Svanhvít og Tryggvi

Það mun hafa verið stuttu áður en ég fór til Svíþjóðar, en það var 9. febrúar 1994, að ég heimsótti þau hjónin Krístínu Aðalsteinsdóttur kennara á Akureyri og Hallgrím Indriðason skógfræðing. Við ræddum meðal annars um þetta uppátæki mitt að freista gæfunnar í nýju landi. Kristín bað mig að lofa sér einu; að hafa samband við hann Tryggva Þór bróður sinn sem byggi í Örebro. Ég hafði með mér heimilisfang og örugglega símanúmer líka. Fljótlega eftir að ég kom i Svartnes skrifaði ég nokkrar línur til Tryggva og færði honum kveðjur frá systur hans. Á einhvern hátt svaraði Tryggvi þessum línum mínum, annað hvort í bréfi eða með póstkorti.
 
Svo hafði ég aftur samband við hann nokkrum vikum síðar og svo ekki meira í ein tvö ár. Ég mundi alltaf eftir honum og fannst sem einhvern tíma mundi koma að því að við hittumst. Um mánaðamótin janúar-febrúar 1997 fluttum við Valdís svo til Örebro, nokkuð sem alls ekki var á dagskránni fyrstu árin okkar í Svíþjóð. Stuttu eftir að við vorum komin í hús í Örebro hringdi ég til Tryggva og það var ekki að sökum að spyrja; hann spurði umsvifalaust hvort við gætum ekki komið í heimsókn til þeirra þá strax. Svo gerðum við og þá kom Svanhvít líka inn í myndina.
 
Við hittumst öðru hvoru en ekki nógu oft. Í gærkvöldi hringdi Tryggvi til mín og spurði hvort þau mættu líta við hjá mér upp úr hádegi í dag. Auðvitað. Það var á þeim tíma sem ein uppskrift af rúgbrauði var búin að vera fjóra tíma í ofninum. Ég var líka búinn að lofa sjálfum mér því að baka pönnukökur í dag og hafa svolítil hátíðabrigði. Allt féll á sinn stað og svo birti af nýjum degi. Ég tók smávegis til, horfði á sjónvarpsmessuna og svo bakaði ég pönnukökurnar. Heppin var ég að fá fólk í heimsókn. Þá fæ ég hjálp við að borða þessa hálfu uppskrift að pönnukökum sem ég ætlaði að baka. Mér finnst ekki hægt að baka minna en það. Hefðu þau ekki komið hefði ég verið að úða í mig pönnukökum fram á þriðjudag. Hellingur er eftir samt. Ég hefði átt að senda þau með nokkrar pönnukökur heim til að forða mér frá því að þurfa að víkka beltið mitt um eitt gat.
 
Ég byrjaði að ganga með þeim hjónum kringum húsið í von um að fá svolítið hrós frá þeim fyrir nýafstaðnar framkvæmdir. Barnaskapurinn yfirgefur mig seint. Mér varð að ósk minni. Þess fleiri daga sem ég hef verið einn heima, þess meira tala ég þegar einhver kemur. Það getur orðið botnlaus orðaflaumur. Heppin þau að ég hafði verið að vinna svo mikið í vikunni. Það hjálpaði, annars hefði ég ekki þagnað.
 
Tryggvi og Svanhvít voru bráð hress. Tryggvi hefur fengið að kenna á því að sumir fá að glíma við meiri heilsubrest en aðrir. En hann er af norrænu víkingakyni og hefur náð sér ótrúlega eftir áfall sem sótti hann heim fyrir fáeinum árum. Það er ótrúlegt hvað hann hefur tekið á hlutunum með mikilli þolinmæði og þess vegna hefur hann náð sér betur en ella er ég viss um. Tryggvi var eitt sinn förstöðumaður Menningar- og fræðslusambands alþýðu á Íslandi. Störf hans hér í Svíþjóð hafa verið af svipuðum toga. Svanhvít vinnur við að gera öldruðum lífið léttara. Mikið meigum við hin vera þakklát að það er til fólk sem vill vinna við það.
 
Eftir kaffi og rúgbrauð með hreinu kúasmjöri og prestosti ásamt rjómapönnukökum spjölluðum við um alla heima og geima um stund. Svo sagði ég að mig vantaði mynd af þeim, mynd sem ég teldi best að taka við útidyrnar. Því notuðum við tækifærið að taka þessa mynd þegar þau voru að fara. Ég bullaði einhver óskop í von um að þau gætu hlegið og mér tókst. Fólk hlær ekki að bulli nema allt sé í góðu gengi. Við áttum góða stund saman og þakka ykkur fyrir þessa góðu heimsókn Svanhvít og Tryggvi.


Kommentarer
björkin

Enn og aftur,Gott að eiga góða vini.Góða nótt mágur minn.

2013-11-03 @ 23:54:53
Rósa

Mikið er þetta fín mynd af þeim!

Kveðja,

R

Svar: Já, hún er nefnilefa stórfín.
Gudjon

2013-11-04 @ 14:27:43
Svanhvit

Góður myndasmiður Guðjón . Ekki bara húsasmiður.🔨Takk fyrir fínan eftirmiddag.

2013-11-04 @ 21:23:17
Svanhvit

Guðjón er góður myndasmiður sé ég, ekki bara húsasmiður. Takk fyrir fínan eftirmiddag í gær.

Svar: Takk þið fyrir að taka af skarið og koma. Ég er reyndar aldeilis óvænt í vinnunni núna.
Gudjon

2013-11-04 @ 21:29:25


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0