Helgarlok

Nú er ég óttalega fátækur í anda og lúinn enda var síðasta nótt eiginlega vinnunótt sem þýðir að ég fékk ekki svefninn sem ég þarf, það er að segja átta tíma eins og börnin. Það var þó bót í máli að fólkið sem ég var að vinna með þennan sólarhring, fólkið sem á þá ósk að verða betri manneskjur, sagði svo margt fínt sem þeir einir geta sagt sem tala um þrár sínar og væntingar beint frá hjartanu. Ég er í startholunum núna að stinga mér í bólið og ég veit að félagi minn lokbrá verður nálægur.

En áður en ég leggst á koddann verð ég að segja frá því að hún Valdís kona mín sat ekki auðum höndum meðan ég var þennan sólarhring í vinnunni. Hún hefur komið svo miklu vel fyrir hér heima og enn einu sinni sorteraði hún í bláa IKEA haldapoka og innihald þeirra á að fara á haugana. Þeir eru þegar komnir í bílinn. Dag frá degi líkjast Sólvellir meira og meira heimili. Og hlýtt var að koma heim, það logaði mjúklega í kamínunni, og ég fékk vöfflur með rjóma í verðlaun fyrir að skila mér.

Það falla til önnur verkefni hér en það gerði á Mejramvägen í Örebro. Ég bar inn við úr birgðageymslunni sem kemur til með að nægja til upphitunar í heila viku og maturinn ferfætlinganna, epplin og gulræturnar, er kominn á sinn stað úti í náttmyrkrinu og bíður matargestanna. Ruslatunnan var líka að mestu á kafi í ruðningnum við veginn og hún er tilbúin til tæmingar þegar sorpbíllinn kemur eldsnemma á þriðjudagsmorguninn.

Við fylgdumst áðan með lokasprettinum í 50 km skíðagöngu þar sem svíinn Johan Olsson fékk brons og þar með eru svíar búnir að fá ellefu verðlaun. Valdís fylgist vel með þessu og gefur mér skýrslu og við hrífumst með svíunum þegar verðlaunin eru afhent og hljómsveitin leikur Du gamla du fria.

Í kvöld hefur snjóað og veðurfræðingur var að segja frá því áðan að veðrið sem hefur skekið til Frakkland komi til með að gefa okkur meiri snjó af alsnæktum sínum. Gott að snjórinn er runninn af Sólvallaþakinu. Þá þolið það mikla snjókomu ef svo skyldi fara.

Fátækur var ég í anda sagði ég í byrjun og nú er mál að linni enda býst ég við að Óli lokbrá sé orðinn óþolinmóður. Kannski draumar næturinnar verði með þeim fallegri, hver veit?



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0