Að vera þátttakandi í birtunni

Ég ætlaði ekkert að segja frá þessu en málið var að ég var að hengja upp fuglamat í trén hérna heima á laugardaginn var. Svona tólgarbolta í neti sem eru með miklu af fræi í og öðru góðgæti fyrir fuglana. Ég dreg band í gegnum netið og hengi boltana svo upp.
 
Lítill fugl kom svífandi og settist ofar í tréð. Hann horfði niður til mín og byrjaði að tala við mig. Hvernig hefurðu það manni? spurði hann. Jú takk, það dugir svaraði ég. Lélegt svar sagði fuglinn. Ég vissi það og átti erfitt með að tjá mig meira. Mig langað að segja að ég væri alveg í sjöunda himni en ég treysti mér ekki til að ljúga. Ég vonaði að hann bjargaði mér úr klípunni og héldi áfram. Sjálfsagt vissi hann það og beið átekta -lengi. Ég sótti fleiri kúlur af fuglamat til að hengja upp á næstu grein. Kannski var ég að reyna að blíðka fuglinn.
 
Þegar ég var að hengja þær upp sagði hann: Manni! Þú sem ert alltaf vera að lesa góðar bækur og gera góða hluti, af hverju ertu ekki í sjöunda himni? Úff, í sjöunda himni, vissi hann hvað ég hafði verið að hugsa. Ég vissi að hann hafði rétt fyrir sér en það vantaði einhverja skerpu til að það sem ég hef verið að taka til mín og gera fyrir sjálfan mig kæmist alveg til skila.
 
Fuglinn flaug nú nokkra hringi kringum tréð og mér fannst sem hann væri þyngdarlaus, svif hans var svo létt. Takk fyrir matinn sem þú gefur okkur og bless, bless, sagði hann. Svo tók hann flugið upp á við og austur yfir skóginn og hvarf. Eftir skildi hann birtu yfir trjátoppunum þar sem hann hvarf og ég skildi hana ekki alveg. Það var ekki andlit í birtunni en samt var hún eins og birta af andliti sem geislar af lífi, lífi sem lætur ekki hindra sig af smámunum. Hvorki smámunum eða neinu öðru sem þyngra vegur á vogarskálinni.
 
Þetta voru skilaboðin til mín: Manni, farðu nú að vera fullorðinn og slepptu ljósinu inn í líf þitt. Fylltu þig af því og vertu lifandi fyrir allt og alla. Þá geturðu orðið afi barnabarnanna þinna í mörg ár til, afi sem þau munu aldrei gleyma.
 
*          *          *
 
Ég var á tónleikum í gær. Hún Kristín skólasystir mín var með mér. Hún er tónlistarkona og hún hlakkaði mikið til. Það gerði ég líka. Svo þegar við komum að sætunum okkar, númer 1116 og 1117 var kominn maður í annað sætanna. Hann var líka með 1117. Dyravörður var á næsta leiti og hann gekk í málið og svo gekkst annar maður í þetta líka og hann hafði greinilega hærri gráðu en dyravörðurinn. Meðan þetta var í óvissu settist Kristín í autt sæti ofarlega á áhorfendabekkjunum.
 
Eftir að hringsnúast þarna nokkur andartök með þessum mönnum gekk ég áleiðis til Kristínar og þá varð mér litið upp á móti bekkjaröðunum og virti fyrir mér andlit hennar þar sem hún sat og beið eftir að dregið yrði frá sviðinu. Andlitið lýsti af þessari líka afslöppuðu lífsgleði og vissu um að bráðum yrði gaman og hún mundi taka þátt í því. Það ætlaði ég líka að gera en ég fann samt mun á mér og þessu andliti. Þarna sá ég hana líka fyrir mér þegar hún gekk kvöld og kvöld með gítarinn sinn inn í matsalinn í Skaftafelli þegar búið var að ganga frá öllu og starfsfólkið fylgdi henni. Svo var spilað og sungið og allir höfðu gaman. Fólkið frá Asíu, Alaska eða Kamerún eða hvaðan það nú kom. Líka fólkið frá Akranesi og Reykjavík.
 
Að lokum fengum við auð sæti, nokkuð að eigin vali. Svo var dregið frá sviðinu og tónleikarnir hófust. Þá var eins og þyngdarlögmálið upphæfist, hyrfi, og líkamsþyndgin yrði eins og hjá fuglinum sem heimsótti mig við matargjöfina. Eftir einhvern hálftíma datt mér allt í einu að líta á klukkuna og varð alveg hissa hvernig ég hreifst. Ég var viss um að ef ég hefði verið að hlusta á þessa tónlist í bílnum mínum á leiðinni í vinnuna, þá hefði ég slökkt á tækinu. En þarna var ég algerlega gagntekinn. Ég leit á Kristínu og hún virtist hafa orðið af með þyngdarlögmálið líka. Hún var í tónlistarheiminum. Svo héldu tónleikarnir áfram.
 
Að sjá lýsandi andlit Kristínar þarna á áhorfendabekknum minnti mig á það að fyrir mörgum árum var send beint út í sjónvarpi þáttaröð frá Örebro. Það var látið út ganga að æskilegt væri að áhorfendur væru viðstaddir og fylgdust með. Að minnsta kosti eitt kvöldið fórum við Valdís til að fylgjast með. Við stóðum nálægt einum af tröppunum sem lágu upp á stórt sviðið. Stjórnandinn var lítið yngri en við, en svo ótrúlega lifandi og drífandi. Ég hugsaði sem svo að það væri svona líka sterkur í honum lífsloginn. Alveg aðdáunarvert. Allt í einu kom hann hlaupandi niður tröppurnar þar sem við Valdís stóðum, svona líka snarlifandi, og eitt augnablik snarstoppaði hann beint fyrir framan mig og leit undrandi í andlit mér. Og ég segi aftur "undrandi". Svo hljóp hann að næstu tröppu og þar upp. Ég var ekki í vafa um að hann tók eftir lífleysi í andliti mínu. Ég skal líka viðurkenna að á því augnabliki fannst mér það sjálfum miðað við hans sterka lífsloga. En það var þá og síðan eru ár og dagar og mér hefur tekist all nokkuð að virkja lífslogann og stefni enn fram á við.
 
En tónleikadagurinn var mjög góður dagur og að kvöldi þess dags hafði mér tekist að höndla birtuna sem fuglinn skildi eftir yfir trjátoppunum. Ég var ákveðinn í því að vakna í þeirri birtu í morgun líka. Ekki gekk það alveg eftir en lífið er samt miskunnsamt við mig og gefur mér möguleikann á að vera þátttakandi í birtunni.
 
 
(Hann er nú meiri rugludallurinn hann Guðjón á Sólvöllum)


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0