Að geta sofið næstum endalaust

Þegar ég byrjaði að skrifa þetta var klukkan fimmtán mínútur yfir tíu á þessum laugardagsmorgni. Ég var þá að enda við að kveikja upp í kamínunni en á sama tíma veit ég að dóttursonurinn Hannes Guðjón í Stokkhólmi var búinn að mála heilan björgunarbát með vatnslitunum sínum. Það var sem sagt misjafnt hvað mennirnir höfðust að. Seint í gær lauk rúmlega heilli vinnuviku hjá mér og ég kom heim um átta leytið. Einhvern tíma eftir klukkan tíu settist ég í stól fyrir framan sjónvarpið, kveikti á því, tók hljóðið af og fór inn á textavarpið til að sjá veðurspána til næstu fimm daga. Þegar klukkan var hálf tólf hafði mér ekki tekist að sjá veðrið þannig að mig minnir að ég hafi sleppt því. Mér fannst líklegt að ég hefði sofnað og var næstum óhuggulega þreyttur. Í dag er ég ekki í miklum vafa um það að ég hafði sofnað.
 
Einhvern tíma milli fimm og sex í morgun þurfti ég að fara fram á bað og man varla eftir að hafa komið til baka. En alla vega vaknaði ég aftur í rúminu mínu klukkan níu og var næstum hissa á öllum þessum svefni. Núna þegar ég er almennilega vaknaður er ég ekkert hissa á því. Þegar ég fer í vinnuna mína fer ég þangað til að vinna hana. Ég fer ekki þangað til að grafa skurði með höndunum eða að moka út skít með stunguspaða. Hins vegar fer ég þangað til að aðstoða fólk við að moka út mikilli óvissu og óhreinindum úr lífi sínu. Það eru viss átök líka þó að ég meigi ekki gráta með þessu fólki.
 
Margir geta sagt það bara eins og það er að lífið hafi verið orðið óbærilegt. En aðrir segjast hafa það gott en þeir séu knúnir af einhverjum óréttlátum aðila til að vera á þessum óttalega stað, Vornesi. Að fá spurningu um nafn yngsta barnins, hvaða augnalit dóttirin hafi eða hvað það sé langt síðan barnabörnin hafi komið í heimsókn, allt þetta snertir eitthvað viðkvæmt langt inni í brjóstinu. Að nefna nafn litla barnsins síns, að vita jafnvel ekki hvaða augnalit dóttirin hefur eða að hafa ekki séð barnabörnin sín í sjö mánuði þó að þau búi í næstu götu -nei bíddu nú við, hvað þetta allt snertir það fínasta í manneskjunni.
 
Þessi vinna er ekkert sálfræðikukl af viðvaningum. Hún gengur út á að fá fólk til að byrja að tala eins og alkohólistar og fíkniefnaneytendur gera frjálslega á venjulegum AA fundum. Vinnan gengur líka út á að deila klukkustundum, dögum og sólarhringum með þessu fólki og vera sönnun þess að lífið geti verið gott. Hún gengur einnig út á að sjá til þess að fólk fái það sem til þarf og að sjá til þess að reglum sé fylgt. Það er best fyrir þetta fólk að viðurkenna ástandið og segja sannleikann allan, þá birtir af degi og fuglasöngurinn berst inn um gluggann og vonirnar glæðast í hugskotinu. Það gengur ekki átakalaust en það er alls erfiðis og allra tára vert fyrir þá sem þurfa að vakna til nýs lífs. Það byrjar með því að segja sannleikann djúpt frá sínum innstu hjartarótum.
 
Ég hef ótrúlega góða vinnu en rosalega get ég orðið þreyttur á einni viku.
 
Á minnst eins árs fresti fer ég með bílinn til Ford í Örebro í þjónustu. Einstaka sinnum fer ég með sjálfan mig í viðhaldsþjóðustu af einhverju tagi. Í haust fór ég til dæmis til sjúkraþjálfara til að ræða um hálsinn við hann. Einhvern tíma talaði ég um að samkvæmt röntgenmynd væri ég með hressilegt slit í hálsliðunum. Ekki hef ég liðið þrautir fyrir það en hins vegar var ég orðinn duglega stirður í hálsinum og að líta til hliðar og aftur fyrir mig þegar ég ók bílnum mínum, það var erfiðleikum háð. Svo sá ég orðið á ljósmyndum að stirðleikinn í hálsinum sást greinilega á einkennilegum líkamsburðum mínum.
 
