Afmælisdagar á Sólvölum

Síðasta afmælisdaginn í lífi hennar Valdísar héldum við upp á með því að fara með henni á jólahlaðborð í Karlslunds herragarði vestast í Örebro. Ég held að hún hafi notið þess þó að hún væri ekki heil heilsu.
 
Síðan morguninn þann sextánda apríl þegar hún lést á sjúkrahúsinu í Örebro hef ég skrifað mörg blogg um hana eða tengd henni, mikið fleiri en ég ætlaði mér í fyrstu. Ég hef svo oft ekki getað látið það vera að nefna hana á einn og annan hátt og það er eins og orðakistan sem tengist þessari konu tæmist aldrei. Í dag hefði hún orðið sjötíu og eins árs og í tilefni af því hafa myndirnar, orðin og minningarnar runnið hjá, eða kannski hreinlega hrannast upp. Sérstaklega eftir að helgargestirnir mínir og fólkið sem kom í dag fóru, þá lagði þetta ferli Sólvelli hreinlega undir sig um tíma. Nú hefur vinur minn kyrrðin lagt sig yfir og enn einu sinni set ég orð á blað sem tengjast Valdísi.
 
Í gærkvöldi logaði ljós við stóru myndina af henni á kommóðunni hérna frammi og þá kveiktum við líka á ljósi úti við rósirnar hennar. Ljósið við myndina logar oft og slokknaði í gærkvöldi að vanda. Ljósið hjá rósunum lifði alla nóttina og lifir enn. Kertið við myndina er það stórt núna að það mun endast allan daginn og í kvöld kem ég til með að slökkva á því. Ljósið úti fær að brenna út. Með þessu vil ég og við sem höfum verið hér um helgina sýna að við munum og virðum og að tilfinningarnar eru ekki ósnortnar á þessum afmælisdegi. Svo mun það verða um ókomin ár.
 
Næst okkur eru jú Hannes, Rósa og Pétur. Konan vinstra megin við borðið næst glugganum er hún Annelie sem ég verð að telja bestu vinkonu Valdísar frá árinu 1997 eða 1998 og áfram. Og þá er ég að tala um vinkonu. Þær gátu setið hér frammi í stofu, eða úti, og talað og talað saman tímunum saman og sama var það meðan við áttum heima í Örebro. Þó að það skildu þær að tuttugu ár, þá var það einhver besta vinátta sem ég hef verið vitni að. Sársaukafyllsta símtalið sem ég átti snemma um morguninn þann 16. apríl var símtalið til hennar.
 
Snemma þann morgun hafði ég fengið sms frá henni þar sem hún spurði eftir líðan Valdísar, en þá var Valdís þegar farin heim til sinna nýju heimkynna. Að heyra sorg hennar skar gegnum hjartað. Hin vinkonan, Ghita, situr fyrir miðju hægra megin við borðið. Kannski var það hennar finnska sinni sem gerði henni kleift að taka hlutunum með meiri ró. Báðar þessar konur eru heimilisvinkonur á Sólvöllum í dag og ekki síst þegar Rósa og fjölskylda eru hérna. Sérstsaklega Annelie hefur oft samband til að athuga hvort allt sé í lagi. Kannski bað Valdís hana þess þó að ég fái ekki að vita það. Það hefði ekki verið ólíkt henni. Menn þeirra beggja sitja við hlið þeirra.
 
En það finnst líka léttari hlið við þessa mynd. Allir eru brosandi. Hannes er líka með. Hann stríðir mér bara með einu, og það er að vilja ekki vera með á mynd, ekki alltaf en oft. En þegar ég tók þessa mynd skaust hann allt í einu fram að stólnum hennar mömmu sinnar og stillti sér upp -á sinn hátt. En sá háttur var líka bestur á því augnabliki og ég flýtti mér að smella af meðan hann ennþá var þarna til staðar.
 
Næst okkur á borðinu er rúgbrauð og ostur. Fjær er smjörið og hangikjötið og fjærst eru pönnukökurnar. Þegar ég sagði að hangikjötið væri reykt lambakjöt runnu tvær grímur á mann einn í hópnum og hann spurði hvort það væri skylda að smakka á því. Ég sagði svo vera, annars fengi hann ekki vísum til Íslands. Það runnu á hann tvær grímur en svo smakkaði hann á hangikjötinu og þótti gott. Hann mun fá vísum til Íslands.
 
Þetta var stórskemmtileg stund, blanda af hádegisverði, árdegiskaffi og síðdegiskaffi. Að ég er að telja upp það sem borið var á borð geri ég til þess að sýna fram á að það var íslenskt borð á afmælisdeginum hennar Valdísar. Þannig hefði hún haft það sjálf. Afmælisdagurinn hennar heppnaðist vel.
 
Þegar þetta fólk var komið í hús á Sólvöllum saknaði Hannes þess að athyglin snerist frá honum til gestanna. Að lokum settist hann við tölvuna í herbergi afa og horfði á barnaefni. Hann lét sér það vel líka þó að það væri óreiða á afa skrifborði. Hann sagði ekki skamm, skamm afi, en leyfði mér þess í stað að taka eins margar myndir og ég vildi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0