Að vera heiðarlegur . . .

Fyrir nokkrum árum árum hófst framhaldsþáttur í sænska sjónvarpinu sem hét Sumarhúsið. Hann fjallaði um gamalt og lúið hús sem nokkrar manneskjur tóku sig til við að lagfæra og endurnýja og komu þarna fram ýmsar hugmyndir og aðferðir við að koma gömlu húsi í gott stand. Þessum þáttum stjórnaði maður sem heitir Ernst. Þegar þessi þáttaröð hófst vorum við einmitt að vega og meta hvað við vildum gera fyrir okkar sumarhús og við tókum hann upp til að geta lært af honum síðar. Ernst var virkilega skemmtilegur í þessum þáttum þó að hann væri fram til þess tíma algerlega ókunnur sem sjónvarpsmaður. Svo liðu misserin og okkur fannst sem Ernst yrði drjúgur með sig og við misstum að stórum hluta áhuga á honum vegna þessa. Í framhaldinu af framhaldsþáttunum um Sumarhúsið fór Ernst að koma fram í öllu mögulegu sjónvarpsefni af ólíku tagi.

Fáeinum árum eftir að Ernst fyrsta sinni birtist á skjánum var haft viðtal við hann við eitthvað hátíðlegt tækifæri og líklega hefur það bara verið á síðasta ári. Hann var meðal annars spurður eitthvað í þá áttina hvaða verkefni hann teldi sig eiga eftir að uppfylla í lifi sínu. Þarna sat þessi liðlega fimmtugi maður alvarlegur, þægilegur, án allra látaláta og gaf svo ótrúlega falleg svör við spurningum stjórnanda þáttarins og það var allt svo fölskvalaust og ekta. Hvað skyldi það svo hafa verið sem honum fannst mikilvægt að ljúka áður en hann yfirgæfi þennan heim? Jú, honum fannst mikilvægt að honum tækist að færa yfir til barna sinna og verðandi barnabarna, eða hvernig hann nú orðaði það, allar góðar hefðir og venjur sem hefðu verið í góðu gildi hjá kynslóðum liðinna tíma, þær hefðir og venjur sem hans fólk hafði gefið honum í veganesti. Svo virtist sem honum þætti hann ekki vera búinn að ljúka þessu á þann hátt sem honum bæri, sérstaklega hvað ófæddu barnabörnin áhrærði.

Ég man vel hvað okkur Valdísi fannst við sjá þarna aðra hlið á þessum manni en við hefðum veitt athygli fram til þessa. Eftir þetta hefur mér staðið nákvæmlega á sama um hlátrasköll hans sem oft heyrast áður en hann birtist á skjánum því að mín skoðun er sú að hjarta hans sé hlýtt og gott og samviskan ótvíræð. Hann vill deila með afkomendum sínum því besta sem hann fékk í veganesti. Ég fékk þarna lexíu í því að dæma varlega og sýna fólki auðmýkt, meira að segja á sjónvarpsskjánum. Þessi maður hefur einnig fengið mig til að spyrja sjálfan mig hvaða góðar hefðir og venjur mér hafi borið og beri að færa yfir til afkomenda minna.


Hér er mynd af yngsta barnabarninu mínu, honum Hannesi Guðjóni, sem er tæplega fimm mánaða á myndinni. Hvaða góðar hefðir og venjur ber mér að erfa hann að. Sannleikurinn er sá að við íslendingar erum fátækari af slíku en til dæmis Svíar. Það er alla vega mín skoðun. Í morgun talaði ég um þessa mynd og ímorgun var fyrirsögn að blogginu mínu "Að vera . . .", núna á þessu sunnudagskvöldi er hún "Að vera heiðarlegur . . ." og sjáum svo hverju fram vindur. Síðar ætla ég að segja frá því sem ég tel að mér beri sem afa að erfa barnabarnið mitt að.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0