Veturliði

Ég var svolítið í kapphlaupi í dag en ég hafði erfiðan keppinaut. Hann verður ekki umflúinn og hann leggur allt undir sig og gefur engin grið. Það er best að gefa honum nafnið Veturliði. Í nótt leggst veturinn yfir þetta land samkvæmt spám en þó er það svo að það á að snjóa í nótt, rigna í fyrramálið og snjóa svo síðdegis á morgun. Ekki svo venjulegt hér að það sé spáð svona misjöfnu veðri en við sjáum til hvers konar hrærigrautur það verður.
 
Ég ýkti í fyrstu setningunni. Ég var ekki í neinu kapphlaupi í dag. Ég hef lýst því yfir að nú sé Sólvallaeignin komin á það stig að það sé hægt að slá slöku við hvenær sem er. Það er að segja að fresta verki, taka hlé í miðju verki og að ég fari mér hægt ef ég vil. Það er mikið notalegra þannig en að finnast sem það sé alltaf þrýstingur á að klára fljótt, fljótt hvert verkið á fætur öðru. (Að vísu er ég aldrei fljótur með þessi verk mín þó að ég reyni) En nú ætla ég samt að gera játningu. Ég er ekki alveg kominn í þann gírinn ennþá. Ég á í örlitlum vandræðum með sjálfan mig hvað þetta varðar. Samt er það orðið mikið betra núna en fyrstu dagana þegar ég hafði statt og stöðugt á tilfinningunni að ég yrði að flýta mér með eitthvað.
 
 
Þetta er óásjáleg mynd. Framan á þessu grindverki til sitt hvorrar hliðarinnar eru klifurrósir. Ég vil ekki hafa klifurrósir upp við húsvegg. Þær bíta sig ótrúlega fast við viðinn. Því ákváðum við Valdís að setja þessar rósir út á lóð þar sem hún sæi þær út um gluggann frá stólnum sínum. Þannig gróðursettum við þær vorið 2012. Svo kom veturinn 2012 -2013, veturinn sem drap rósir í Örebroléni í þúsundatali, þar á meðal rósirnar hennar Valdísar. Svo gróðursettum við nýjar rósir síðastliðið vor en ég byggði ekki bakvið þær fyrr en í dag. Því vildi ég endilega ná fyrir veturinn. Það var að skyggja í dag þegar ég tók þessa mynd og þess vegna var ég ekki búinn að ganga frá þegar ég tók myndina.
 
Sómakonurnar vinkonur Valdísar vildu endilega láta eitthvað af hendi til að sýna henni hlýhug eftir að hún féll frá. Svo komu kerlingaangarnir með umslag með sér þegar þær komu hér í heimsókn í haust og í umslaginu var gjafakort fyrir einni rós. Ég er búinn að gefa þeirri rós pláss mitt á milli þeirra gömlu og svo er spurningin hvort sú rós verður í einhverjum öðrum lit. Í hvítum lit kannski? Þær sem þarna eru eru báðar rauðar. Þannig vildi Valdís hafa það. Garðyrkjumaðurinn sem ég hef oft samband við ráðlagði mér að bíða vorsins úr því sem komið væri. Það var nú líka best þannig. Grindverkið er komið upp og rósamold og hænsnaskítur er kominn í rósabeðið og allt er frágengið og nú má veturinn koma á þetta. Að vori verður mikil gróska í rósunum á Sólvöllum þar sem nú fyrst er þetta almennilega tilbúið.
 
Þetta er reyndar ekki það sama. Hér eru brómber. Þegar ég varð sjötíu ára komu nokkrir fulltrúar frá Vornesi í heimsókn. Starfsfólkið hafði safnað peningum fyrir tveimur eplatrjám og svo varð afgangur. Þá bættu þau við tveimur brómberjaplöntum. Ég var þeim þakklátur fyrir þessa sniðugu hugmynd því að ég held að mér hefði seint dottið það í hug sjálfum. Þá um vorið gróðursetti ég þessar plöntur á ótrúlega fáránlegum stað og í sumar færði Rósa þær á þaulhugsaðan stað og nú er líka búið að byggja bakvið þær. Óásjálegt er þetta líka eins og rósirnar en að vori mun koma mikil gróska í brómberjaplönturnar líka. Ég yrði mjög stoltur ef ég fengi einn eða tvo bolla af brómberjum á næsta ári. Á morgun þarf ég að binda þessar plöntur við grindverkið. Það er góð tilfinning að vera búinn að gera vel við þetta hvort tveggja.
 
 
 
Persimónur
Já, persimónur heita þessir ávextir. Ég held að ég hafi séð þá lengi í verslunum en aldrei keypt þá fyrr en fyrir eins og viku. Þetta eru bragðgóðir ávextir fannst mér, safaríkir og kjötkenndir. Ætli ég kaupi ekki eins og tvö kíló af þeim fyrir helgina. Rósa og fjölskylda koma nefnilega um helgina og það er til nóg af sultusykri hér heima. Því ekki að gera tilraun með persimónusultu? Ég las um þessa ávexti áðan og mér sýnist sem þeir séu með ólíkindum hollir. Það er margt hollt í þessum heimi ef að er gáð. Því ekki að nýta sér það í skammdeginu og koma svo ungur og hraustur undan vetri.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0