Töfrakona

Á leiðinni heim frá Vornesi í morgun kom ég við hjá töfrakonu í Vingåker. Þetta er fyrrverandi hjúkrunarfræðingur sem síðar fékk þá köllun að gera eitthvað fyrir fólk til að forða því frá veikindum eða alla vega að fresta því að fólk veiktist. Því lærði hún sjúkranudd og nálastungur. Hún var dugleg þessi kona við að gera mér lífið bærilegra á síðustu tveimur árunum fyrir mjaðmaaðgerðina. Síðast þegar ég fór til hennar og hafði beðið um nuddtíma að vanda, spurði hún hvort ég vildi ekki prufa nálar líka sem ég jú þáði. Við þá meðferð lagaist ég mikið um tíma og varð mikið hressari. Nú vildi ég prufa þetta aftur til að hressa mig eftir svartasta skammdegið og eins vegna þess að hryggjarliðir milli herðablaðanna vilja festast og því ekki að athuga hverju hún getur komið til leiðar.

Hún sallaði á mig töluverðu af nálum og allar ullu smá rafmagnsstuði og sumar meiru, ein svo hressilega þegar hún stakk í annan hælinn að fóturinn kipptist við og nálin losnaði úr aftur. Ég sofnaði á bekknum að því er virðist því að mig dreymdi að ég væri lagður af stað frá Vingåker til Örebro og allt í einu hljóp hvítur héri yfir veginn spölkorn fyrir framan bílinn. Hún fiktaði eitthvað við hárið aftan við gagnaugun og þá fann ég fyrir rafmnagni kringum nál sem stóð í hvirflinum og svo gæti ég haldið áfram. Nú ætti að vera auðskilið hvers vegna ég tala um töfrakonu.

Engan sá ég hérann á leiðinni til Örebro en þess meira fólk var úti á Hjälmaren að pimpla. Það hefur gert smá él að undanförnu þannig að snjórinn helst alltaf jafn hvítur. Það er snyritilegt landið en erfitt hlýtur það að vera fyrir þann aragrúa minni dýra sem þar berjast fyrir lífi sínu. Smádýrn eins og mýs lifa víst góðu lífi undir snjónum þar sem jörð er þýð undir þekjunni. Viss óvinsæl skordýr lifa þar líka góðu lífi og munu heimsækja okkur í fullu fjöri síðar ef ekki kemur eitthvað frost eftir að snjóa leysir.

Húsið sem við byggðum í Hrísey er 340 rúmmetrar. Snjóhaugarnir vestan við Örebrú sem búið er að hreinsa af götum í borginni eru hins vegar 300 000 rúmmetrar. Langar lestir af vörubílum og dráttarvélum með stóra vagna eru í viðstöðulausum ferðum að og frá borginni frá morgni til kvölds við að flytja burtu snjó svo að það verði pláss fyrir meiri snjó þegar næst snjóar. Það er reiknað með því sem vísu að það muni snjóa meira.

Meðan þessir snjóflutningar standa yfir baukum við Valdís við að sortera hafurtaskið okkar eins og fyrri daginn. Sumt fer í viðeigandi gáma á haugunum, annað til hjálpræðishersins og enn annað í kassa sem eiga að halda utan um það þangað við pökkum því upp á nýju heimili. Í þessu öllu tölum við talsvert um ferð til Finnlands, eða langt upp í Norðurland, rútuferð til Noregs eða fara einn rúnt með ferju við vesturströnd Noregs, Hurtigruten. Það má kíkja á það hér:

http://www.hurtigruteninpictures.com/

Kannski væri skinsamlegra að nota peningana þannig í staðinn fyrir að reyna að kaupa hamingju gegnum dauða hluti sem valda svo fyrirhöfn þegar þarf að henda þeim eða gefa til hjálpræðishersins.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0