um hana en ég skyldi fara gætilega. Jæja þá, sagði hún, ég skamma þig þá bara ef ég verð ekki ánægð. Ég veit að hún skammar mig ekki. Ég veit að það var rétt að hún var þroskaðri en ég þegar hún kom í Skóga haustið 1957 -þó að hún væri yngri. Og ætli það sé ekki best að viðurkenna að svo er það enn. Konur eru vísar.
 
Innilega til hamingju með sjötíu ára áfangann Kristín.
 
Kristín er þarna með kaffikönnuna og sér til að allir fái í bollann sinn, Alma dóttir hennar búsett í Västerås er hinu megin við borðið og nágrannarnir hinu megin við götuna eru nær glugganum.
 
 
Glatt á hjalla. Alma ásamt dætrunum fagna þegar Kristín var að taka mynd af þeim.


Kommentarer
Dísa gamli granni

Gott að sjá og heyra að þú skulir hafa fundið þér góðan félaga í þinni gömlu skólasystur Guðjón minn.Veröldin er óútreiknanleg. Kærar kveðjur til þín.

Svar: Já Dísa mín, þarna hittir þú naglann á höfuðið; veröldin er óútreiknanleg.
Gudjon

2013-11-14 @ 22:04:23


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0