Eirðarleysi

Ég fann það strax í morgun þegar ég var að koma mér á stjá -eirðarleysi. Ég fann þetta líka þegar ég var búinn að loka grunninum undir íbúðarhúsinu. Ég átti eftir að loka grunninum undir einum gafli, minna en fimm metra breiðum gafli sem vissi að skóginum, í hálfgerðum felum, og þá reyndi ég að skrökva því að sjálfum mér og öðrum að ég væri búinn. Í laumi ætlaði ég bara að draga þennan eina gafl til næsta vors og fann til þess afsakanir sem ég man ekki lengur, svo lélegar voru þær. Málið var bara að ég var búinn að fá mig meira en fullsaddan af þessari grunnavinnu minni.
 
Svo fórum við Kristín upp í Dali og með því var ég meðal annars að halda upp á að grunnavinnan væri búin. En hún var ekki búinn. Meðan við vorum þar uppfrá fann ég á öllu að ég mundi fara í þetta strax og ég kæmi heim. Daginn eftir byrjaði ég og var óánægður yfir að hafa verið að skrökva þessu og viðurkenndi yfirsjón mína. 12-spora prógrammið segir að við eigum að gera svo og ég fylgdi því eftir. Eftir nokkuð samfleytta viku vinnu við þennan eina gafl var ég að lokum búinn og það með réttu. Grunnurinn undir öllu húsinu var orðinn eins og best verður á kosið. Þá kom eirðarleysið.
 
Eirðarleysið byggðist á því að ég ætti ýmislegt eftir en ég þurfti að taka ákvörðun um hvað næst yrði gert. Ég fann að ég gæti ekki slegið slöku við nema stuttan tíma. Þetta var eins og timburmenn. Svo ákvað ég að fara að vinna við loftið á Bjargi, að setja rúmlega 30 m2 gólf þar uppi og geta síðan gengið frá öllu lauslegu sem liggur svolítið hingað og þangað í óreiðu í þessa afbragðs góðu geymslu sem nú er tilbúin á loftinu. Nú er gólfið tilbúið og þá kom eirðarleysið aftur -timburmennirnir.
 
En nú undir kvöldið tók ég ákvörðun um hvað næst tæki við. Það var í raun aðeins um eitt að ræða og það var að taka til hér á Sólvöllum og fara að tína upp á loftið það sem þangað á að fara. Hins vegar veit ég að eirðarleysið hverfur ekki að fullu fyrr en ég verð byrjaður á þessu á morgun. Ásamt þessari tiltekt kem ég til með að setja stuðning eða þil bakvið rósarunnana hennar Valdísar sem eru utan við gluggann þar sem hún sat svo oft. Einnig bakvið brómberjarunnana sem Rósa færði frá ómögulegum stað og á góðan stað seinni partinn í sumar. Tiltektin og þetta hangir saman.
 
Verkefnið á eftir þessu verður svo að ljúka við baðherbergið á Bjargi. Vinnulega séð lendir það kannski ekki svo mjög mikið á mér því að þar er um fagvinnu að ræða sem ég kaupi að miklu leyti. Ég vil að þar verði allt gert eins og tryggingarfélög krefjast annars get ég setið illa í súpunni og ég er orðinn of fullorðinn til að lenda í svoleiðis.
 
Svona er lífið í sveitinni og það er ekki svo slæmt líf. Ég legg mér línurnar og ráðfæri mig oft. Svo vinn ég að hlutunum og ég er alltaf að sjá nýja hluti fæðast. Samt er það þannig að verkefnin minnka að umfangi eftir því sem frá líður. Þannig á það líka að vera. Kannski ég geti svo farið í smá ferðalag næsta sumar til að halda upp á að einhverju nýju verði þá lokið. Samt verður aldrei öllu lokið og það er líka best þannig.
 
Að lokum þrjár myndir sem allar fá smá texta.
 
Þarna sér yfir einn áfanga síðsumarsins. Skrúðgarðameistarinn inn í Adolfsberg í Örebro sagði mér hvaða helgi væri sú allra síðasta til að sá grasfræi. Svo sáði ég tveimur vikum eftir það og sáningin er orðin nokkurn vegin græn. Ekki náði ég að slá þetta, en hann sagði að ég þyrfti að slá sáninguna tvisvar sinnum fyrir veturinn ef vel ætti að vera. Ég er samt mikið glaðari með þetta grænt en að hafa moldina drullublauta og óyndislega fyrir augunum.
 
Þetta er áfanginn sem lauk í gær. Við gaflinn hinu meginn er mikið pláss sem ekki sést svo vel á myndinni, en þangað ætla ég að flytja ýmislegt á morgun. Til dæmis fimm garðkönnur sem liggja út um allt, eina fjörutíu til fimmtíu metra af garðslöngum, garðhrífur, arfasköfur, stóra og litla blómapotta, nokkrar fötur og svo framvegis. Eftir það verður sveitasetrið Sólvellir enn þá meiri sómastaður. Þið eruð velkomin í kaffi þegar þetta er tilbúið.
 
Svo er hér eitt sem er alveg óskylt efninu. Þetta er granatepli sem hefur verið tæmt með sleifarlaginu. Nú er orðið svo gaman að tæma granatepli að ég er farinn að borða meira af þeim. Þau eru sögð mikið holl.
 
Það hvarflaði ekki að mér að blogga í kvöld en eiginlega var það áðurnefnt eirðarleysi sem dreif mig til þess. Góðar stundir.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0