Nokkur orð frá Snælandi

Þegar ég kom út í Vornesi upp úr kl. sex í morgun var komið 15 sem nýsnævi á það sem fyrir var. Ég tók strákústinn við dyrnar og ýtti honum á undan mér til að fá ekki allt of mikinn snjó niður í uppháu gönguskóna mína. Þegar ég hafði svo opnað þær dyr sem ég þurfti og hitt nokkra sjúkllinga sem voru komnir út á dyrapallana, þá liðuðust fallegar slóðir milli húsanna. Ég geri þetta alltaf þegar snjóað hefur á næturnar. En þessar fallegu slóðir mína áttu ekki langa lífdaga. Skömmu fyrir klukkan sjö kom hann Roland á dráttarvélinni með snjóruðningstönnina í bardagastöðu og á skammri stundu höfðu listaverkin mín lifað sitt fegursta.

Ég leyfði mér að dreyma um að það hefði snjóað minna á Örebrosvæðinu en þegar ég kom þangað var það bara staðreynd að þar hafði jafnvel snjóað meira en í Södermanland. Valdís hafði eins og kona af sönnu víkingakyni verið iðin við kolann hér heima. Það voru stórir pokar og kassar tilbúnir til brottfarar. Það var ekki eftir neinu að bíða, leið mín lá með þessa poka og kassa í Mýrurnar og á haugana. Síðan fórum við á Sólvelli.

Mitt hlutverk þar í dag var að moka snjó af geymsluþaki sem ég var orðinn hræddur um. Snjórinn á þakinu var orðinn rúmlega 60 sm djúpur og vel pressaður neðst. Þakið var farið að bogna inn enda er það alls ekki gert úr garði sem traust þak. Konan af víkingakyninu lét sér ekki fallast hendur meðan á snjómokstri mínum stóð. Hún raðaði í kommóðuskúffur, hengdi á herðatré, raðaði bókum á hillur og enn einu sinni tíndi hún helling í poka sem eiga að fara í Mýrurnar og slatta sem á að fara í sorteringu á haugunum. Ja -þvílík hreinsun Valdís.

Á morgun förum við varla á Sólvelli þar sem spáð er 30 til 40 sentimetra nýsnævi og fólki eindregið ráðlagt að halda sig heima. Það er líka á nógu að taka hér heima. En nú fer jafnvel fólki af víkingakyni að blöskra snjórinn. Það er eins gott að það er ekki stormur með þessari snjókomu. Þá væru víða hræðilegir skaflar. Fuglar, dádýr og hérar eru farin að dragast að húsum þar sem fólk gefur gjarnan gulrætur og epli. Við eitt hús sáum við átta dádýr þegar við vorum á leiðinni á Sólvelli. Skýrslugerð minni lýkur hér með á þessum degi. Það er ekki mikill tími aflögu þessa daga en eftir mánaðamótin fæ ég tíu daga frí frá vinni. Ég vænti þar góðra daga.

Valdís hefur sett inn svolítið af myndum að undanförnu http://www.flickr.com/photos/valdisoggudjon/ Góðar stundir og kveðjur frá Örebro



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0