Barnalegt eða hvað?

Ég var búinn að fara fram á bað í morgun og koma við hjá eldhúsvaskinum og fá mér vel að drekka af vatni. Svo læddist ég inn aftur og lagði mig á bakið með hnakkann upp á svolítlum kanti sem er við höfðalagið. Svo horfði ég upp í loftið og hugleiddi lífið. Mitt í þeim hugleiðingum hringdi síminn og ég hrökk við. Þá var klukkan að nálgast níu. Ég hefði nú helst viljað skrifa níu með mjög litlum stöfum en ég get það ekki, kann það alla vega ekki.
 
Ég ræskti mig rösklega, setti upp gleraugun og reyndi svo að tala eins og maður sem var búinn að borða morgunverðinn sinn. Í símanum var Ove dagskrárstjóri í Vornesi. Hann spurði hvort ég gæti unnið tvo daga fyrir helgi og tvo daga eftir helgi. Ég kom með móttilboð; einn dag fyrir helgi og tvo daga eftir helgi. Samþykkt án athugasemda. Svo sagði hann mér ástæðuna og án þess að tala um það sýndist mér sem það gæti orðið all nokkuð meira en það sem við töluðum um.
 
Í gær lofaði ég líka að vinna um jólin. Á jóladagskvöld og fram á annan í jólum og svo einn dag milli jóla og nýárs. Ég sá fram á að ég hefði gott af þessu. Það mundi bara lyfta mér upp í skammdeginu. Og að vinna í Vornesi um jól er mjög þakklátt af sjúklingunum. Í hitteðfyrra vann ég á aðfangadagskvöld. Þá borðuðu allir við langborð og maturinn var mikill og fjölbreyttur, hreina jólahlaðborðið.
 
Þegar fólk var nokkurn veginn búið að borða fór ég fram í eldhús, setti upp jólasveinahúfu og stikaði svo inn í matsalinn aftur berandi all stóran sekk. Hvaðan kemur jólasveinninn? hrópaði ég. Frá Íslandi hrópuðu allir sjúklingarnir í kór, mikið hærra en ég hafði hrópað. Svo deildi ég út pökkum úr pokanum. Það voru konfektkassar, allir nákvæmlega eins utan að þeir voru ólíkir á litinn. Liturinn á jólapappírnum var líka misjafn. Svo opnuðu allir pakkana sína með mikilli andakt. Síðan litu þau á hvers annars pakka og sögðu til dæmis: Já, er þinn rauður, eða, fínn litur á þínum, eða hvernig er þinn pakki? minn er blár, og þar fram eftir götunum.
 
Barnalegt eða hvað? Nei! Stemmingin var góð og ég vissi vel að nærvera mín var nokkur þáttur í því. Þarna var fólk trúlega frá 18 ár og upp í 60+ og þau voru eins og fjölskylda sem vildi af sannri einlægni sína að þau væru þakklát og það væru einu sinni jól. Ég er dálítill sögukall og einhverja sögu hafði ég sagt þeim þennan aðfangadagseftirmiðdag. Svo var kvöldfundur og þá sögðu sumir að þetta væri besti aðfangadagur í fjöld ára og einhver sagði sá besti í lífi hans.
 
Að hugsa sér. Ef þetta fólk hefði allt verið úti í samfélaginu hefði stór hópur af því lifað í niðurlægingu alkohólismans, valdið leiðindum, vandræðum, mikilli sorg og ótta og tárin hefðu runnið víða. Eftir öll þau jól sem ég hef unnið í Vornesi man ég eftir einum einasta degi þar sem fólk var þumbaralegt. Ég reyndi að breyta því í það skipti en mér mistókst það. Ég man vel að þá var ég vonsvikinn með frammistöðu mína. Lang fallegasta jólasaga sem ég hef verið með um varð samt til þau einu jól sem ég var í Svartnesi. Það er ekki nema von að ég væri hrærður við að ganga þar um ganga í haust. Þessi fallega jólasaga er bara eitt þeirra mörgu atriða sem höfðu djúp áhrif á mig þar uppfrá.
 
Sú jólasaga verður ekki sögð í þessu bloggi, það yrði of mikið. Og nánast allt sem stendur í þessu bloggi er allt annað en það sem ég ætlaði að segja. Áður en ég komst fram til þess sem bjó í huga mér beinlínis ultu hugsanirnar fram og út frá því varð efnið sem ég skrifaði.
 
*          *          *
 
Við hlið mér á skrifborðinu stendur bók eða almanak sem mér var gefið í haust. Á síðu dagsins í dag, þann 27. nóvember, stendur þetta: "Þeir sem lifa í sínum eigin hugarheimi geta sjaldnast deilt annarra gleði". Það var þetta sem ég var með í huga þegar ég settist við tölvuna. Ég var nefnilega að hugsa um að ég hafnaði mikið í eigin hugarheimi einn hér heima og því væri ég heppinn að fara að vinna svolítið.
 
Að geta ekki deilt annarra gleði eða gleði með öðrum er auðvitað mikill þrándur í götu hvers einstaklings. Ég hugsaði um það í dag að það væri kannski ekki leyfilegt fyrir fullfríska manneskju að vera ekki meiri þátttakandi í lífinu en svo að geta ekki tekið þátt í gleðinni með öðrum. Ég bloggaði svolítið um þetta fyrir nokkrum dögum síðan þegar ég sagði frá þáttastjórnandanum sem stjórnaði beinni sjónvarpsútsendingu frá Örebro hér um árið.
 
En nú er það svo að það varð annað efni sem sigraði í kvöld þannig að hugleiðingar mínar legg ég í skattakistuna mína. Það sem ég var að hugleiða í morgun þegar Ove hringdi var af allt öðrum toga. Kannski eitthvað um það að lífið eftir sjötugt væri gott líf ef við höldum heilsu og látum ekki mótlæti og eymd ná yfirhöndinni. Ég held að við höfum ekki leyfi til þess heldur. Sé okkur gefin heilsan sé það skylda okkar í þakklætisskyni að láta lífið vera gott.
 
Ps. Eftir hálftíma verður rúgbrauðið tilbúið, hluti af daglegum matarforða á Sólvöllum. Það er bara della að maður prumpi af rúgbrauði.


Kommentarer
Björkin

Þú ert snillingur í að hjálpa öðrum,en ekki gleyma sjálfum þér mágur minn.Stórt krammmmmmmmm

Svar: Þakka þèr fyrir umhyggjuna mágkona.
Gudjon

2013-11-28 @ 14:09:39


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0