Ja, af hverju ekki?

Ein minning hefur bergmálað í höfðinu á mér mest allan daginn og þó að ég hafi trúlega bloggað um þetta áður læt ég það fara aftur. Það var í september 1993 og ég var út á lóðinni heima við Sólvallagötuna í Hrísey eitthvað að bardúsa. Valdís kom út í dyrnar og sagði að Ingólfur Margeirsson hefði hringt og spyrði eftir mér. Ég gekk inn og eftir að við höfðum við heilsast sneri Ingólfur sér þegar að erindinu. Hann sagði að ég hefði talað um það við sig að hugsa til mín ef hann vissi um vinnu sem gæti hentað mér, en við Valdís vorum þá þegar með það í huga að flytja frá Hrísey. Ingólfur spurði mig nú hvort ég gæti ekki hugsað mér að flytja til Svíþjóðar vegna atvinnutækifæris þar. Ég varð mjög undrandi en sagði ekki nei og leit á Valdísi sem fylgdist með samtalinu. Ég sagði við hana að hann spyrði hvort við vildum flytja til Svíþjóðar þar sem ég gæti hugsanlega fengið vinnu. Valdís sagði ekki heldur nei og þar með sagði ég Ingólfi að við vildum hugleiða þetta þó að hugmyndin virkaði all galin. Fimm mánuðum seinna fór ég til Svíþjóðar og Valdís kom þremur mánuðum seinna og við erum hér enn. Það vakti furðu mína að strax meðan á símasamtalinu við Ingólf stóð að Valdís aftók þetta ekki.

Þetta voru mikil þáttaskil í lífi okkar og stundum velti ég því fyrir mér hvort ég væri orðinn galinn. Ég man til dæmis vel eftir því þegar þotan var á leið að flugstöðvarbyggingunni á Arlanda og ég horfði niður í blá ljós í brautinni að ég velti því fyrir mér hvað ég væri eiginleg að gera, þetta væri alger bilun, en væri þó gott tækifæri til að heimslkja Rósu og Pétur sem þá voru búin að vera hálft ár í Stokkhólmi. Þegar ég svo hitti þau á flugvellinum á Arlanda fannst mér sem ég væri verulega bjánalegur og til að bæta aðeins úr því spurði ég hvar blaðamennirnir væru. Núna eru ný þáttaskil þar sem við erum búin að selja íbúðina í Örebro og erum flutt tímabundið í sveitina.

Veðráttan hefur ekki leikið við okkur varðandi þennan búferlaflutning. Það var mikið langt frá því þegar við skrifuðum undir sölusamning þann 17. desember að við yfir höfuð mundum lenda í að flytja í þessari vetrarveðráttu í lok febrúar. Menn segja núna að svona veðrátta hafi ekki komið í 33 ár og svo kom hún þegar við Valdís síst vildum. Við fengum hann Mikka bónda til að koma á stóru dráttarvélinni sinni og ryðja aðeins í kringum innkeyrsluna. Hann vildi ekki ryðja heim að húsinu þar sem jörð er þýð og það hefði getað orðið jarðrask. Svo töluðum við um veðrið eins og menn virkilega gera hér um þessar mundir. Að lokum sagði Mikki; en þú veist hvernig sumarið er hér hjá okkur, mundu það og að sumarið er á leiðinni. Hann vildi mér vel með þessum orðum.

En svo var eitt sem ég átti erfitt með að segja frá, að vera að flytja inn í vatnslaust hús. Það var hallærislegt. Vatnsinntakið var frosið. Í gær var ég lengi hér og barði mig niður í frerann bakvið húsið þar sem inntakið er. Svo setti ég þar rafmagnsofn í holuna og lét hann blása í átt að inntakinu í nokkra klukkutíma en ekkert skeði. Á níunda tímanum í gærkvöldi fór ég heim með lafandi skottið og var ekki sérstaklega stoltur. Strax þegar við komum hingað í morgun setti ég ofninn á að nýju og hann hefur blásið allan daginn. Með jöfnu millibili hef ég farið að krananum og vonað og prufað en ekkert skeði. Núna 20 mínútur fyrir ellefu fór ég að krananum og hafði vatn í ausu sem ég hélt upp við kranann og ætlaði að sjá hvort það kæmu loftbólur. Það komu engar loftbólur en hins vegar vatnsgusa sem ýrðist út um allan eldhúsbekkinn. Við yngdumst upp um fjölda ára á einni sekúndu. Það var ekki hallærislegt lengur að hafa flutt í sveitina. Það hefur verið mikið vandamál í Svíþjóð þetta með frosin vatnsinntök.


Það var hellings vinna við að moka sig að geymslu og viðargeymsludyrum en góð áreynsla í hreinu lofti.


Valdís var að kíkja eftir plássi í þessari geymslu og þarna er hún að horfa á snjóinn í stóru Sólvalllaeikinni


Mikki búinn að ryðja innan við innkeyrsluna svo að flutningakallarnir gætu athafnað sig.


Svona er það vítt og breytt um alla Örebro þó að búið sé að flytja nokkur hundruð þúsund rúmmetra af snjó á bílum og dráttarvélum út fyrir borgina.


Kommentarer
Rósa

Fall er fararheill!



Kveðja,



R

2010-02-24 @ 09:37:34
Guðjón Björnsson

Ég verð nú að viðurkenna að ég er búinn að gæla heil mikið í laumi við þennan málshátt undanfarið. Takk Rósa.



Kveðja,



pabbi

2010-02-24 @ 11:00:18
URL: http://gudjon.blogg.se/
Þórlaug

Til hamingju með að vatnið er komið aftur á.

Ykkur á eftir að líða vel í öllum snjónum á Sólvöllum þegar flutningunum verður lokið. Svo getið þið fylgst með vorkomunni í sveitinni sem er svo mikið skemmtilegra en inni í borginni.



Bestu kveðjur til ykkar beggja,



Þórlaug

2010-02-24 @ 17:53:06
Guðjón Björnsson

Þakka þér fyrir fallegu orðin þórlaug mín, það var hressandi að fá þessar línur. Þetta með vorkomuna er nú það sem við hlökkum virkilega til.



Með bestu kveðju frá Sólvöllum

2010-02-24 @ 21:39:28
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0