Annar í bloggi í dag

Ég er ekki einn að hringla á Sólvöllum núna. Heil fjölskylda er hér og það er heilmikið líf á staðnum. Hannes Guðjón og fjölskylda komu í gær og hann leikur á als oddi og er forvitinn um hagi afa síns.
 
Þetta var ég búinn að skrifa í gærkvöldi, laugardag, og síðan skrifaði ég ekki meir en vaknaði hins vegar eftir svefn sem ég veit ekki hvort stóð frekar í tvær, fimm eða fimmtán mínútur. Þá átti ég eftir að segja það sem ég ætlaði helst af öllu að segja í því bloggi, en svo var bara ekki meira sagt. Eftir að hafa sofið teinréttur, sitjandi beint framan við tölvuna setti ég hana á "hvíla" eða hvað það nú heitir og gekk sjálfur til minnar hvílu.
 
Þessi ávöxtur heitir persimona hér og er með mjúku kjöti sem mér sýndist vera upplagt til sultugerðar. Ég talaði um það við Rósu og Pétur þar sem þau eru svo dugleg að afla sér upplýsinga um ýmislegt, til dæmis á google, en ég er hins vegar þannig að ég vil vita það áður en ég les mig til. Pínulítið er ég væntanlega ýkinn núna en ég finn samt fyrir þessari tilhneigingu. Leti kannski. Svo er líka eitt. Þegar ég les uppskriftir er svo oft talað um efni sem ég veit engin skil á.
 
Hér er alla vega búið að gangsetja sultugerð og afraksturinn var góður, það góður að Guðjón frá Kálfafelli hóf svo sultugerð í gær. Afrakstur minn var mikið súrari en afrakstur Rósu enda ekki sama uppskrift, þannig að ég hélt bara áfram og gerði nýja uppskrift og notaði enga sítrónusýru í hana. Síðan blandaði ég báðum uppskriftum mínum saman og þá varð úr þessu sulta sem alla vega var ágæt í pönnukökurnar sem við bökuðum í dag. Er það ekki svona sem góðir kokkar verða til; að voga og reyna sig á uppskriftunum þar til árangurinn verður góður. :)
 
Sjáið bara, hver krukkan á fætur annarri fylltist af sultuframleiðslunni á Sólvöllum. Mér finnst gaman að þessu, ótrúlegt en satt. Nei, það er reyndar ekkert ótrúlegt en alveg nauðsynlegt við mínar aðstæður. En ég var að reyna að vera skemmtilegur þegar ég tók þessa mynd og blandaði saman þarna á myndinni Húsavíkurreyktu lambalkjöti og sultu framleiddri á Sólvöllum í Lekebergshreppi í Svíþjóð. Svíum var svo boðið upp á þetta hangikjöt í dag eins og kom fram í blogginu mínu um afmælisdaginn hennar Valdísar fyrr í dag.
 
Ég sendi gestina mína upp á loftið á Bjargi til að taka af þeim mynd þar. Þá fékk ég svolitla viðmiðun þannig að fólk gæti áttað sig á hvílík góð geymsla er þar uppi. Ég er svo sem ekki búinn þarna en gólfið er tilbúið og rammgert og 30 sm einangrun er undir því þannig að það á ekki að tapast svo mikill hiti upp frá herberginu og geymslunni þar undir. Ég á eftir að setja meiri einangrun út undir þakfótinn og klæða með tveimur eða þremur borðum upp á stoðirnar sem sjást til hliðanna. Þetta verk má bíða fram í september á næsta ári en það má líka vinnast mikið fyrr ef svo vill.
 
Svo er líka gaman að fá nærmyndir af fólki. Þarna þótti Hannesi líka gaman að láta taka mynd af sér. Fyrir honum var auðvitað himinhátt að fara þarna upp og ferðin hreint ævintýri.
 
Hannesi fannst afi hálfgerður trassi að haf allan þennan snjó á veröndinni. Hann sótti því hamarinn sinn, þennan með gúmmífingurbjörg á skallanum, og braut burtu frosinn snjóinn. Hann vildi dansa á pallinum og vildi fjarlgja hálkuna fyrst. Þegar hann var búinn að vinna bug á hálkunni var dansinn gleymdur þó að útvarp með tónlist væri komið út í glugga. Það er að mörgu að huga á Sólvöllum.
 
Það er spurning hvort ég er orðinn montinn. Eitthvað dró mig alla vega að myndavélinni og að taka mynd af steikta kjúklingnum sem ég bauð gestunum upp á á föstudagskvöldið. Blandan af papriku, lauk, hvítlauk, engifer, kartöflum og kannski einhverju fleiru sem sést þarna á pönnunni hélt ég að væri nokkuð sem væri einkenni Sólvallabóndans. Ég er búinn að komast að því að svo er ekki og bara gaman að heyra það. En Rósa og Pétur kenndu mér hvers konar sósur ég get keypt í mjólkurdeildum verslananna til að hafa út á þennan rétt. Ég er handviss um það að þessi réttur er hollari en meðalholl fæða. Ég bara finn það á mér.
 
Það var tvennt sem ég ætlaði að segja frá í stuttu bloggi í gær áður en ég sofnaði á skrifarastólnum. Annað var um það að Valdís hefði átt afmæli í dag en nú er ég búinn að blogga um það. En hitt er verulega merkilegt mál. Nú verða allir að setjast sem gera það ekki nú þegar.
 
H
L
U
S
T
I
Ð
!!!
 
Í gærkvöldi sótti ég um inngöngu í býflugnaræktunarskóla í Örebro.
 
Þetta er búið að vera á dagskránni í all langan tíma. Meira að segja er ég búinn að heimsækja býflugnabændur í Huddinge syðst í Stokkhólmi. Það var hjá þeim Þórhalli lækni og Völu kennara sem þar búa ásamt börnum sínum. Svo fann Rósa heimasíðu skólans hér í Örebro í gærkvöldi og sendi mér í e-pósiti hér milli herbergja á Sólvöllum. Ég var varla búinn að fá heimasíðuna til mín þegar ég var búinn að sækja um og ég tel mig innritaðan. Allt er sjötugum fært.


Kommentarer
Björkin

Mikið farið gegnum huga minn í dag.Kertaljós við myndina og ég setið og prjónað.Gaman að sjá myndirnar og hvað þið hafið haft góða helgi.Góða nótt mágur minn og líði þér vel.

Svar: Takk sömuleiðis mágkona og góða nótt.
Gudjon

2013-11-24 @ 21:49:53


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0