Sjúkraþjálfarinn kenndi mér nokkrar æfingar og svo er það á mína ábyrgð að nota þær. Svo vildi ég bæta um betur fyrst ég var byrjaður og fékk tíma hjá töfrakonunni í Vingåker, en hana hef ég talað um áður. Ég kom til hennar klukkan fimm í fyrradag, fimmtudag, og var á bekknum hjá henni til klukkan sjö. Hún nuddaði hálsinn og herðarnar og stakk í mig einhverjum helling af nálum. Þegar hún stakk nál neðarlega í kálfann var eins og það neistaði á nál fremst á ristinni. Jahérna. Svona kröftugt hafði það aldrei verið fyrr. Og svo skeði þetta á nokkrum fleiri stöðum. Það verður ansi dimmt að aka heim sagði hún. Það verður mikið af elgjum, hjörtum og dádýrum kringum vegina. Já, ég vissi það en sagðist mundi fara mér hægt.

Þegar ég hafði borgað henni, þakkaði fyrir og kvaddi sagði hún í þriðja skiptið. Mundu að það er mikið af elgjum, dádýrum og hjörtum kringum vegina í myrkrinu. Þegar ég hafði ekið eina sjö kílómetra móti Örebro sá ég framundan þar sem þrír bílar stóðu þétt hver aftan við annan og það blikkuðu stöðuljós á þeim öllum. Ég næstum stoppaði áður en ég fór framhjá þeim og sá fólk sitja í öllum bílunum. Stór jeppi var fremst og ég reyndi að sjá framan á hann en sá ekkert í myrkrinu. Ég minntist varnaðarorða töfrakonunnar og ég veit núna að þarna varð slys. Það hljóp elgur upp á veginn og þegar fyrsti bíllinn stoppar svo snögglega er erfitt fyrir hina að forðast aftanákeyrslu. Elgurinn mun aldrei hlaupa meir. Er töfrakonan virkilega svo mikil töfrakona að hún sá þetta fyrir?
 
Eiginlega finnst mér sem ég sé hálf timbraður en ég er það ekki. Ég er ánægður með mig í dag og ég má vera eftir mig. Uppþvottavélin var að enda við sitt og þvottavélin er í gangi. Kannski get ég hengt út á snúru í dag. Svo þarf ég að þvo aðra vél og svo enn aðra. Þá verð ég búinn að ná í skottið á sjálfum mér. Fasani með ótrúlega langar stélfjaðrir hefur verið að spígspora stutt utan við gluggann minn. Mig langar að fá hann fyrir fastan nágranna. Sólin skín glatt og hitinn er um átta stig. Svæðin hér úti sem ég sáði í allt of seint eru orðin nokkurn vegin græn. Mikið er ég feginn að vera nú frjáls maður og þurfa ekki að leggjast meira undir húsveggina.
 
Lífið er dálítið tregablandið sem stendur en það er gott samt. Treginn getur líka verið fallegur. Lauffallinu er nánast lokið en beykitrén mín eru þakin næstum rauðbrúnu laufi sem mun fylgja þeim fram á næsta vor. Þessi litur er svolítið tregablandinn líka. Vísdómsorð sem er að finna þann annan nóvember í bók sem stendur við hlið mér segja: "Þó þú gerir ekki annað í dag en sýna elskusemi öllum þeim sem þú hittir hefur þú staðið þig með prýði." Ég veit ekki hvort ég yfir höfuð hitti nokkra manneskju í dag. En hugsanlega þarf ég í verslun og viða svolítið að mér. Ég get þá alla vega þakkað manninum eða konunni við kassann fyrir lipurðina eða hjálpsemina eftir því sem við á.
 
Það er komið framyfir hádegi og svo ætla ég að sofa lengi í nótt.


Kommentarer
björkin

Farðu vel með þig mágur minn.

2013-11-03 @ 10:59:52


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0